Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 21:54:05 (25)

1997-10-02 21:54:05# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[21:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki fara með málshátt en þetta var ræða. Það er alveg merkilegt að þingmaðurinn skuli yfirleitt nefna tólf þúsund störfin sem var kosningaprógramm Framsfl. miðað við að flokkurinn hefur ekkert gert nema að benda á hagvöxt sem hann á sáralítið í. Þingmaðurinn bendir á að hreinsað hafi verið til í félmrn. Já, við þekkjum það. Við vitum hvernig veist hefur verið að ýmsum málum og nægir að nefna Atvinnuleysistryggingasjóðinn og vinnulöggjöfina. En af því að þingmaðurinn nefndi sérstaklega Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og af því að þingmaðurinn og hans félagar veittust að fyrrverandi ríkisstjórn og Alþfl. eins og hann gerði í stjórnarandstöðu fyrir skuldaaukningu heimilanna, þá verð ég að minna á að í vor var skuldaaukningin frá því að þessi ríkisstjórn tók við orðin 60 milljarðar kr., u.þ.b. 100 millj. kr. á dag í skuldaaukningu.

Virðulegi forseti. Til þess að kaupmáttur skili sér til allra, til þess að þjóðin uppskeri eins og henni ber þá verðum við að mennta, mennta og mennta. Við jafnaðarmenn gerum okkur grein fyrir að samfélagsformið er að breytast, ekki bara á Íslandi heldur úti í hinum stóra heimi. Menn eru að hverfa frá samfélagi sem byggir afkomu sína nær eingöngu á náttúruauðlindum, frumframleiðslu eða stóriðnaði yfir í þekkingarsamfélag. Með aukinni tækni á sviði tölvunnar og alþjóðlegri samvinnu hafa landamæri breyst og spennandi möguleikar fyrir ungt fólk opnast. Jafnaðarmenn leggja áherslu á að til að mæta þessu nýja samfélagi þurfi að efla menntun og starfsþjálfun og ég minni á hvernig ríkisstjórnin hegðaði sér með starfsmenntasjóðinn og henti honum inn í Atvinnuleysistryggingasjóð með þeim afleiðingum sem það hefur. Efla menntun og starfsþjálfun til að gera sem flesta þegnana hæfa til að geta orðið virkir í Íslandi morgundagsins.

Virðulegi forseti. Ég er bjartsýn á að jafnaðamönnum á Íslandi takist að sameinast í næstu kosningum um að gera þessa sýn að veruleika.