Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 16:50:46 (99)

1997-10-07 16:50:46# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[16:50]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Með stöðugt flóknara þjóðfélagi verður mikilvægt að á Alþingi eigi sér stað vandaðar umræður og rækileg yfirferð á frumvarpi til fjárlaga. Í samræmi við stjórnskipun okkar leggur fjmrh. fyrir Alþingi frv. til fjárlaga, sem okkur alþingismönnum er gert að fjalla um, gera breytingar á eftir atvikum og afgreiða sem lög frá Alþingi eftir þrjár umræður og vinnu í fjárln. og fagnefndum. Það frumvarp sem hér er til umræðu er sjöunda fjárlagafrv. sem ég tek þátt í að ræða og fara yfir í fjárln. Alþingis.

Sú umfjöllun sem nú er að hefjast er við mjög breyttar aðstæður frá því sem verið hefur. Bæði form og efni hefur breyst. Og það mjög til hins betra. Hin umfangsmikla nýskipan í ríkisrekstrinum hefur nú einnig náð til formsins, þ.e. uppsetningar á fjárlögum og ríkisreikningi. Allar þær breytingar miða að því marki að gera fjárreiður ríkisins aðgengilegri og skýrari auk þess að verða meðfærilegra stjórntæki til eftirlits í ríkisrekstrinum og við áætlanagerð.

Ræða mín hér við þessa umræðu mun að sjálfsögðu mótast af þeirri skyldu okkar þingmanna að fjalla um efni frv., vega það og meta eftir yfirferð með stofnunum og öðrum þeim sem að skoðun þess koma og leita að niðurstöðu, því auðvitað er það svo að skiptar skoðanir kunna að vera um fjölmörg atriði, enda þótt meginstefnan hafi verið mörkuð af stjórnarflokkunum og henni verður að sjálfsögðu haldið.

Eins og fram hefur komið er frv. byggt á nýrri löggjöf um fjárreiður ríkisins sem var samþykkt hér á hinu háa Alþingi sl. vor eftir mikla vinnu við frv. af hálfu hæstv. fjmrh. og hans fólks í ráðuneyti og einnig þeirrar sérnefndar sem fór með málið hér á Alþingi og stóð fyrir töluverðum breytingum á frv. Allsherjarsátt náðist um frumvarpið í nefndinni og leiddi til þess að Alþingi samþykkti það í vor.

Þrátt fyrir það að formið eigi ekki að ráða miklu um framvindu hinna efnislegu þátta í ríkisrekstrinum þá leyfi ég mér að fullyrða að löggjöfin um fjárreiður ríkisins muni hafa afgerandi áhrif á framvindu ríkisfjármála í framtíðinni. Og ríkisfjármálin geta haft afgerandi áhrif á þróun efnahagsmála í landinu. Það hefur komið rækilega í ljós þegar hagsaga okkar Íslendinga er skoðuð, ekki síst hin síðari ár þegar mikill árangur hefur orðið af traustri meðferð ríkisfjármála og ábyrgri umfjöllun hér á hinu háa Alþingi.

Ekki vil ég eyða tíma til þess að rökstyðja þessa fullyrðingu við þessar umræður með öðrum hætti en að vísa til þess að með afgreiðslu fjárlaga á rekstrargrunni skapast mikilvægt aðhald sem herðir mjög á því að ráðuneytin sjái til þess að stofnanir haldi sér innan fjárlaga og það verði til umfjöllunar í fjárln. og á Alþingi ef auka þarf fjárveitingar til einhverra þátta í ríkisrekstrinum. Ekki til þess að stöðva mikilvæg og eðlileg útgjaldatilefni heldur til þess að nauðsynleg umfjöllun eigi sér stað og leggja megi mat á hlutina í réttu ljósi.

Með afgreiðslu fjárlaga og aukafjárlaga á rekstrargrunni, þar sem fram eiga að koma öll útgjöld og allar tekjur sem tilheyra árinu, taka menn ákvarðanir og meta hina raunverulegu stöðu ríkisins. Hver afgangur eða halli á að vera og hver lánsfjárþörf ríkisins er hverju sinni og um leið eftirspurnin eftir lánsfjármagni sem síðan hefur áhrif á vaxtastigið og verðbólguna í landinu.

