Staðan í heilbrigðisþjónustunni

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:21:08 (53)

1997-10-06 15:21:08# 122. lþ. 3.93 fundur 29#B staðan í heilbrigðisþjónustunni# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:21]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er auðvitað hægt fara mörgum orðum um stöðuna í heilbrigðiskerfinu en ég ætla að láta það vera og reyna að halda mig við þann þátt sem heyrir til starfa þingsins. Það er þessi eftirlitsþáttur um framkvæmd laga, þ.e. hvort réttur sjúklingsins er tryggður með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir. Ég tók nú spurningu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur í þá veru að það væri eingöngu verið að beina þeim spurningum til hæstv. ráðherra hvort séð væri til þess að lögum sem Alþingi hefur sett væri framfylgt. Hæstv. ráðherra fór hins vegar aðeins yfir það að samningagerð við sérfræðinga væri erfið og flókin og taka þyrfti langan tíma til að ganga frá þeim samningum og það efa ég ekki. Ég tek undir að þetta hlýtur að vera mjög erfitt og flókið verkefni sem verður að gefa þann tíma sem til þarf. Það sem Alþingi varðar fyrst og fremst um er það --- og við þurfum að láta okkur skipta og þess vegna er þetta tekið upp hér --- hvort staðið er við þann rétt sem sjúklingar eiga til sjúkratrygginga á meðan á þessari samningagerð stendur.

Virðulegi forseti. Ég held að það væri að gefnu tilefni ástæða til þess að skilgreina betur og skýra nákvæmlega hvernig þessi tími er notaður eða má nota.