Tenging bóta almannatrygginga við laun

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 13:41:55 (92)

1997-10-07 13:41:55# 122. lþ. 4.92 fundur 31#B tenging bóta almannatrygginga við laun# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[13:41]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka þau svör sem hér hafa verið veitt og ekki hvað síst það sem hæstv. forseti sagði, að hann mundi greiða fyrir því að frv. okkar kæmi fljótt á dagskrá. Hins vegar eru svör ráðherra ótvíræð. Hann ætlar að standa við það, það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi, að þessi tenging verði afnumin. Hann ætlar hins vegar að hafa svigrúm, telji hann að 3%-svigrúmið sé ekki nægjanlegt. Það á sem sagt að vera sami leikurinn gagnvart bótum úr almannatryggingakerfinu og var hér sl. vor. Og það vita allir hvernig verið hefur með bætur úr almannatryggingakerfinu á undanförnum árum og var lýst ágætlega hér í ræðu Benedikts Davíðssonar áðan. Þetta hefur venjulega tekið lögbundið mið af launabreytingum, oft á tíðum er samið um þetta í kjarasamningum. Í vor hækkuðu laun nokkuð vel, lægstu laun, og þá voru bætur almannatrygginganna hækkaðar minna heldur en tilefni var til. Það var ekki fyrr en Kjaradómur var búinn að ákveða mun hærri launabreytingar til æðstu embættismanna og eldri borgarar voru búnir að fara með mikla skýringaherferð í þjóðfélaginu, að ríkisstjórnin sá að sér og bætti aðeins við. Eldri borgarar eru gjörsamlega háðir geðþóttaákvörðunum þessarar ríkisstjórnar og svo á að vera áfram. Ég bendi á að við höfum lagt fram þessa tillögu áður. Við gerðum það í tengslum við afgreiðslu síðustu fjárlaga. Þá felldu í nafnakalli allir þingmenn stjórnarinnar þessa tillögu okkur. Mig minnir að hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir hafi setið hjá en allir hinir, ráðherrar og óbreyttir þingmenn sem tala núna um hag aldraðra, felldu þá tillögu sem hér er verið að gera að umtalsefni. Ríkisstjórnin ætlar greinilega að halda sínu striki áfram. Það verður efnisumræða um þetta mál og annað sem tengist öldruðum í tengslum við fjárlagaumræðuna sem við erum nú að hefja.