Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:08:07 (29)

1997-10-02 22:08:07# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:08]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Við Íslendingar erum í fremstu röð á mörgum sviðum. Það staðfestir nýútkomin skýrsla Sameinuðu þjóðanna þar sem 175 ríkustu þjóðum veraldar er raðað eftir því hvaða lífsgæðum þær koma til þegna sinna. Við Íslendingar lendum þarna í 5. sæti. Þær þjóðir sem á undan okkur eru eru Kanada, Frakkland, Noregur og Bandaríkin.

En við Íslendingar eru metnaðarfullir og við viljum komast ofar á þessum lista og það getum við og það eigum við að hafa að markmiði að gera. Við setjum okkur það sem markmið að vera hér með hæstu laun, að vera hér með lægstu skatta, að vera hér með traustasta velferðarkerfi og vera hér með besta menntakerfi í heimi. En til þess að við náum þessum markmiðum þurfum við að skapa fólki og fyrirtækjum í landinu sambærileg samkeppnisskilyrði og fólkið og fyrirtækin í löndunum í kringum okkur býr við. Það er það sem þessi ríkisstjórn hefur verið að gera. Og á ótrúlega skömmum tíma, í góðri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins en oftast í fullri andstöðu við stjórnarandstöðuna á Alþingi, hefur þessari ríkisstjórn tekist að tryggja hér efnahagslegan stöðugleika, bæta samkeppnisskilyrði atvinnulífsins, hætta skuldasöfnun komandi kynslóða og treysta stoðir velferðarkerfisins.

Ég vil fá að nefna nokkur dæmi þessum fullyrðingum mínum til stuðnings. Þó að það hafi algjörlega farið fram hjá hv. þm. Steingrími Sigfússyni, þá er hér efnahagsleg uppsveifla. Verðbólga er lág, hagvöxtur með því hæsta sem gerist í Evrópu. Af hverju er hann með því hæsta? Erlend fjárfesting hefur tífaldast. Atvinnuleysi þegar þessi ríkisstjórn tók við var 5%, í dag er atvinnuleysið komið niður fyrir 4% og fer lækkandi. 12 þúsund störfin sem framsóknarmenn töluðu um að þyrftu að verða til á kjörtímabilinu verða ekki 12 þúsund, þau verða miklu nær því að verða 13 þúsund eða milli 13 og 14 þúsund.

Annað dæmi: Á árunum 1991--1994 var atvinnulífið hér rekið með miklu tapi. Það gat ekki greitt hærri laun þá, enda féll kaupmáttur á þessum tíma um 10%. Nú er öldin önnur. Það gengur vel í atvinnulífinu. Það hefur tekist kjarasátt milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um verulegar launahækkanir og um umtalsverðar skattalækkanir. Þessar sameiginlegu aðgerðir þessara aðila munu skila íslensku launafólki 25% kaupmáttaraukningu á ráðstöfunartekjum. Og hvaða leið er betri en þessi til þess að ná að greiða niður skuldir heimilanna?

Þriðja dæmið: Þegar ríkisstjórnin tók við var ríkissjóður rekinn með 15 milljarða kr. halla. Núna hefur verið lagt fram á Alþingi frv. til fjárlaga sem gerir ráð fyrir því að ríkissjóður sé rekinn með tekjuafgangi. Skuldasöfnuninni er hætt. Skuldirnar fara lækkandi. En á sama tíma treystir ríkisstjórnin sér til þess að lækka skatta um 4% á árinu 1997 til ársins 2000, úr tæpum 42% í tæp 38%. Þetta þýðir fyrir fimm manna fjölskyldu með þrjú börn sem hefur 225 þús. kr. í ráðstöfunartekjur að ráðstöfunartekjur heimilisins munu aukast um 11.700 kr. á mánuði eða 140 þús. kr. á ári. Hvar er betri kjarabót? Hvaða leið er betri til þess að ná að greiða niður skuldir heimilisins?

Formaður Alþfl. gat þess í upphafsræðu sinni að nú væri ófremdarástand í heilbrigðiskerfinu. Sé ófremdarástand í heilbrigðiskerfinu núna, þá hefur ríkt þar stríðsástand þegar sá ágæti hv. þm. yfirgaf sitt ráðuneyti árið 1995. Núv. heilbrrh. tók við hátt á annan milljarð kr. í skuldahala hjá þeim stofnunum sem þar voru í rekstri. Niðurskurðurinn var að sliga sjúkrastofnanirnar og þjónustugjöldin lögðu klafa á sjúklingana. Þessu hefur hv. þm. öllu gleymt. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið ákveðið að auka að raunvirði bein útgjöld til heilbrigðismála um 4,5 milljarða frá árinu 1995 til ársins 1998, bein aukning um 4,5 milljarða.

Bætur almannatrygginganna til lífeyrisþega munu hækka um 13% árið 1997. Það er meiri kaupmáttaraukning til þessa hóps en hefur sést hér í áratugi.

Herra forseti. Þær hafa að mestu hljóðnað, raddirnar sem töluðu um þessa ríkisstjórn sem ríkisstjórn stöðnunar og afturhalds, enda hefur hún með verkum sínum sannað að þetta er ríkisstjórn athafna og framfara. Ég vil ég nefna nokkur dæmi.

Í áratug töluðu fyrri ríkisstjórnir um að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna. Það var ekkert gert, það var bara talað. Þessi ríkisstjórn er búin að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna, jafna samkeppnisaðstæður á markaði og draga úr rekstrarkostnaði sem leiðir til þess að vextir munu lækka, samkeppni mun aukast og fólkið mun fá betri þjónustu.

Annað dæmi: Í 15 ár töluðu fyrri ríkisstjórnir um að það þyrfti að stokka upp sjóðakerfi atvinnulífsins og skapa nýsköpunarsjóð fyrir atvinnulífið. Það var ekkert gert nema að tala. Þessi ríkisstjórn hefur gert þetta allt. Það er búið að sameina fjárfestingarlánasjóði atvinnulífsins flesta. Það er búið að draga úr rekstrarkostnaðinum. Það er búið að skapa fyrirtækjunum í landinu aðgang að lánsfé á sambærilegum kjörum og fyrirtæki í löndunum í kringum okkur hafa. Það er búið að útbúa nýsköpunar- og áhættulánasjóð fyrir atvinnulífið í landinu.

Í tvo áratugi töluðu ríkisstjórnir um að það þyrfti að auka stórlega erlenda fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Lengst komust þessi áform þegar þau urðu til í villtustu draumum einstakra ráðherra Alþfl. Ekki komust þau neitt lengra. Þessi ríkisstjórn er búin að gera þrjá samninga um stóriðju á Íslandi á þeim tíma sem hún hefur starfað. Þrír þeirra samninga af þeim 15 samningum sem eru í Evrópu hafa lent hér á Íslandi. Með þessu munu útflutningstekjur þjóðarinnar aukast um 16 milljarða kr., fjárfesting um 50 milljarða og það munu verða til 2.350 störf á framkvæmdatímanum. Við getum með þessu líka náð að lækka orkuverð í landinu. Nei, þessi stjórnarandstaða á að tala minna en láta verkin tala.