Staðan í heilbrigðisþjónustunni

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:27:10 (56)

1997-10-06 15:27:10# 122. lþ. 3.93 fundur 29#B staðan í heilbrigðisþjónustunni# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þetta er nú orðin snögg umræða um heilbrigðismál og ég vona að menn ræði málefnalega um þennan málaflokk síðar. Umræðan hefur verið dálítið í upphlaupsstíl en það er alveg hárrétt sem fram hefur komið að erfiðleikar skapast þegar sérfræðingar segja upp samningum við Tryggingastofnun. Við förum eftir þeim lögum sem gilda í landinu. Lögin eru einfaldlega þannig að þeir læknar sem sagt hafa upp samningum við Tryggingastofnun eru ekki lengur í vinnu fyrir Tryggingastofnun. Þannig er málum háttað. Samningar eru tvíþættir: annars vegar við samninganefnd Tryggingastofnunar og hins vegar við samninganefnd ríkisins. Ég hef ítrekað það við samninganefnd Tryggingastofnunar að hraða þessum samningum eins og mögulegt er. En það er alveg rétt, og ég sagði það hér áðan líka, að kjaradeilur almennt bitna á þeim sem síst skyldi. Það eina sem við getum gert á meðan á þessu ástandi stendur er að þeir sjúklingar, sem ekki geta greitt þeim læknum sem ekki eru á samningi við Tryggingastofnun, fái þjónustu innan stofnana. Það er það sem við getum gert á meðan á þessu ástandi stendur.