En þessar breytingar taka tíma og sumir hæstv. ráðherrar virðast ekki enn hafa áttað sig á því hversu mikilvægar þær eru. Dæmi um það er ákvörðun um útgjöld vegna opnunar sendiráðs í Helsinki sem birtist mér sem talsmanni míns flokks í fjárlaganefnd í boðskorti um samkvæmi í sendiráðinu í tilefni opnunar þess. Slík vinnubrögð eru auðvitað ekki þolandi.

Í 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins segir um ófyrirséðar greiðslur í A- og B-hluta, með leyfi forseta:

,,Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjmrh. að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðslu af hendi enda þoli hún ekki bið. Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.``

Telja verður afar hæpið að stofnun sendiráðs geti flokkast undir ,,ófyrirséð atvik er þoli ekki bið`` eða eigi sér stað með þeim hætti sem hér um ræðir. Telja verður eðlilegra að um slíka ákvörðum sé rætt á Alþingi áður og heimilda leitað með staðfestingu og á grundvelli áætlunar um kostnað og hagræði sem því kann að fylgja að hafa sendiráð í Helsinki.

Hvað þá ákvörðun snertir að opna sendiráð og stofna til þeirra útgjalda þá tel ég að það orki mjög tvímælis. Að mínu mati hefði verið eðlilegra að ræða hvort ekki væri nær að fækka sendiráðum á Norðurlöndum en opna þess í stað sendiráð í fjarlægari heimshlutum, þar sem ríkari viðskiptahagsmunir eru sem ekki verður sinnt héðan frá Íslandi.

Með sama hætti liggur fyrir að ef samgrh. heimilar framkvæmdir við hafnargerð, sem telst vera styrkhæf samkvæmt hafnalögum en er ekki á hafnaáætlun eða á fjárlögum, er stofnað til kostnaðar sem gjaldfæra verður sem skuldbindingu ríkissjóðs á framkvæmdaári og eykur þar með útgjöldin það árið og verður auðvitað að fjalla um svo sem hverjar aðrar framkvæmdir á vegum ríkisins.

Samfara breytingum á fjárlagafrv. verða breytingar á störfum fjárln. Nefndin fær nú til meðferðar allar greinar fjárlagafrv. en gera verður ráð fyrir að fagnefndir komi með öðrum hætti að vinnu við fjárlagagerðina en verið hefur. Með því að færa bæði skerðingarákvæði samkvæmt 6. grein og lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir inn í fjárlögin verður fjallað um og tekist á við ríkisfjármálin í heild sinni á einum stað í fjárln. þrátt fyrir það að fagnefndum verði falið að fjalla um einstaka þætti. Með þessari aðferð er girt fyrir það sem gæti hafa gerst, að með lánsfjárlögum sem væru afgreidd óháð fjárlögum væri stofnað til útgjalda á grundvelli heimilda í lánsfjárlögum sem ekki væri gert ráð fyrir í fjárlögum.

Þá er ljóst að með breyttri framsetningu frv. verður enn meiri vinna hjá fjárln. að fara yfir frv. með fulltrúum stofnana sem munu vilja tryggja að starfsemin njóti eðlilegra framlaga. Má sem dæmi nefna að nú er framhaldsskólum gert að greiða húsaleigu sem síðar á að standa undir kostnaði við viðhald viðkomandi bygginga. Er þar um að ræða mikið framfaraspor en verður vafalaust tilefni athugunar og rækilegra umræðna.

Sem fyrr er meginmarkmið efnahagsstefnu sem frv. er byggt á að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og skapa skilyrði fyrir viðvarandi hagvexti og batnandi lífskjörum. Og allar mælingar á efnahagslífinu bera þeirri stefnu merki sem fylgt hefur verið undir forsæti Davíðs Oddssonar. Stefnan hefur ekki síst falist í því að hafa traust tök á ríkisfjármálum, leggja áherslu á aukna ábyrgð atvinnulífsins á eigin málum, að lækka skatta og draga úr jaðaráhrifum þeirra sem m.a. koma til móts við ellilífeyrisþega sem hér hafa gert vart við sig í dag. En einnig að stefna að einkavæðingu lánastofnana, sölu ríkisfyrirtækja og setja fram skýrar kröfur um ábyrgan rekstur stofnana sem njóta framlaga af fjárlögum.

Áhrifin af þessari stefnu eru vaxandi kaupmáttur, eins og fram kemur í þjóðhagsáætlun, og um leið það sem skiptir miklu máli, að atvinnuleysi er minnkandi samhliða aukinni atvinnuþátttöku, sem ber þess merki að störfum í þjóðfélaginu er að fjölga. En slíkt gerist ekki á einni nóttu.

