Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 16:02:59 (66)

1997-10-06 16:02:59# 122. lþ. 3.6 fundur 14. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:02]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar mikilvægt málefni sem þarfnast úrlausnar. Heyrnarlausir og heyrnarskertir hafa lengi barist fyrir rétti sínum til táknmálsþjónustu og einnig að táknmálið yrði viðurkennt sem móðurmál þeirra. Hingað til hefur þessi barátta þeirra ekki skilað þeim árangri sem þeir í raun og veru geta sætt sig við.

Ég vil hins vegar taka undir það sem hefur komið fram í máli annarra á undan mér að þessi mál eru nú í ákveðnum farvegi því að sl. vor var skipaður starfshópur forsrn. til þess að fjalla um verkaskiptingu ráðuneyta í þágu fatlaðra. Eitt af þeim verkefnum sem hefur sérstaklega verið vísað til þessa starfshóps er einmitt að fjalla málefni heyrnarlausra og gera tillögur um frambúðarlausn.

Það er rétt að geta þess líka að sl. vor, þ.e. 30. apríl, barst ríkisstjórninni áskorun frá Félagi heyrnarlausra þar sem skorað var á ríkisstjórn Íslands að tryggja rétt heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra til túlkaþjónustu í lögum hið snarasta og viðurkenna íslenskt táknmál sem móðurmálið.

Aðalatriðið í þessu máli er að sjálfsögðu að tryggja eðlilega þjónustu við heyrnarlausa í framtíðinni og ég held að við getum öll verið sammála um nauðsyn þess að svo verði.