Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:03:30 (27)

1997-10-02 22:03:30# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:03]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að flestir hafi beðið með nokkurri óþreyju eftir þessari umræðu hér í kvöld, einfaldlega vegna þess að stjórnarandstaðan hefur haft það á orði upp á síðkastið að hún hafi staðið sig fremur illa á síðustu tveimur árum og ég held að flestir geti verið sammála um það, og nú sé runninn upp sá vetur þar sem menn ætli að taka sig virkilega á og flytja meitlaðar ræður, ræður sem eftir verður tekið, og velgja nú þessari ríkisstjórn rækilega undir uggum.

Ég, eins og fleiri, hef nú verið að hlusta eftir þessari nýbreytni í ræðuhöldum í kvöld en ég verð að játa það að hún lætur á sér standa og ræða hv. þm. var því miður ósköp svipuð og maður hefur hlýtt á að undanförnu. Þetta var svona gamaldags heimsósómasöngur sem hv. þm. hefur kyrjað yfir okkur undanfarin ár og engin nýbreytni í því.

Eitt verð ég að játa, virðulegi forseti, að var þó ákaflega frumlegt. Það var hin nýja hagfræðikenning hv. þm. um það að lífskjörin hér á Íslandi hefðu batnað vegna kúariðu í Bretlandi. Og af því að hv. þm. situr nú í efh.- og viðskn. þá held ég að það væri mjög fróðlegt að hann beitti sér fyrir því að þessi nýja kenning hans um efnahagsbatann á Íslandi yrði tekin til alveg sérstakrar athugunar.

Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að það sé mjög sérkennilegt þegar hv. þm. litast um í okkar þjóðfélagi og hann tekur ekki eftir því að kaupmáttur hefur verið vaxandi undanfarin ár. Hann verður ekki var við að skattarnir hafa verið lækkaðir og fyrirheit eru um að þessi skattalækkun verði á næstu árum. Hann tekur ekki eftir því að það er afgangur hjá ríkissjóði og það stefnir í afgang hjá ríkissjóði á næsta ári miðað við framlagt fjárlagafrv. Hann tekur ekki eftir því að hér er lítil verðbólga. Hann veitir því ekki eftirtekt að skuldir hins opinbera fara lækkandi og hann tekur ekki eftir því, þrátt fyrir tal hans hér áðan um atvinnuleysi, að atvinnuleysi hefur sem betur fer minnkað og að störfum sem í boði eru er að fjölga.

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan og hv. þm. hafa gengið undir eins konar próf þar sem maður hefur fylgst með hvort þeim hefur tekist að standa við heitstrengingarnar á undanförnum dögum. Ég verð að játa það, virðulegi forseti, að falleinkunninn er því miður 0,0.