Áhrif mikilvægustu efnahagsumbóta koma að sjálfsögðu ekki fram strax enda er sígandi lukka best í þeim efnum sem öðrum. En styrk staða ríkisfjármála hefur hins vegar mikil áhrif og skapar þá umgjörð sem þarf til þess að atvinnulífið megi dafna um land allt.

[17:00]

En vissulega eru alvarleg hættumerki á lofti sem þarf að ræða í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Þau birtast í stöðugri byggðaröskun. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands fækkar íbúum í öllum kjördæmum utan Reykjavíkur fyrstu sex mánuði ársins en fjölgar á höfuðborgarsvæðinu. Hér er um að ræða stórhættulega þróun fyrir okkar litla land sem greina þarf og bregðast við með hverjum þeim ráðum sem duga. En samfara flutningi fólks til höfuðborgarinnar vex vandinn þar og ekki dregur úr atvinnuleysi og félagslegum vandamálum í borginni. Þeim mun alvarlegri er þessi þróun að R-lista meiri hlutinn í borgarstjórn hefst ekki að og virðist ekki átta sig á þróuninni, sem m.a. birtist í stöðugu atvinnuleysi kvenna í höfuðborginni þegar dregur úr því á landsvísu.

En hvað er til ráða, svo snúa megi þróun við og nýta megi auðlindir okkar við og á landinu öllu?

Mikilvægast er auðvitað að skapa atvinnuvegunum skilyrði til þess að eflast svo atvinnuöryggi sé tryggt. Það sem hefur í gegnum tíðina einkum hrakið fólk af landsbyggðinni er annars vegar sveiflukennt atvinnuástand og einhæft og síðan takmörkuð þjónusta, sérstaklega hvað varðar menntun, og auk þess óöryggi vegna samgangna og heilbrigðisþjónustu. En á þessu hefur orðið mikil breyting en jafnframt hafa kröfurnar aukist og það skýrir væntanlega mestan hluta þeirrar þróunar sem hefur verið og er að verða.

Þegar fjallað er um fjárlög fyrir árið 1998 og framtíðaráform um starfsemi á vegum ríkisins sem getur haft áhrif á þróun búsetu, vil ég nefna nokkra þætti sem verður að skoða við meðferð frv. en fjölmörg önnur atriði þarf að líta yfir.

Svæðisbundnar byggðaáætlanir eru mikilvægt stjórntæki í nútímaáætlanagerð. Höfuðvandi landsbyggðarinnar, og um leið landsins alls, er að vel menntað ungt fólk snýr ekki aftur til heimabyggðar að loknu námi. Það skortir ,,gróðurreiti`` í atvinnulífinu á landsbyggðinni þar sem unga, vel menntaða fólkið getur hafið störf.

Leggja þarf áherslu á svæðisbundna áætlanagerð sem beiti bestu aðferðum við að aðstoða starfandi atvinnufyrirtæki við að fjölga vel launuðum störfum fyrir menntað fólk. Eitt mikilvægasta verkefni á þessu sviði er að hafa áhrif á að fiskvinnslan færist að nýju á land úr frystiskipunum úti á sjó. Í dag er beitt óþolandi mismunun milli landvinnslu og sjóvinnslu, m.a. með skattkerfinu sem gerir sjóvinnsluna hagkvæmari. Á því hlýtur að verða breyting og fyrstu skrefin mætti stíga í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár sem lið í því að vinna gegn röskun í sjávarbyggðunum.

Veita þarf atvinnuþróunarfélögum stuðning svo þau geti veitt verkefnum forustu, en auðvitað munu aðilar atvinnulífsins verða að vera leiðandi afl í því verkefni að snúa óæskilegri þróun við. Fyrirsjánlegur og vaxandi arður Landsvirkjunar af orkusölu gæti orðið grunnur og forsenda þessa ábatasama stuðnings sem af hálfu ríkisins kæmi til greina, eins og gert var að nokkru á þessu ári. Hagsmunir Landsvirkjunar vegna sölu á forgangsraforku eru þvílíkir á landsbyggðinni að eðlilegt er að þeir tengist saman. Í ljósi þeirrar þróunar sem við blasir í byggðum er ekki fært að lækka framlög til byggðamála svo sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Byggðastofnun verður að hafa svigrúm til þess að takast á við sitt erfiða en mikilvæga hlutverk sem í reglugerð um stofnunina er skýrt skilgreint. Núverandi stjórn Byggðastofnunar hefur breytt um kúrs og leggur nú aukna áherslu á atvinnuráðgjafarhlutverkið í landshlutunum í samstarfi við heimamenn og er ekki að efa að það er hin rétta leið. Þá verður að gera ráð fyrir því að hinn nýi Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins beiti afli sínu til þess m.a. að efla þær greinar á landsbyggðinni sem mesta möguleika hafa. Þar vil ég aftur og enn nefna fiskvinnslu í landi sem verður að aðstoða við þróast og verða hátækniiðnaður eins og kröfur eru gerðar til í dag.

