Meðferð einkamála

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 16:15:39 (71)

1997-10-06 16:15:39# 122. lþ. 3.7 fundur 21. mál: #A meðferð einkamála# (gjafsókn) frv., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:15]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Árni Ragnar Árnason, Árni M. Mathiesen og Kristján Pálsson. 1. gr. hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Fyrri málsliður 1. mgr. 127. gr. laganna orðast svo: Að því leyti sem hér er ekki mælt á annan veg skuldbindur gjafsókn ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur af máli, þar með talinn þann málskostnað sem gjafsóknarhafa kann að verða gert að greiða gagnaðila sínum í máli ef gjafsóknarhafi er ógjaldfær.``

Frumvarp þetta var lagt fram á 121. löggjafarþingi en var ekki rætt, og er það því lagt fram að nýju.

Eins og vakin er athygli á í greinargerð er reglur um gjafsókn meðal annars að finna í XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Hugtakið gjafsókn tekur bæði til gjafsóknar og gjafvarnar og er notað sem samheiti fyrir aðstoð sem aðili getur leitað til að sækja hagsmuni sína eða verja þá í dómsmáli. Ákvæði laganna eru túlkuð með þeim hætti að gjafsókn skuldbindi ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, að því leyti sem sú skuldbinding sé ekki takmörkuð í gjafsóknarbréfi eða af öðrum fyrirmælum í 127. gr. Í greinargerð með lögunum, eða frumvarpinu réttara sagt, er sérstaklega tekið fram að gjafsókn geti aldrei náð til þess að ríkið beri að auki þann málskostnað sem gjafsóknarhafa kann að verða gert að greiða gagnaðila sínum í máli.

Hér er verið að taka af tvímæli í þessu máli og leggja til að ríkinu beri líka skyldur til þess að ábyrgjast það að gjafsóknarhafi þurfi að greiða gagnaðila sínum málskostnað af máli. Með þessu frv. er verið að leggja til að þessum reglum um gjafsókn, sem ég rakti áðan, verði breytt og sá málskostnaður sem gjafsóknarhafa kann að verða gert að greiða gagnaðila sínum í máli verði ríkið skuldbundið til að bera ábyrgð á ef gjafsóknarhafi er ógjaldfær.

Ég hef í huga ákveðin dæmi sem ég ætla aðeins að rekja hér á eftir. En fyrst vil ég aðeins vekja athygli á því að í XX. kafla um gjafsókn eru settar niður mjög strangar reglur um það hvenær gjafsóknin er veitt. Í fyrsta lagi verður hún að fara fyrir tiltekna nefnd, gjafsóknarnefnd, sem verður að veita umsögn um málið, og gjafsóknin fæst því aðeins að þessi gjafsóknarnefnd hafi gefið vilyrði fyrir því.

Í öðru lagi verður málstaður umsækjenda, eins og segir í lögunum, að gefa nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og skilyrðin sem sett eru eru í fyrsta lagi, með leyfi virðulegs forseta, að

,,a. að efnahag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, en við mat á efnahag hans má eftir því sem á við einnig tekið tillit til eigna og tekna maka hans eða sambýlismanns eða eigna og tekna foreldra hans ef hann er yngri en 18 ára,

b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.``

Af þessu má sjá að þær reglur eða þau skilyrði sem eru sett fyrir því að einstaklingur geti fengið gjafsókn eru býsna ströng og þó að hér sé verið að leggja til nokkra breytingu á meðferð þessa hluta einkamálalagakaflans, þá er fráleitt að ímynda sér að það muni þýða mikla opnun eða mikla fjárhagslega hættu, ef við getum orðað það svo, fyrir ríkissjóð eða hættu á því að hér verði um að ræða stöðu sem ríkissjóður verði mjög krafinn gjalda af því að reglurnar um gjafsóknina eru svo strangar.

Við skulum taka hér fullkomlega tilbúið dæmi sem kannski getur skýrt þá hugsun sem er á bak við þetta frv. Setjum sem svo að einstaklingur A telji sig þurfa að leita réttar síns gagnvart einstaklingi B. Hann leitar á náðir dómsmrn. sem sendir mál hans til gjafsóknarnefndar. Niðurstaðan er sú að viðkomandi einstaklingur A fær leyfi til þess að höfða mál og fær gjafsókn frá dómsmrn. Ef við segjum sem svo að niðurstaðan í málaferlunum sé sú að einstaklingur B sé sýknaður af ákæru eða af kröfum einstaklings A og niðurstaðan er sú, sem er mjög oft, að einstaklingur A er ekki gjaldfær, getur ekki greitt þó að hann sé dæmdur til þess að greiða til að mynda málskostnað þess stefnda, þá situr einstaklingur B í þessu tilviki uppi með ærinn kostnað, lögfræðikostnað af máli sem dómsmrn. ber á vissan hátt ábyrgð á að var höfðað. Þess vegna er eiginlega sú hugsun á bak við þetta litla frv. að ríkið, sem í þessu tilviki hefur gefið heimild til þess að höfða gjafsóknarmál, en það er út af fyrir sig náttúrlega sjálfsagður hlutur að það úrræði sé til staðar, beri fulla ábyrgð á því máli. Vitaskuld er það þannig að þeim sem dæmdur er ber í fyrsta fallinu að greiða þann dóm sem felldur er yfir honum. En ef svo fer, eins og hér er gert ráð fyrir, að gjafsóknarhafinn er ógjaldfær, þá er auðvitað eðlilegast að sá sem ber ábyrgðina á því að málið var höfðað geti komið þar inn í og ábyrgist þessa greiðslu gagnvart þeim sem er fullkomlega saklaus í málinu og má segja að sé eins konar þolandi.

Það er þetta, virðulegi forseti, sem frv. felur í sér. Ég tel að þetta sé einfaldlega réttlætismál og varði líka réttaröryggi og sé þess vegna alveg sjálfsagður hlutur að sá sem gefur réttinn axli líka sínar skyldur, ábyrgðina að fullu.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til viðeigandi nefndar og 2. umr.