Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:35:30 (36)

1997-10-02 22:35:30# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:35]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka gott tilboð. (ÍGP: Mín var ánægjan.) Eins og við kvennalistakonur gerum ávallt þá skoðum við allar tillögur og tökum málefnalega afstöðu. Ég vil jafnframt óska þingmanninum og félögum hans í Framsfl. til hamingju með þá jafnréttisáætlun sem þeir hafa samþykkt. Það sýnir auðvitað að þar er ákveðinn vilji innan dyra til þess að taka á jafnrétti kynjanna. En það þarf auðvitað miklu meira til. Við kvennalistakonur höfum átt fulltrúa hér á Alþingi í 15 ár og eins og þingmaðurinn nefndi réttilega höfum við haft þar margvísleg áhrif. Við teljum okkur m.a. til tekna hve konum hefur fjölgað hér á þingi og að nokkur hreyfing hefur komist á umræðu um stöðu kvenna innan stjórnmálaflokkanna. En það er auðvitað rétt að við stöndum á ákveðnum krossgötum og erum að skoða framtíð okkar eins og við höfum svo sem ávallt gert.

Þingmaðurinn var ekki sammála því sem var megininntak ræðu minnar, sem er hin neikvæða afstaða til menntunar, og ég rökstuddi fyrst og fremst með því að vísa til kjara menntafólks hér á landi og þar er nánast sama hvaða stétt maður nefnir. Það er ekki þar með sagt að þessar stéttir hafi lægri laun en ýmsar aðrar hér innan lands en það er þessi samanburður við önnur lönd sem er að verða okkur svo hættulegur og það er þessi mikla óánægja hvort sem við lítum til heilbrigðiskerfisins eða menntakerfisins og reyndar víða annars staðar. Þessi óánægja grefur undan vinnusiðferði og vinnugleði og leiðir til þess að fólk er alltaf að leita annað.

Ég ítreka að mér finnst vera neikvæð afstaða hér til menntunar og þar vil ég m.a. vísa til þeirra umræðna sem átt hafa sér stað í kringum deilu grunnskólakennara þar sem mér finnst vanþekking og fordómar gagnvart störfum kennara hafa verið himinhrópandi. Því held ég að við verðum að taka höndum saman til þess að breyta hugarfarinu og til þess að efla menntakerfi okkar ef við ætlum einfaldlega að standa okkur, ef við ætlum að standa okkur í samkeppni þjóðanna, ef við ætlum að viðhalda hér góðum lífskjörum og bæta þau hjá þeim sem verst standa að vígi.