Þegar unglingar komast á framhaldsskólaaldurinn losnar oft um fjölskyldur ef senda þarf unglinga til skóla í öðrum héruðum. Því er það mjög mikilvægt að tryggja möguleika framhaldsskólanna á landsbyggðinni til þess að veita sem fjölbreyttasta menntun. Tryggja verður framhaldsskólunum möguleika til þess að halda úti framhaldsdeildum er tengjast grunnskólunum, þar sem því verður við komið, með öflugum stuðningi höfuðstöðva hvers skóla. Auk þess þarf að endurmeta reglur um námsstyrki til framhaldsskólanemenda, svokallaða dreifbýlisstyrki.

En gera verður fleira og að mínu mati þarf að líta til húsnæðismálanna. Ég tel að það verði að gera breytingar á húsaleigubótakerfinu þannig að öll sveitarfélög veiti húsaleigubætur eða hafi möguleika á að veita þær. Við núverandi kerfi er staðan þannig að litlu sveitarfélögin treysta sér ekki til þess að greiða húsaleigubætur. Það leiðir til þess að námsmenn, sem þurfa að taka á leigu húsnæði vegna vetrardvalar við nám, færa lögheimili sitt og slíta þannig fyrstu ræturnar frá heimabyggð sinni. Og borgin lendir í því að greiða húsaleigubætur sem auðvitað er ósanngjarnt við þær aðstæður.

Framþróun vega-, hafna- og flugmála skiptir miklu um þróun byggðar í landinu, ekki einungis fyrir hinar dreifðu byggðir, heldur ekki síður fyrir suður hluta landsins. Við mat á framlögum til þessara þátta er nauðsynlegt að greina vel áhrifin sem verða til lengri tíma og þann ávinning fyrir atvinnulífið sem felst í bættum samgöngum og lækkandi kostnaði við flutninga. Með samgönguáætlunum eru sett markmið sem verður að endurmeta í ljósi fjárlaga hverju sinni. En fjárlögin getur einnig þurft með sama hætti að endurmeta í ljósi þeirra mikilvægu markmiða sem samgönguáætlanir fela í sér vegna þróunar sem fyrirsjáanleg er.

Dæmi um slíkar aðstæður eru áhrif sem allt bendir til að verði af því að flýta framkvæmdum og opnun Hvalfjarðarganga. Til þess að fullnýta göngin sem samgöngubót gæti þurft að hraða framkvæmdum á jaðarsvæðum á Vesturlandi, svo sem í Borgarfjarðardölum og á Snæfellsnesi. Samgn. þingsins hlýtur að taka þetta mál til skoðunar áður en fjárlög verða afgreidd.

Umrótið í heilbrigðismálum að undanförnu hefur valdið mikilli óvissu og vanda. Tilraunir til þess að auka hagræðingu í heilbrigðiskerfinu virðast ekki ætla að ganga hljóðalaust.

Framlög til sjúkrastofnana í heild sinni hækka verulega á milli ára og kynnt áform um sparnað á stóru sjúkrahúsunum eru bundin verulega hækkuðum framlögum á þessu ári. Og viðbrögðin við samningi ríkis og borgar um breytt skipulag sjúkrahúsanna veldur að því er virðist miklum og erfiðum deilum sem auðvitað þarf að vinna að lausn á.

Nokkra þætti vil ég nefna hér sem ég tel að þurfi að fara rækilega yfir í meðförum fjárlaganefndar.

