Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:21:13 (32)

1997-10-02 22:21:13# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra dró hér upp hroðalega mynd af framgöngu fyrrv. heilbrrh. og öllum þeim óskaplegu gjöldum og niðurskurði sem hann hefði beitt sér fyrir. Þetta var nú ekki mikill stuðningur við núv. heilbrrh. því ég veit ekki til þess að í neinu tilviki hafi einu einasta gjaldi sem komið var á af fyrrv. heilbrrh. verið aflétt. Þetta var því í raun og veru bein árás á núv. hæstv. heilbrrh. og má þó hæstv. heilbrrh. ekki við því.

Það er að vísu rétt að fyrrv. heilbrigðisráðherrar bera líka heilmikla ábyrgð þó mesta ábyrgð beri nú sennilega hæstv. yfirheilbrigðismálaráðherra, hæstv. niðurskurðarþumalskrúfumálaráðherra, Friðrik Sophusson, í þessum málaflokki.

Ég kalla í öðru lagi hæstv. viðskrh. kjarkmikinn að hæla sér af breytingunni á bönkunum eftir niðurstöðuna sem varð með bankastjóraráðninguna. Og ég nota tækifærið, herra forseti, og óska viðskrh. til hamingju með formann bankaráðs Landsbankans.

En í þriðja og síðasta lagi var það auðvitað mestur skaðinn, herra forseti, að umræðan skyldi ekki vera skipulögð þannig að þeir gætu verið báðir í ræðustólnum í einu, hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. Þá hefði annar getað talað um allar verksmiðjurnar, fabrikkurnar og virkjanirnar og uppistöðulónin sem hann ætlar að byggja hérna og hinn hefði getað talað um umhverfismálin. Annar hefði getað talað í þessa átt og hinn hefði getað talað í hina áttina um hinar alþjóðlegu skuldbindingar okkar sem valda því að við þurfum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og draga verulega mikið úr þeim ef sú niðurstaða verður í Kyoto sem allir hugsandi menn vona að verði, þ.e. að það verði gerður þjóðréttarlega bindandi samningur um að draga úr þessari mengun, þessari stórhættulegu röskun lofthjúpsins sem er að hita upp jörðina með skelfilegum afleiðingum. Svo kemur hæstv. ráðherra hér og vonast til þess að það verði engin niðurstaða. Það er þá pólitík. En út frá hagsmunum ríkisstjórnarinnar og þeirrar skelfilegu niðurlægingar sem þessi mál eru í hér, þar sem menn láta eins og þeiri viti ekki af hinum alþjóðlegu skuldbindingum, og tala, annar í suður og hinn í norður, þá er það skiljanlegt að menn vonist til þess að engin niðurstaða verði.

Þetta er hörmuleg niðurlæging, herra forseti, sem við stöndum hér frammi fyrir, auðvitað mest fyrir umhvrh. og ég legg til að næst verði þeim leyft að fara samtímis í ræðustólinn, hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh.