Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 21:23:46 (19)

1997-10-02 21:23:46# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, KH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:23]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Forsrh. brá ekki þeim vana sínum að sniðganga konur og kvennabaráttu í stefnuræðu sinni. Að hans mati virðist engin ástæða til að hafa áhyggjur af ójafnri stöðu kvenna og karla --- og eiginlega þvert á móti. Það er honum og flokki hans til vansa að flokkssystir hans skuli hafa lagt sig fram um að koma í veg fyrir stofnun jafnréttisnefndar á vegum Evrópuráðsins á dögunum.

Það er vægast sagt sérkennileg áhersla og eykur ekki á vonir manna um að Sjálfstfl. taki sig á í þessum efnum áður en 21. öldin gengur í garð. Andvaralausir skynja þeir ekki vaxandi þunga þessarar baráttu víða um heim. Meira að segja framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lýst því yfir að hún vilji gefa jafnréttismálunum forgang, sérstakan forgang.

Fyrr á þessu ári átti ég þess kost að sitja ráðstefnu þingmanna frá 78 þjóðlöndum þar sem karlar og konur í jöfnum hlutföllum ræddu það eitt í heila fjóra daga hvernig mætti efla og tryggja þátttöku kvenna í stjórnmálum. Ekki hvort eða hvers vegna heldur hvernig. Meginniðurstaðan var sú að ekkert nútímalýðræðisríki gæti sætt sig við neitt minna en jafnræði kvenna og karla í stjórnmálum, þar sem mismunandi reynsla kynjanna nýttist til jafns. Lýðræðið sjálft væri í húfi. Það þarf að koma á kynjaðri hugsun og tengja baráttuna fyrir jafnri stöðu og jöfnum rétti kynjanna við alla aðra þætti stjórnmálanna eins og Kvennalistinn hefur ávallt lagt áherslu á. Þetta mættu menn hafa í huga við undirbúning komandi sveitarstjórnarkosninga.

Það var bjartsýnistónn í stefnuræðu forsrh. enda árar nú betur til lands og sjávar en verið hefur um langt skeið. Sterkar vísbendingar eru um framhald þess góðæris og gleðilegasti vottur þess er fólginn í niðurstöðum seiðatalningar á þessu ári, sem gefa til kynna styrkari grunn undir hinni einu sönnu stóriðju okkar Íslendinga, fiskveiðum og fiskvinnslu. Nú ríður á að ganga vel um þá auðlind sem í sjónum býr, skjóta fastari stoðum undir nýtingu hennar á visthæfum forsendum og með heildarhagsmuni umfram sérhagsmuni í huga. Nú væri lag að endurskipuleggja stjórnun á nýtingu þessarar auðlindar á grundvelli hugmynda Kvennalistans um skiptingu fiskimiðanna í grunnsjávarmið og djúpsjávarmið og aukna áherslu á byggðasjónarmið og visthæfa umgengni um fiskislóðir.

Það er uppsveifla í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Aukinna umsvifa verður mest vart á höfuðborgarsvæðinu en víða um landið má einnig sjá merki þess að bjartari sýn á framtíðina hefur tekið við af svartsýni liðinna ára. Úti um land eru það fyrst og fremst bætt skilyrði í sjónum sem auka mönnum bjartsýni og þor en einnig t.d. sívaxandi fjölbreytni í ferðaþjónustu. Jafnvel loðdýrarækt og fiskeldi gefa góða raun um þessar mundir og lífræn ræktun á mikla framtíð fyrir sér, eins og landbrh. kom að hér áðan.

En það eru fleiri greinar í vexti sem þekktust tæpast fyrir fáeinum árum og ber þar hæst hugbúnaðargerð og hvers konar starfsemi sem tengist henni. Þar eru mikil tíðindi að gerast og miklir framtíðarmöguleikar þótt forsrh. hafi ekki séð ástæðu til að víkja orðum að því efni. Hann nefndi heldur ekki gríðarlega aukin umsvif í samgöngum og m.a. fyrirheit Flugleiða um sköpun starfa fyrir 300--400 manns á næstu fjórum árum. Margur hefði séð ástæðu til að fagna slíkri atvinnusköpun sem jafnast á við eitt stykki álver af stærri gerðinni.

Þessi umsvif, sem nýlega bárust fréttir af, gefa okkur kjörið tækifæri til endurskoðunar á þeirri starfsemi sem nú er á Keflavíkurflugvelli. Nú er lag til þess að veita bandaríska setuliðinu langþráða lausn frá störfum hér á landi, störfum sem margsinnis hefur verið sagt allt frá upphafi varnarsamningsins að væru óþörf á friðartímum. Það er löngu vitað mál að Bandaríkjamenn hafa engan áhuga á að sitja þarna lengur en íslenskir ráðamenn hafa lotið svo lágt að þrábiðja þá að halda þessari óþörfu starfsemi áfram með hreina og klára gróðahagsmuni að leiðarljósi. Nú eiga Íslendingar að sjá sóma sinn í að hætta þessu relli og verða fyrri til að þakka fyrir sig. Það yrði þeim létt núna í ljósi aukinnar atvinnu á svæðinu.

