Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 06. október 1997, kl. 17:28:05 (86)

1997-10-06 17:28:05# 122. lþ. 3.8 fundur 23. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunargreiðslur) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:28]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég fagna því að tekið er vel undir að farið verði út í könnun til að skoða hver vilji aldraðra og þeirra er þurfa umönnun, hver áhugi er á slíku úrræði sem lagt er til hér. Hæstv. ráðherra talar um að þetta sé ófullburða frv. þar sem kostnaðarmat vanti. Kostnaðarmat, hæstv. ráðherra, hlýtur náttúrlega að liggja fyrir í ráðuneytinu því að fyrirrennari hennar í starfi, flokksbróðir hennar, Guðmundur Bjarnason, lagði fram frv. í líka veru. Hann hlýtur að hafa haft það nokkuð fullburða og það hlýtur að vera til einhver vinna sem hefur verið unnin áður en hann lagði sitt mál fram.

Ef ekki, þá spyr ég hæstv. ráðherra: Er hún tilbúin til þess að fara út í könnun á því hvað þetta muni kosta, hvað það muni spara í heilbrigðisþjónustunni að fara út í að opna þennan kost fyrir þá sem þurfa umönnun í heimahúsi? Mun hún beita sér fyrir því að það verði farið út í þá vinnu? Sá hv. þm. sem talaði á undan mér talaði um komið hefði fram í könnun að það væri dýrara fyrir sjúkling sem þarf umönnun að vera heima en á hjúkrunarheimili. Ég var að bera saman við sjúkrahúsvistina vegna þess að mörg rúm á sjúkrahúsunum eru teppt vegna þess að það eru ekki úrræði fyrir hendi til þess að fólk geti farið út af sjúkrahúsunum í aðra vist eins og á hjúkrunarheimili eða á heimili þar sem umönnun er fyrir hendi.

Hv. þm. talaði einnig um það að í skammdeginu ykist eftirspurnin eftir stofnanavist. Ég get vel ímyndað mér það og sérstaklega eins og komið er núna þar sem fólki er ekki gefinn kostur á því að hafa umönnun heima nema ef það á maka. Auðvitað er það einmanalegt og dapurlegt að sitja einn heima í skammdeginu og kannski skiljanlegt að fólk vilji þá komast inn á hjúkrunarheimili. Auðvitað eru allir mögulegir fletir á því máli og einstaklingsbundnar aðstæður. Hann nefndi einnig að frv. veitti ekki fullt öryggi. Auðvitað veitir þetta ekki öldruðum fullt öryggi en það væri mjög til bóta ef þessu væri komið á. Að sjálfsögðu eru margir aðrir þættir sem þyrfti að koma til til þess að aldraðir og þeir sem þurfa umönnunar fengju fullt öryggi. Það er heldur ekki endilega inni á hjúkrunarheimilunum þannig að þetta er margslungið mál.

En ég fagna því að menn skuli hafa farið út í umræðuna og að heilbr.- og trn. ætlar að að skoða frv. nánar. Sambærilegt frv. hefur legið í heilbr.- og trn. nokkrum sinnum og verið sent þar til umsagnar eins og ég hef minnst á og því gleðilegt að nú á að taka nánar á málinu og kanna fleiri þætti þess þannig að slík löggjöf gæti orðið að veruleika.