Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Fimmtudaginn 02. október 1997, kl. 22:49:50 (40)

1997-10-02 22:49:50# 122. lþ. 2.1 fundur 20#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, VS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur

[22:49]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ísland er að styrkja stöðu sína á marga vegu, bæði inn á við og út á við. Þetta blasir við nánast hvert sem litið er og mætti nefna mörg dæmi því til staðfestingar en ég hirði ekki um að endurtaka það sem hefur komið fram í umræðunni hjá mörgum stjórnarsinnum. Það er ekki síst mikilvægt að gjöfulasti nytjafiskurinn, þorskurinn, er í vexti.

Sjávarútvegurinn er nú sem fyrr styrkasta stoð atvinnulífsins og velferðar í landinu. Kvótakerfið hefur ráðið mestu um að við höfum náð stjórn á veiðum og að fiskveiðarnar eru reknar með hagnaði. Í sjálfu sér er stórmerkilegt að það skuli vera hægt að tala um sjálfbærar veiðar. Þetta segi ég vegna þess að ljóst er að Íslendingar eru almennt lítið fyrir að gera langtímaáætlanir en í þessu mikla hagsmunamáli höfum við unnið af skynsemi með langtímahagsmuni í huga.

Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur verið gagnrýnt í kvöld eins og endranær og enginn heldur því fram að þar hafi verið fundið upp fyrirkomulag til allrar framtíðar.

Hér hefur ýmislegt verið nefnt og komið fram í umræðunni og margt af því er ekki svaravert. En við einu ætla ég þó að bregðast. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði lítið úr því mikilvæga verkefni utanríkisþjónustunnar að styrkja utanríkisviðskiptin og markaðssókn íslenskra fyrirtækja erlendis. Almennt er viðurkennt mikilvægi þessarar stefnubreytingar í utanríkisþjónustunni. Fulltrúar atvinnulífsins hafa lýst ánægju með þetta framtak, en það er eins og endranær, Alþb. hefur ekki mikinn skilning á atvinnumálum.

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu verða áfram næg verkefni að takast á við í þjóðfélagi okkar. Sérstaklega nefni ég vaxandi þjóðfélagsvandamál síðari áratuga 20. aldarinnar sem er ofbeldi og neysla fíkniefna. Okkur ber að sameinast um það markmið að þetta vandamál fylgi okkur ekki inn í 21. öldina. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.