Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 17:08:39 (79)

1997-10-06 17:08:39# 122. lþ. 3.8 fundur 23. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunargreiðslur) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:08]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur hafa umönnunarbætur breyst á kjörtímabilinu og þar sýndi heilbr.- og trn. ágæt vinnubrögð og vann hratt með okkur það frv. sem kom frá þeirri sem hér stendur og það eru breytingar til bóta.

Varðandi það mál sem hér liggur fyrir, þá er þetta mjög stórt mál. Hér hefur hv. formaður heilbr.- og trn. spurt að því hvort það hafi verið metið, hvort þeir sem núna bíða eftir hjúkrunarvist inni á sjúkrahúsum til að mynda mundu velja þann kostinn að vera frekar heima ef umönnunarbætur væru hærri. Þetta höfum við skoðað, að vísu ekki vísindalega, en við höfum skoðað þetta nokkuð gróft. Og það kemur í ljós að þeir sjúklingar sem bíða eftir vistun eru fyrst og fremst að bíða eftir hjúkrunarheimilisvistun, sem sé fullu öryggi. Þetta er fólk sem þarf á það mikilli hjúkrun að halda að venjuleg heimaþjónusta dugar ekki.

En það sem við höfum líka verið að gera að undanförnu er að auka heimahjúkrun mjög verulega og margir einstaklingar í dag fá sólarhringsheimahjúkrun sem ekki var en það breytir mjög miklu um að fólk geti verið sem lengst heima.

Þessi spurning, að meta gildi ódýrasta kostsins og líka óska sjúklingsins hverju sinni, það er oft mjög mismunandi mat eftir því hver þjóðfélagsstaða einstaklingsins er. Þá kem ég að þeirri spurningu sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson varpaði fram, hvort við værum ekki að mismuna þeim sem eru giftir. Það liggur í hlutarins eðli að einstaklingur sem býr aleinn heima, á ekki nána ættingja, er einstæðingur, hann óskar fyrr eftir að fara á dvalarheimili heldur en hinir sem eiga nána ættingja. En lífeyriskerfið er þannig uppbyggt og styrkjakerfið að þeir sem búa einir hafa hærri bætur heldur en hinir sem búa með maka sínum.