Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 16:05:17 (67)

1997-10-06 16:05:17# 122. lþ. 3.6 fundur 14. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:05]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágætar undirtektir við þessa tillögu og vona að hún verði samþykkt. Þetta er einfalt mál og ekki margt fleira um það að segja. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það athyglisvert að setja niður nefnd með þessum hætti, endilega undir forustu þingmanns stjórnarflokks. Ég veit ekki til þess að íslenska táknmálið hafi mikið meira með ríkisstjórnina að gera en stjórnarandstöðuna og ég held að forusta þessa máls hefði alveg eins getað verið þar. Þetta er í raun og veru dæmigerður smásálarskapur ríkisstjórnarinnar og meirihlutavaldsins sem alltaf er beitt hérna. Það er alveg sama hvað það eru lítil mál. Það er alltaf passað að meiri hlutinn hafi sitt, Framsókn hér og íhaldið þar. Ég segi alveg eins og er að ég treysti ágætlega hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur í þessu máli þrátt fyrir að hún sé í Sjálfstfl. og vona að það verði ekki til þess að skaða málið, ég veit reyndar að hún mun leggja sig fram um að gera þetta vel. En mér finnst þetta dæmigert og seilst alveg ótrúlega langt, jafnvel að þetta litla mál þurfi að vera þannig að þingmaður frá Sjálfstfl. leiði það endilega. En úr því að ráðherrann vill það, þá er það þannig. Við sitjum uppi með hann þangað til hann verður settur af, hvenær sem það nú verður, og það verður bara að búa við það. Ég vona hins vegar að vel verði á málinu tekið og það komi hér inn í vetur og þessi niðurstaða nefndarinnar. Ég vil biðja hv. þm. úr því að hún hefur beðið um orðið, í andsvari trúi ég, að greina frá því hvenær ætlunin er að þessi nefnd skili áliti sem hefur þá áhrif á meðferð þingsins á þessari tillögu. Ég vil ekki fleira um það segja að sinni.

Hæstv. ráðherra nefndi að þetta væri ekki endilega verksvið menntmrh. og það er út af fyrir sig alveg rétt. Ég deili þeim sjónarmiðum að þetta er víðtækara. Það mætti auðvitað hugsa sér að það væri forsrn. sem færi með þetta, en ég sé að hæstv. ráðherra menntamála hefur skipað þessa nefnd sem hefur kannski pínulítið víðtækara svið en það sem heyrir undir menntmrn. Alla vega held ég að það sé alveg nauðsynlegt að hagsmunir heyrnarlausra verði engan veginn bitbein kerfisins í þessu máli. Ég fer fram á að það verði séð til þess. Mér er alveg sama í hvaða ráðuneyti þetta er, bara að málefninu sem slíku verði séð sæmilega farborða.

Það var hins vegar deilt um það á sinni tíð hvort þetta mál ætti að vera í menntmrn. eða félmrn. Félmrn. vildi ekki þetta mál. Þess vegna var það tekið upp í menntmrn. Það er nú orðið langt síðan og ég ætla ekki að rifja upp þá sögu sem ég vona að sé öllum gleymd nema kannski mér. En það var nú þannig og þess vegna var drifið í að setja þessi lög um Samskiptamiðstöðina undir menntmrn., sem aftur þýddi að Samskiptamiðstöðin var í raun og veru takmörkuð við menntamála- og rannsóknaþáttinn, sem aftur hefur orðið til þess að t.d. félmrn. var með eitthvert múður í sambandi við greiðslu fyrir túlka á þessu ári. Það var alveg óskaplega undarlega að því staðið af hálfu hæstv. félmrh. að mér fannst.

Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir rausnarlegt hól í minn garð sem ég átti svo sem ekkert skilið, en ég þakka honum samt fyrir það vegna þess að það er svo sjaldgæft að maður heyri slíkt úr þessum stól. Ég vil bara segja um málið að mjög margir þingmenn hafa komið að því úr öllum flokkum og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarlausir hafa notið þess, þannig að það er mikilvægt að halda þeirri breiðu samstöðu um málið sem hefur tekist að þróa á undanförnum árum.

Varðandi málið að öðru leyti ætla ég ekki að bæta neinu við. Ég segi það að mér finnst ekki að málið ætti að fara í félmrn. Mér finnst ekki að þessi málaflokkur eigi að fara þangað. Sérstaklega með hliðsjón af því að nú er verið að tala um að flytja fatlaða og þann málaflokk yfir til sveitarfélaganna, þá mundi ég ekki vilja að þessi málaflokkur lenti á einhverjum flækingi á milli sveitarfélaganna. Við megum fyrir alla muni ekki lenda í því því að það hefur tekist að þróa þessa hluti nokkuð vel og loksins er íslenska táknmálið orðið þannig, gegnum rannsóknir og þróunarstarfsemi, að það er að gæðum, málfræðilegum gæðum og uppbyggingu, sambærilegt við það sem gerist t.d. með danska táknmálið fyrir heyrnarlausa, sænska o.s.frv. Ef menn hafa gaman af því að slá upp í tölvunni hjá sér, eins og hæstv. menntmrh. gerir örugglega mjög oft og ég geri a.m.k. mjög oft, hann skrifar meira en ég á kerfið en ég les kannski þeim mun meira stundum, þá sjá menn að þar birtist afar fróðlegur listi yfir táknmál mismunandi þjóða. Það er alveg bersýnilegt að allar menningarþjóðir leggja áherslu á að heyrnarlausir eigi skilyrðislausan rétt á að tjá sig með sínu táknmáli sem er þróað á þeirra forsendum í þeirra landi.

Ég þakka svo að öðru leyti ágætar undirtektir, herra forseti, við málið.