Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 16:56:41 (77)

1997-10-06 16:56:41# 122. lþ. 3.8 fundur 23. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunargreiðslur) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:56]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði í efnislegri niðurstöðu í máli sínu að hún mundi fikra sig áfram. Það var nákvæmlega það sem ég óttaðist, herra forseti. Ég veit ekki í hvaða átt hún ætlar að fikra sig í þessum efnum vegna þess að það sem vantaði í svar hæstv. ráðherra voru efnislegar undirtektir við málið sjálft. Ég hlýddi á allt mál hæstv. ráðherra og ég gat ekki fest hendur á því hvað henni finnst um málið. Ég veit að hún er í eðli sínu, eins og flestir framsóknarmenn, góð kona, góð manneskja. Ég er sannfærður um að hún vill gera allt sem hún getur gert til að létta undir með þeim sem bera of þungar byrðar. Ekki síst þess vegna, herra forseti, hefði verið fróðlegt að fá fram hjá hæstv. ráðherra þó ekki væri nema sýn hennar til langs tíma um það hversu brýnt þetta mál er eða hvort hún telur það skipta einhverju máli.

Mér fannst hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir flytja mjög ítarleg rök fyrir því að þetta mál er að líkindum ekki aðeins líklegt til að spara talsvert heldur líka líklegt til að auka og efla hamingju og velferð þeirra sem eru orðnir aldraðir eða eiga við einhvers konar örkuml að stríða í þeim mæli að þeir geti ekki séð um sig sjálfir. Ég spyr mig, herra forseti, ef ég væri það gamall orðinn eða ef ég ætti við einhvers konar örkuml að stríða sem gerði það að verkum að ég gæti ekki séð um mig sjálfur, hvar vildi ég helst verja því sem ég ætti ólifað? Heima hjá mér þar sem ég hefði búið langa ævi eða á einhvers konar hjúkrunarheimili eða spítala? Það er engin spurning um að ég sjálfur mundi að sjálfsögðu vilja vera innan um mína persónulegu muni í því umhverfi þar sem minningar mínar hefðu leikið um dag hvern, miklu frekar en búa á hjúkrunarheimili sem vissulega væri vel í stakk búið til að sjá vel um mig. En það er bara allt önnur veröld og það er það sem þetta gengur út á.

Hæstv. ráðherra hefur oftar en einu sinni lýst því sem sinni skoðun, og ég held ríkisstjórnin öll, að það sé mjög gott til frambúðar að reyna að hjálpa fólki til að vera eins lengi heima hjá sér og hægt er. Ég veit ekki um neitt frv. í gangi í dag, hvorki af hálfu ríkisstjórnarinnar né stjórnarandstöðunnar, sem beinlínis leggur fram hugmynd um það hvernig hægt er að taka á málum einhvers fjölda fólks sem á um sárt að binda og hjálpa því fólki til að dvelja heima hjá sér.

[17:00]

Mér finnst líka að það skipti máli, herra forseti, þegar menn annaðhvort játa eða synja tillögu af þessu tagi eða einfaldlega þegar menn reyna að nálgast hana málefnalega til að meta gildi hennar, að fyrir liggi einhvers konar skoðun á málinu. Ég velti því t.d. fyrir mér þegar hæstv. ráðherra segir að það sé því miður svo að um 200 manns bíði núna eftir vistunarrými á einhverjum hjúkrunarheimilum, þá þætti mér betra að vita hversu margir af þeim kynnu e.t.v. að vilja dvelja heima og geti dvalið heima ef tillaga af þessu tagi væri orðin að lögum. Ég held að til að hægt sé að komast að raun um hversu góð þessi hugmynd er sem hér er varpað fram í tillöguformi þurfi menn t.d. að vita staðreyndir eins og þessar. Menn þyrftu líka að vita hversu margir af þeim sem eru á sjúkrahúsum eða hjúkrunarheimilum gætu verið heima hjá sér ef þeir gætu notið stuðnings einhvers venslamanns sem fengi til þess einhvers konar umönnunargreiðslu af því tagi sem hér er reifað.

Hvers vegna velti ég þessu fram, herra forseti? Vegna þess að mér er annt um ekki bara velferð þessa fólks og hamingju heldur líka um það fjármagn sem ég sem skattgreiðandi reiði af höndum í ríkissjóð. Hvernig er því best varið? Hver er ódýrasti kosturinn fyrir fólk sem er í þessari stöðu? Ég mundi ætla að það væri langódýrast fyrir alla viðkomandi að hægt væri að hjálpa þeim til þess að vera heima hjá sér og það liggur fyrir að þeir vilja það. Það er ábyggilega það langódýrasta og ég velti því fyrir mér hvort ekki gæti falist ákveðinn sparnaður í þeirri tillögu sem hér er verið að ræða um. Mér finnst vanta þennan þátt í rök ráðherrans. Vissulega talaði hún ekki gegn málinu. Hún talaði ekki með því heldur. Hún talaði út og suður þegar hún festi sig við málið sjálft.

Ég held líka að þessi tillaga sé til þess fallin að eyða ákveðnum ójöfnuði sem menn sæta eftir hjúskaparstöðu. Lögin í dag eru fortakslaust þannig að það er einungis makinn sem á kost á umönnunargreiðslu. En, herra forseti, hvað með þá sem eiga engan maka? Hvað með þá sem hafa aldrei átt maka? Hvað með þá? Af hverju eru þeir settir fyrir borð í þessu máli? Ég held að þegar þessi lög voru upphaflega sett hafi þetta verið einhvers konar vankönnun á aðstæðum þessa hóps. Mér finnst í dag þegar menn eru að tala um það t.d. að reyna að efla fjölskylduna, reyna að mismuna mönnum ekki eftir sambúðarformi eða hvort þeir eru í sambúð, þá sé þetta úr öllum takti við það sem er að gerast og ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst henni ekki eins og lögin standa í dag að þarna sé um að ræða ójöfnuð gagnvart þeim sem ekki eiga neinn maka? Ég spyr hana líka hvort hún hafi látið gera könnun á því hversu margir eða hvort einhverjir af þeim sem eru á hjúkrunarheimilum mundu vilja og geta verið heima hjá sér ef þeir ættu kost á því að einhver venslamaður þeirra fengi greiðslu til þess að annast þá. Ég held að þetta skipti miklu máli og ég spyr hæstv. ráðherra líka: Af þeim hópi sem nú bíður eftir vistunarrými, hefur það verið kannað hve stór hluti hans gæti verið heima hjá sér lengur ef frv. af þessu tagi yrði að veruleika?