Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 15:44:20 (60)

1997-10-06 15:44:20# 122. lþ. 3.6 fundur 14. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[15:44]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi það sem hv. þm. vék að síðast í máli sínu, fjárveitingum til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra, þá er í fjárlagafrv. byggt á tillögum Samskiptamiðstöðvarinnar. Um efni þeirrar þáltill., sem liggur fyrir, er það að segja að mál þetta hefur oft verið rætt á Alþingi eins og fram kom. Á síðasta þingi svaraði ég fyrirspurnum um það og gerði ítarlega grein fyrir því hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Síðan hefur það gerst að ríkisstjórnin hefur ákveðið að fela nefnd undir formennsku hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur að fjalla sérstaklega um viðurkenningu á táknmáli sem móðurmáli. Sú nefnd fjallar um þau mál er varða afskipti stjórnvalda af málefnum fatlaðra og verkaskiptingu milli ráðuneyta í því sambandi.

Það er mikið álitamál hvort rétt sé að vísa tillögu sem þessari til menntmrh. sérstaklega. Hér er um að ræða ákvörðun um að viðurkenna táknmál sem móðurmál sem er miklu víðtækara en svo að hún falli einvörðungu undir verksvið menntmrn. Þess vegna ákvað ríkisstjórnin þetta og hefur Félagi heyrnarlausra verið tilkynnt um þá ákvörðun fyrir nokkrum mánuðum og fyrir liggur að unnið er skipulega að málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar og með þeim hætti sem þarf þegar fjallað er um verkaskiptingu á milli einstakra ráðuneyta því að það er alls ekki einsýnt eins og ég sagði að ákvörðun um að táknmál sé móðurmál sé á verksviði menntmrn. Menntmrn. kemur hins vegar að því er varðar framkvæmd grunnskólalaga og framhaldsskólalaga og einnig að því er varðar táknmálskennslu á háskólastigi sem yfirvald í menntamálum. Ég get fullvissað hv. þm. um að það hefur verið unnið skipulega að því að hrinda framhaldsskólalöggjöfinni í framkvæmd með hliðsjón af þeim kröfum sem þar eru gerðar og lúta að réttindum heyrnarlausra. Einnig er tekið mið af þörfum þeirra við námskrárgerð fyrir grunn- og framhaldsskólastigið sem nú er unnið að á vegum ráðuneytisins.

Þá ákvað ríkisstjórnin í sumar sérstaka aukafjárveitingu, 2 millj. kr. af ráðstöfunarfé sínu, til þess að stuðla að almennri túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa og bætti það úr brýnni þörf. Þannig hefur á ýmsum sviðum verið tekið skipulega á málefnum heyrnarlausra á undanförnum mánuðum og verður gert áfram.

Eins og ég segi varðandi fjárveitingar til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra var byggt á tillögum hennar. Á síðasta ári voru óvenjumikil umsvif hjá Samskiptamiðstöðinni þar sem hún flutti í nýtt húsnæði og var koma sér fyrir þar þannig að um meiri kostnað var að ræða á síðasta ári vegna þeirra hluta en búast má við að verði á næsta ári. Á þessu ári og síðasta hausti var unnið að því að koma Samskiptamiðstöðinni fyrir í nýju húsnæði. Þeim framkvæmdum er lokið og á þeim forsendum eru þessar fjárlagatillögur gerðar.