Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:18:32 (31)

1997-10-02 22:18:32# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:18]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði hvort einu störfin sem menn mundu horfa á væru störf í stóriðjunni sem væru fyrst og fremst láglaunastörf. Þetta er algerlega rangt, enda hefur það margoft komið hér fram að þeir sem starfa í stóriðjufyrirtækjunum á Íslandi eru með 40--45% hærri laun en iðnaðarmennirnir sem starfa úti á almenna vinnumarkaðnum. Reynsla annarra landa á þessu sviði er líka sú að alþjóðleg fyrirtæki, þar sem þau setja sig niður, greiða heldur hærri laun en heimamarkaðurinn.

Hins vegar er í iðnrn. verið að huga að mörgum öðrum verkum og nýjum atvinnutækifærum heldur en bara stóriðjunni. Ég vil nefna dæmi. Í góðri samvinnu við tónlistarmenn höfum við verið að undirbúa aðgerðir til þess að auka útflutning á íslenskri tónlist. Í góðu samstarfi við kvikmyndagerðarmenn erum við líka með í undirbúningi aðgerðir til þess að skapa atvinnutækifæri og sölu erlendis á íslenskum kvikmyndum. Við erum með aðgerðir í undirbúningi til þess að takast á við þau vandamál sem voru á sínum tíma í textíliðnaðinum, nákvæmlega kvennastörfin, þar sem prjónastofurnar lögðust af víða um land. Nú erum við með aðgerðir beinlínis í því að byggja þá iðngrein aftur upp.

Við settum af stað verkefni sem við kölluðum ,,Átak til atvinnusköpunar`` þar sem við höfum verið beinlínis að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki, m.a. með þeirri aðstoð sem kom af arðinum sem við fengum frá Landsvirkjun af eignarhlut okkar þar. Þetta eru allt saman fjármunir sem við höfum notað til þess að standa við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Sérstök nefnd er í gangi á vegum iðnrn. til þess að kanna hvernig við getum náð að skapa sem flest kvennastörf. Ég vænti þess að sú nefnd muni skila af sér innan tíðar.

Það er enginn ágreiningur, hvorki innan Framsfl. né innan ríkisstjórnarinnar, um þau vandamál sem menn horfa á að séu hérna að skapast út af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það mun hins vegar koma í ljós hver niðurstaðan verður af því samningaferli sem núna er í gangi. Ég er þeirrar skoðunar um þetta samkomulag, sem menn eru að binda vonir við að verði undirritað í Kyoto, að þjóðir heims hafi ekki rætt nógu mikið sín á milli um hver heildarniðurstaðan eigi að vera og þess vegna verði ekki gengið frá neinum samningum þar.