Staðan í heilbrigðisþjónustunni

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:25:12 (55)

1997-10-06 15:25:12# 122. lþ. 3.93 fundur 29#B staðan í heilbrigðisþjónustunni# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eitt af hlutverkum þingsins er eftirlitshlutverk. Við höfum verið að ræða um störf þingsins. Þingið hefur sett lög um almannatryggingar. Samkvæmt þeim lögum ber ríkið hluta af kostnaði við ákveðna þjónustu. Nú stendur almenningur frammi fyrir því að þurfa að borga úr eigin vasa allan kostnaðinn. Hlutur trygginganna er ekki greiddur. Það sem ég kallaði eftir var hver staða þessara sjúklinga væri --- fólks sem ekki getur hætt við aðgerð sem það á bókaða á morgun eða hinn daginn, fólks sem vegna heilsufars getur ekki frestað því að fara í aðgerðir eða fá þjónustu hjá þessum læknum þangað til búið er að ná samningum. Hver er staða þessa fólks? Þetta er fólk sem vegna þessa ástands er að borga þúsundir króna fyrir þessa þjónustu. Það er mjög eðlilegt að kallað sé eftir því að fá upplýsingar um hver staða þessa fólks er. Hér höfum við ákveðið eftirlitshlutverk með lagasetningunni og auðvitað eigum við að nota lið eins og þennan --- umræður um störf þingsins --- til að kalla eftir svörum, herra forseti, um mál sem þessi.

Ég óska eftir því hér með, herra forseti, að réttarstaða fólks í þessu máli verði skýrð. Verður fólk látið sitja uppi með þennan kostnað eða verður séð til þess við samningagerðina við sérfræðingana að þessi hópur sem neyðist til þess að nota þá þjónustu í dag fái læknishlutann endurgreiddan þegar búið er að ná samningum ef þeir nást?