En hvernig hefur góðærið skilað sér til almenns launafólks, til lífeyris- og bótaþega? Þar er því miður ekki hið sama að segja um hann Jón og séra Jón. Forsrh. gumaði af lækkun tekjuskatts, breytingum á barnabótakerfinu og á bótum almannatrygginga. Áheyrendur hljóta að velta því fyrir sér hvort honum sé alvara með slíkan málflutning eftir að tvær ríkisstjórnir undir hans forustu hafa saumað æ ofan í æ að lífeyris- og bótaþegum, klipið jafnt og þétt af kostnaðarþátttöku ríkisins í læknisþjónustu og lyfjakaupum og kórónað allt saman með því að svipta lífeyris- og bótaþega réttinum til að fylgja almennum launabreytingum. Stjórnunarstíllinn hefur verið sá í hverju málinu á fætur öðru að gera ástandið fyrst óbærilegt og laga það svo pínulítið til að geta barið sér á brjóst og sagt: Nú erum við aldeilis góðir! En staðreyndirnar tala sínu máli. Peningahyggjan ræður ofar mannúðlegum viðhorfum og ástandinu í heilbrigðiskerfinu er best lýst með orðum gamalreynds læknis, sem blöskrar svo að hann óskar sér 40 ár aftur í tímann þegar manneskjan var í fyrirrúmi og hvarflaði ekki að nokkrum manni að ýta veiku fólki út af sjúkrahúsi vegna peningaleysis. Ríkisstjórnin verður að snúa af þeirri óheillabraut.

Forsrh. minntist í ræðu sinni á umhverfismál sem er út af fyrir sig gleðilegt, og umhvrh. bætti blómum í þann garð í máli sínu áðan, en gleðin sú reyndist galli blandin því ástæðan sem forsrh. gaf fyrir því að okkur væri hagstætt að efla vægi umhverfismála var sú að ,,það ætti þátt í því að gera orkufrekan iðnað hér á landi aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta``. Á eftir þessari gullvægu setningu fylgdi svo fagnaðarrík upptalning framleiddra tonna og nýttra gígavattstunda í bráð og lengd, efalaust allt saman beint upp úr gullakistu iðnrh. og allt á hefðbundnum álnótum. Þar er nú ekki frumleikinn í fyrirrúmi.

Hvers vegna í ósköpunum dettur mönnunum ekkert annað í hug til nýtingar raforkunnar en ál og járnblendi eða önnur mengandi framleiðsla úr innfluttum hráefnum? Hvers vegna ekki t.d. framleiðsla vetnis, sem er af mörgum talið líklegt framtíðareldsneyti, eins og Kvennalistinn benti á og talaði fyrst fyrir á Alþingi fyrir átta árum. Um það fluttum við ítrekað þingmál og studdum það bæði hagkvæmnis- og umhverfisrökum.

Hvers vegna ekki að nýta rafmagn í stórum stíl til að knýja þjónustubíla af ýmsu tagi eins og vísir er að hjá Rafveitu Akureyrar? Þetta er farið að gera í vaxandi mæli víða erlendis í því skyni að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem er eitt alvarlegasta umhverfisvandamál í heiminum, vandamál sem við höfum skuldbundið okkur til að vinna gegn af öllum mætti. Fleira mætti nefna því við höfum nóg annað við raforkuna að gera en að nýta hana til mengandi stóriðju.

Og enn má nefna að til eru fleiri aðferðir við orkuvinnslu en að bylta farvegum fljóta og fossa og breyta dýrmætum landsvæðum í uppistöðulón. Þar getum við t.d. litið til Dana, sem nýjar fréttir herma að ætli nú að reisa vindmyllur svo hundruðum skiptir, og ætli þeir séu nú ekki fyrst og síðast að hugsa um umhverfið í því sambandi. Ekki skortir okkur vindinn hér á Fróni en því miður skortir ráðamenn framsýni og hugmyndaflug. Hér eru menn með blinkur fyrir báðum augum og sjá þann eina kost vænstan að bjóða landið erlendum fjárfestum undir mengandi stóriðju sem iðnríkin eru að reyna að losa sig við til þriðja heimsins. Ég segi nú bara við hæstv. umhvrh. sem talaði næstur á undan mér: Góða ferð til Kyoto til að semja við þjóðir heims um aðgerðir til að stöðva aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Stefnuræða forsrh. sætir engum tíðindum. En við þekkjum nægilega vel stefnu hans og verk ríkisstjórnar hans til að vita að verkefni stjórnarandstöðunnar verða ærin á þessu þingi. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.