Staðan í heilbrigðisþjónustunni

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:07:35 (44)

1997-10-06 15:07:35# 122. lþ. 3.93 fundur 29#B staðan í heilbrigðisþjónustunni# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:07]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða störf þingsins vegna þess alvarlega ástands sem komið er upp í heilbrigðisþjónustunni þegar stór hópur sérfræðilækna hefur sagt upp samningum við Tryggingastofnun ríkisins. Almenningur sem hefur greitt sjúkratryggingu með sköttum sínum stendur nú frammi fyrir því að tryggingaskilmálum er breytt án nokkurs fyrirvara. Margir sjúklingar eru mjög tekjulágir, öryrkjar og aldraðir. Þeir hafa margir hverjir nú ekki efni á því að sækja þjónustu þessara lækna eða fara í aðgerðir til þeirra enda er ekki við því að búast að fólk með 50--60 þús. kr. mánaðartekjur sé aflögufært. Þetta er mjög alvarleg staða, herra forseti, og ég tel að þetta mál þurfi að komast á dagskrá. Við þurfum að fá það fram hvað hæstv. heilbrrh. hyggst gera og hvernig mun verða brugðist við ástandinu. Mun það fólk sem greiðir nú fullt gjald fyrir þjónustu þessara lækna eiga rétt á endurgreiðslu? Mikilvægt er að upplýsingar fáist um það. Ég vona að samningsgerð sé komin í gang og þannig verður að ganga frá henni ef samningar nást við læknana að fólkið fái endurgreiddan þann hluta sem ella væri læknisins.

Maður veltir því fyrir sér þegar sá hálaunahópur á í hlut, sem er að berjast fyrir kjörum sínum, hvort það samræmist siðareglum lækna að kjarabarátta þeirra bitni á þeim sem minnst mega sín, þ.e. þeim sem hafa lægstar tekjur. Við verðum að fá skýr svör við þessu, herra forseti. Framkvæmdarvaldið verður að koma skikk á þessi mál. Almenningur er búinn að borga fyrir þessa þjónustu með sköttum sínum og á heimtingu á því að staðið verði við þá lagasetningu sem sett hefur verið á Alþingi.