Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 21:15:41 (18)

1997-10-02 21:15:41# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:15]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur. Við upphaf núverandi stjórnarsamstarfs reyndi stjórnarandstaðan að veikja tiltrú þjóðarinnar á ríkisstjórninni og störfum hennar með því að tala um að þetta yrði stjórn íhaldsemi, stöðnunar og afturhalds. Enn hlýðum við á þennan söng forustumanna stjórnarandstöðunnar en reynslan hefur sýnt og sannað allt annað.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a.: ,,Efnahagslegur stöðugleiki og jafnvægi í ríkisfjármálum eru forsenda framfara, lágra vaxta, öflugs atvinnulífs og atvinnuöryggis.`` Samkvæmt þessum boðskap hefur ríkisstjórnin unnið og árangurinn er að sýna sig. Verðbólga er í lágmarki, kjarasamningar gerðir við þorra launþega til þriggja ára, hagvöxtur meiri en verið hefur um árabil, jafnvægi að nást í ríkisfjármálum sem leiða mun til lægri vaxta og lækkunar erlendra skulda. Öflug uppbygging atvinnulífs hefur fjölgað störfum um sjö þúsund frá 1995 og útlit fyrir tvö þúsund ný störf á ári næstu tvö til þrjú árin og dregið hefur úr atvinnuleysi. Róttækar breytingar eru að eiga sér stað í banka- og sjóðakerfi landsmanna. Unnið er við stórvirkjanir og ný iðnfyrirtæki rísa. Er þetta merki um íhaldssemi, stöðnun eða afturhald? Hér getur hver svarað fyrir sig en verkin tala og það er mikilvægast.

Þrátt fyrir allt niðurskurðartal hafa fjárveitingar til ýmissa samfélagslegra verkefna verið auknar og fjölmörg ný viðfangsefni litið dagsins ljós svo sem á sviði menntamála, félagsmála og heilbrigðismála. Samþykkt hafa verið ný lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna og þeim fylgt eftir með auknum fjárframlögum.

Vissulega er staðan í kjarasamningum kennara áhyggjuefni og við verðum að treysta því að á allra næstu dögum náist þar ásættanleg niðurstaða. Festa og sátt þarf að ríkja í skólastarfinu svo það geti þróast eðlilega.

Á sviði tölvu- og fjarskipta er þróunin hraðari en hönd á festir og þar þarf menntakerfið að fylgja með því möguleikarnir virðast nánast óþrjótandi.

Þrátt fyrir allar þessar breytingar, framkvæmdir og ný viðfangsefni sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir er vissulega margt ógert og eitt og annað sem betur mætti fara. Ég hef t.d. áhyggjur af stöðugum búferlaflutningum til suðvesturhornsins og minnkandi áhuga fólks á búsetu og fjárfestingum úti á landsbyggðinni. En hvað geta stjórnvöld gert til að hafa áhrif á þá þróun? Atvinnuástand á landsbyggðinni er víða mjög gott og sums staðar svo að manna þarf fyrirtækin með erlendu vinnuafli. Tekjumöguleikarnir eru því yfirleitt góðir. Skóla- og heilbrigðisþjónusta er sem betur fer víðast svo að varla verður mikið betur gert. Á því sviði þurfa stjórnvöld þó að gæta sín. Krafan um nauðsynlegt aðhald og eðlilega hagræðingu er sjálfsögð í öllum opinberum rekstri hvort heldur er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. En samfélagslegi þátturinn er oftast miklu viðkvæmari á hinum smærri stöðum og hvert stöðugildi sem setið er af langskólagengnu fólki í framhaldsskólanum, heilsugæslustöðinni eða sjúkrahúsinu getur skipt sköpum um búsetuþróun í litlu byggðarlagi. Þetta verður ríkisvaldið einnig að hafa í huga þegar metið er æskilegt eða nauðsynlegt þjónustustig opinberra stofnana og staðsetning þeirra. Okkur hefur tekist að byggja upp öflugt velferðarþjóðfélag. Það velferðarþjóðfélag ætlum við að varðveita.

Hæstv. forseti. Svo sem fram kom í ræðu forsrh. mun ríkisstjórnin leggja mikla áherslu á umhverfismál í störfum sínum. Fyrr á þessu ári samþykkti ríkisstjórnin framkvæmdaáætlun til aldamóta um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Vonast ég til að um framkvæmdina geti tekist eins góð samvinna við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins og frjáls félagasamtök og tókst með þessum aðilum við stefnumótunina sjálfa. Í áætluninni er gert ráð fyrir að iðnrh. í samráði við umhvrh. láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árið 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum auk ferðaþjónustunnar. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þeirra mörgu verkefna sem í gangi eru og áframhaldandi umræðu um orkunýtingu og stóriðjuuppbyggingu og nauðsyn þess að tekið verði fullt tillit til náttúruverndarsjónarmiða í því sambandi. Þessi stefnumótunarvinna má því ekki dragast.