Gert er ráð fyrir 300 millj. kr. hækkun til hjúkrunarheimila miðað við sama verðlag en þau eru langflest hér á höfuðborgarsvæðinu. Þessi hækkun leiðir til fjölgunar hjúkrunarrúma og hlýtur að létta mjög á þeim sjúkrastofnunum sem hafa þurft að sinna þeirri þörf sem vissulega er fyrir hendi. Ég tel jafnframt eðlilegt að endurmeta framlög til daggjaldastofnana og bera saman þjónustu og daggjöld svo tryggt sé að samræmis verði gætt milli stofnana. Fram hefur komið að mikill mismunur er á daggjöldum einstakra stofnana.

Sjúkrahúsum á landsbyggðinni er gert að sæta lækkuðum framlögum. Þess er að vænta að ráðuneytið geri fjárln. grein fyrir forsendum þeirra áforma. Ég hef opinberlega lýst skoðunum mínum hvað þessi sparnaðaráform varðar, þar á meðal hjá St. Fransiskusspítalanum, og hefur afstaða mín hvað þau varðar ekkert breyst. Þar er um að ræða eina einkaspítalann á Íslandi sem er rekinn af mikilli fyrirhyggju og faglegri ábyrgð af St. Fransiskusarreglunni, sem leggur alla áherslu á að sinna þjónustu við íbúana. Að mati þeirra sem til þekkja og hafa greint tölulegar staðreyndir liggur fyrir að spítalinn er rekinn af mikilli hagkvæmni og faglegum metnaði. Spítalinn hefur sérhæft sig á sviði sem mikil þörf er á. Árangur þeirrar meðferðar sem veitt er hefur sannað sig með þeim hætti að löng bið er eftir læknismeðferð. Engum er betur ljóst er mér að gera verður kröfu um hagræðingu og endurskipulagningu í sjúkrahúsarekstrinum í landinu. En ég geri þá kröfu til ráðuneyta að gengið sé til samninga við þennan eina einkaspítala landsins sem hefur þjónað í sextíu ár en hann ekki meðhöndlaður sem einn angi af ríkisrekstrinum sem skikka má til að vild og vilja ráðuneyta fyrirvaralaust.

Á vegum heilbrrn. hefur verið unnið að skýrslu um endurskipulagningu stóru sjúkrahúsanna á Suðvesturlandi. Þar er um að ræða hina svokölluðu VSÓ-skýrslu. Skýrslan er að mínu mati mikilvægt innlegg í þá vandasömu vinnu að ná aukinni hagkvæmni. Ég vil á þessu stigi ekkert segja um niðurstöður skýrslunnar og tillögur um samruna og samhæfingu. Þar verða um að fjalla þeir sem best til þekkja. Hins vegar vekur það óneitanlega athygli að með samruna og sameiningu starfsemi stóru sjúkrahúsanna megi auka afkastagetu eða fækka starfsmönnum svo nemi 520 stöðugildum. Með öðrum orðum, tvíverknaður veldur því að 520 stöðugildi nýtast ekki í rauninni.

Þessi skýrsla hlýtur að verða til þess að allir sem málið varðar taki höndum saman til þess að nýta betur þá mikilvægu þjónustu sem sjúkrahúsin veita. Þar verða menn að ganga til verks fordómalaust, svo mikið er í húfi. Þess er að vænta að sjúkrahúsin geri fjárln. grein fyrir afstöðu sinni til VSÓ-skýrslunnar þannig að meta megi stöðuna og möguleika til þess að nýta fjármuni betur en gert er eða bregðast við á viðeigandi hátt.

Í tíð hv. fjmrh. hefur verið unnið að úrbótum og skipulagsbreytingum í ríkiskerfinu. Ég hef áður gert það að umræðuefni að gera þurfi grundvallarbreytingar í ríkisrekstrinum. Þær fela í sér þá hugsun að koma að sem víðast kaupanda/seljanda hugsuninni og gera samninga um tiltekna þjónustu sem veitt verði fyrir ákveðna umsamda þóknun. Vikið verði frá því þar sem fært er að ráða og skipa ríkisstarfsmenn en þess í stað nýtt einkaframtakið er sinni þjónustu í nafni ríkins með þjónustusamningum.

Ég vil í nokkrum orðum fara yfir helstu kennitölur frv.

Í 1. gr. frv. er gerð grein fyrir tekjujöfnuði sem nú er jákvæður á rekstrargrunni um 520 millj. kr. Þau áform að afgreiða fjárlög með afgangi eru mjög mikilvæg og ekki síst að það takist strax á þessu fjárlagaári, 1998, þegar svo skammt er liðið frá því að við vorum í kreppu og miklum vanda með afkomu ríkissjóðs.

