Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:16:29 (30)

1997-10-02 22:16:29# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:16]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Atvinnustefna ríkisstjórnarinnar sem kenna má við stóriðju og hráefnisvinnslu og hæstv. iðnrh. boðar stíft, skapar aðallega störf fyrir ófaglærða karla. Flestar iðnaðarþjóðir heims vilja losa sig við skítuga stóriðju en hér er henni boðið heim þrátt fyrir umhverfisspjöll og mengun. Boðið er upp á ódýra orku og ódýrt vinnuafl að hætti þróunarlanda. Á meðan eykst atvinnuleysi kvenna og unga menntafólkið okkar sér framtíðina fyrir sér í útlöndum. Hvers konar atvinnutækifæri er þessi ríkisstjórn að skapa unga fólkinu sem nú er að útskrifast úr háskólum landsins?

Þá vil ég spyrja hvað framsóknarmenn eiga við með að ekki verði ráðist í frekari stóriðju fyrr en eftir fundinn í Kyoto um loftslagsbreytingar. Er ætlunin að fá það alþjóðlega samþykkt að Ísland megi blása út umframmagni af gróðurhúsalofttegundum ef nágrannalöndin draga úr útblæstri, þ.e. að miðað verði við stærri svæði en einstök lönd? Ef svo er, sættir Framsfl. sig við að Ísland taki í enn meira mæli að sér mengunarhlutverkið þrátt fyrir þá gífurlegu þjóðarhagsmuni sem felast í því að varðveita hreina ímynd lands og sjávar?

Að lokum vegna tilvísana hæstv. iðnrh. og reyndar hæstv. forsrh. í samanburð við önnur lönd, þá vil ég spyrja hvort ráðherrar og þingflokkur Framsfl. hafa áttað sig á því hvar við stöndum nú í samanburði við önnur OECD-lönd hvað snertir framlög til menntamála.