Ríkisstjórnin hefur tekið fullan þátt í því samningsferli sem nú stendur yfir um loftslagsbreytingar og gróðurhúsa\-áhrif og áætlað er að ljúka í Kyoto í Japan í desember. Æ fleiri sérfræðingar telja að loftslagsbreytingar af mannavöldum sé eitt alvarlegasta umhverfisvandamál sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir og krafan um raunhæfar aðgerðir til að draga úr þessum breytingum fer vaxandi. Þótt útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi sé vart mælanlegt í alþjóðlegu samhengi, eða um 0,01% heildarútstreymis frá jörðinni, ber okkur að taka fullan þátt í umræðum og aðgerðum á þessu sviði. Ég mun á næstu dögum leggja fyrir Alþingi skýrslu um loftslagsbreytingarnar og gera þá frekari grein fyrir stöðu þeirra mála.

Nýlega samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um umhverfisstefnu í ríkisrekstri. Ég treysti því að starfsmenn ráðuneyta og stofnana fylgi þessum leiðbeiningum og æskilegt er að önnur starfsemi í þjóðfélaginu fylgi þessu fordæmi. Vaxandi áhugi og umræða er nú meðal almennings í landinu um alla þætti umhverfismála en jafnljóst er að nauðsynlegum aðgerðum og umbótum verður ekki komið á nema með víðtækri þátttöku allra. Þar duga skammt boð eða bönn stjórnvalda ein og sér.

Almennt er talið að staðan í landbúnaðinum sé nokkru betri nú en hún hefur verið undangengin ár. Jafnvægi er í birgðum sauðfjárafurða og batnandi horfur í útflutningi. Ýmsum aukabúgreinum hefur vaxið fiskur um hrygg svo sem loðdýraræktinni. Lífræn og vistvæn framleiðsla virðist einnig eiga framtíð fyrir sér ef marka má undirtektir neytenda. Rannsóknir og kynbætur á korni eru nú að skila árangri og víða um land hefur um nokkurra ára skeið tekist að rækta korn til fóðuröflunar fyrir búfénað.

Verið er að endurskoða búvörusamning um mjólkurframleiðslu. Undirbúningur að gerð samningsins hefur farið fram í svokallaðri sjömannanefnd sem er skipuð fulltrúum bænda, ríkis og aðilum vinnumarkaðarins. Samningagerðinni þarf að ljúka á þessu hausti svo nægur tími verði til umræðna á Alþingi og bændur viti með góðum fyrirvara hvernig rekstrarumhverfið verður í framtíðinni.

Stefnt er að því setja ný lög um búnaðarmál þar sem stuðningur við jarðrækt, búfjárrækt, leiðbeiningaþjónustu og nýsköpun í landbúnaði verður einfaldaður og færður í nútímalegra horf. Með nýju frumvarpi til búnaðarlaga er gert ráð fyrir því að samið verði um framlög til þeirra mála með svipuðum hætti og samið hefur verið um stuðning við sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu.

Á síðustu ráðstefnu þjóðarleiðtoga hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, var fjallað um matvælabirgðir í heiminum og möguleika á að brauðfæða þjóðir heims. Niðurstaða þessarar miklu ráðstefnu var í stuttu máli sú að ef miðað er við núverandi matvælaframleiðslu og tölur um mannfjölgun þá sjá menn enga leið til lausnar á þessum vanda að 20--30 árum liðnum. Okkur ber því nánast skylda til að stunda á Íslandi landbúnað sem nýtir á skynsamlegan hátt þau náttúrulegu gæði sem hér eru fyrir hendi. Íslenskir bændur framleiða hollar, góðar og ómengaðar landbúnaðarvörur. Með nýrri og aukinni þekkingu og tækni er landbúnaður stundaður í sátt við náttúruna. Þau fáu undantekningartilvik sem þar eru á eru aðeins til þess að takast á við og leysa. Þetta veit ég að bændastéttinni er fullkomlega ljóst og er reiðubúin til samvinnu við stjórnvöld um úrbætur.

Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur. Það er kostnaðarsamt að reka íslenskt þjóðfélag. Það er dýrt að búa fá í stóru landi en íslenska þjóðin hefur með dugnaði sínum sýnt og sannað að þetta er hægt. Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar munu áfram gera það sem í þeirra valdi stendur til að treysta atvinnulífið, efla menntunina og tryggja velferðarkerfið svo við getum með bjartsýni og reisn gengið mót nýrri öld. --- Ég þakka áheyrnina.