Staðan í heilbrigðisþjónustunni

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:09:52 (46)

1997-10-06 15:09:52# 122. lþ. 3.93 fundur 29#B staðan í heilbrigðisþjónustunni# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:09]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er skoðun þingflokks Alþb. og óháðra að ástandið í heilbrigðiskerfinu sé svo alvarlegt að það þurfi sérstaka og mjög rækilega umræðu um þau mál núna eftir sumarið. Þessi mál blasa alls staðar við og ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka þetta fyrir. En ég bendi einnig á vandamálin annars staðar í heilbrigðiskerfinu, í skipulagi sjúkrahúsanna, á geðdeildunum og barna- og unglingageðdeildunum, í heilsugæslunni, og úti um allt land og í allri heilbrigðisþjónustunni eins og hún leggur sig. Það er því alveg augljóst að það verður að fara mjög rækilega í þessi mál og knýja fram umræðu. Af þeim ástæðum höfum við óskað eftir því að fram fari sérstök utandagskrárumræða.

Herra forseti. Í fjárlagafrv. er boðaður viðbótarniðurskurður í heilbrigðismálum, mjög sérkennilegur og athyglisverður viðbótarniðurskurður upp á 700 millj. kr., sem á greinilega að bitna aðallega á þeim sem þurfa að nota lyf og tannlæknaþjónustu eins og dæmið er sett upp í fjárlagafrv. eða greinargerð þess. Hér er með öðrum orðum um það að ræða að það verður að fara í þessi mál í heild. Þau eru að mínu mati núna við upphaf þingsins einhver stærsti málaflokkurinn fyrir okkur til þess að fjalla um.