Staðan í heilbrigðisþjónustunni

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:13:01 (48)

1997-10-06 15:13:01# 122. lþ. 3.93 fundur 29#B staðan í heilbrigðisþjónustunni# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það verður að vera algerlega skýrt hver réttarstaða sjúklinganna er í þessum efnum. Hæstv. ráðherra drap ekki á það einu einasta orði. Er það ekki alveg klárt mál að allir íslenskir þegnar eru hér eftir sem hingað til sjúkratryggðir? Með öðrum orðum, munu þeir fá endurgreidd þau gjöld sem þeir þurfa að reiða af hendi meðan samningslaust er við sérfræðinga? Þetta er lykilatriði í málinu og við þessu verður hið háa Alþingi að fá skýr svör. Það er ekki á borð berandi, virðulegi forseti, að tala um það sem sjálfsagðan og eðlilegan hlut að það geti tekið langan tíma að ná samkomulagi við sérfræðinga og meðan séu íslenskir sjúklingar þúsundum saman eða tugþúsundum saman í algerri óvissu um stöðu sína. Við hljótum að kalla eftir skýrum svörum hér og nú hvað varðar réttarstöðu þessa fólks. Það varðar mig mestu og um það snýst málið.