Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 21:41:56 (22)

1997-10-02 21:41:56# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:41]

Geir H. Haarde (andsvar):

Herra forseti. Vera má að ræða mín hafi verið skrýtin. En skrýtnara var þetta svokallaða andsvar sem snerti að mjög litlu leyti það sem ég fjallaði um í ræðu minni. Mest var seinheppni þingmannsins þegar hann fór að tala um nýjar stöður fyrir uppgjafastjórnmálamenn. Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um það en leyfi mér að líta í áttina að sessunaut hv. þm. Úr hvaða flokki skyldi hann koma, sá fyrrv. formaður Alþfl.? Nei, menn geta misstigið sig og verið misjafnlega heppnir með það sem þeir taka sér í munn og þarna var því miður um að ræða hótfyndni sem snerist í höndunum á hv. þm.

Hv. þm. nefnir vinnutíma á Íslandi. Hann er langur, það vitum við öll. Hann hefur alltaf verið langur. Það er ekkert nýtt í seinni tíð eða í tíð þessarar ríkisstjórnar eða heldur þingmaðurinn því fram að það sé verk ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að fólk vinni langan vinnudag á Íslandi? Við erum hins vegar að reyna að gera þjóðfélagið þannig að fólk geti stytt vinnutímann, að fólk geti notið samvista við fjölskyldu sína og notið tómstunda í ríkari mæli en verið hefur. Það gerum við með því að byggja upp efnahagslífið, tryggja afkomu fyrirtækjanna og tryggja eins og ég sagði í ræðu minni að þjóðarbúskapur okkar sé samkeppnisfær vegna þess að það er partur af þeim lífskjörum sem við viljum búa fólki að það geti verið samvistum við fjölskyldu sína og það geti notið tómstunda sinna.

Um ,,ránsfenginn`` í bönkunum er best að hafa sem fæst orð. Hv. þm. þekkir það jafn vel og allir aðrir hér inni með hvaða hætti jafnaðarmenn eða alþýðuflokksmenn hafa á undanförnum árum komið að stjórn bankastofnana á Íslandi. Ég bendi bara á að lögin um að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög voru samþykkt á síðasta þingi, m.a. með atkvæðum jafnaðarmanna og að mig minnir mótatkvæðalaust. Meira að segja held ég að Alþb. hafi staðið að þeirri lagabreytingu eins og málinu var lokið á Alþingi. (ÖJ: Það er rangt.) Þetta er því miður rangtúlkun og ekki rétt með farið hjá hv. þm. Bankamálin eru í góðum farvegi undir traustri stjórn ríkisstjórnarinnar. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem hér kallar fram í, geti fengið að tala þegar aðrir þingmenn á mælendaskrá hafa lokið máli sínu en það má vera að hann hafi greitt atkvæði gegn þessu frv. eins og reyndar svo mörgum öðrum framfaramálum í þinginu. En málið fór fram með sárafáum mótatkvæðum og með atkvæðum jafnaðarmanna og þetta er gott mál og hið besta mál eins og ég veit að andmælandi minn er mér sammála um.