Í 2. gr. frv. kemur fram þessi árangur þar sem áætlað er að sjóðsstreymi sýni nærri 5 milljarða kr. afgang til þess að lækka skuldir ríkissjóðs. Þau áform eru skýr skilaboð inn á lánamarkaðinn. Ríkissjóður mun draga úr umsvifum sínum þar með þeim afleiðingum að vextir hljóta að geta farið lækkandi á lánsfjármarkaði. Þau áhrif geta skilað sér inn á hvert einasta heimili í landinu og bætt hag húsbyggjenda og kaupenda sem hafa þunga greiðslubyrði.

[17:15]

Fjárreiður ríkisfyrirtækja í B-hluta eru sýndar í 3. gr. frv. Rekstur þeirra skiptir miklu máli fyrir ríkissjóð vegna þeirra tekna sem sum þeirra veita í ríkissjóð í formi arðs en hann nemur 3,7 milljörðum kr. Stærstu fjárhæðirnar koma frá Happdrætti Háskólans, Fríhöfninni, ÁTVR og Rarik samkvæmt sérstökum samningi við Rarik en samkvæmt frv. er Rarik gert að greiða arð að upphæð 152 millj. kr. en á móti kemur hins vegar hlutdeild í kostnaði við dreifikerfi í sveitum.

Ég vil gera að umtalsefni vegna þessa liðar stöðu Rafmagnsveitna ríkisins. Rarik gegnir því viðamikla hlutverki að dreifa raforku um stærstan hluta af mesta dreifbýli landsins þar sem fiskvinnslan og landbúnaðarframleiðalan fer fram auk nokkurs iðnaðar. Staða fyrirtækisins hefur verið rekstrarlega mjög veik og það hefur orðið að selja raforku til almennra notenda á hærra verði en gerist víðast annars staðar í landinu. Á vegum fyrirtækisins hefur verið unnið að hagræðingu og endurskipulagningu sem hefur skilað sér í betri afkomu þrátt fyrir erfitt rekstrarsvæði. Staða Rariks gagnvart Landsvirkjun er þannig að Rarik greiðir 42% af tekjum Landsvirkjunar af sölu til almenningsrafveitna en íbúar á Rarikssvæðunum sem kaupa þessa orku eru einungis 17% landsmanna. Þannig hafa þeir íbúar átt hlutfallslega mestan þátt í þeirri eignamyndun sem orðið hefur hjá Landsvirkjun. Í því ljósi og vegna þess að rekstur Rariks er að því er virðist orðinn mjög hagkvæmur borið saman við aðrar veitur þegar borinn er saman kostnaður á selda orkueiningu væri eðlilegt að endurskoða samninga við fyrirtækið um hinar svokölluðu félagslegu framkvæmdir dreifikerfisins, auk þess að leita leiða til þess að auka arðsemi fyrirtækisins m.a. með virkjunum og skapa þannig skilyrði til lækkunar orkuverðs og aukinna arðgreiðslna til ríkisins eins og eðlilegt verður að teljast. Ég tel eðlilegt að fjárlaganefnd vísi því til hv. iðnn. um leið og hún fjallar um sinn þátt frv. að kanna með hvaða hætti megi styrkja stöðu Rariks á markaði svo bætt staða komi notendum ekki síst til góða en ríkissjóði einnig. Þannig kann vel að vera að það verði að gerast með því að taka upp samninga við Landsvirkjum um orkukaup sem byggjast á því að greitt er verð fyrir orku er nemur 45% yfir langtímajaðarkostnaði sem er mikið álag.

Í 5. gr. frv. er gerð grein fyrir lántökum, endurlánum og ríkisábyrgðum. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður taki 12,5 milljarða að láni en greiði niður lán er nemur 17,5 milljörðum. Um það vil ég segja að Alþingi hlýtur að leggja ríka áherslu á það að lánastýring sé vönduð og allra leiða leitað til þess að ná hagkvæmustu kjörum á lánamarkaði og hækkað lánshæfismat ríkisins á alþjóðlegum lánamarkaði nýtt þar sem því verður við komið. Árangur á því sviði er mikilvægasta vísbending um trausta efnahagsstjórn á Íslandi ásamt með auknum kaupmætti.

Í 7. gr. eru heimildarákvæði, þar sem fjmrh. er veitt heimild til ýmissa ráðstafana innan marka 160 millj. kr. samkvæmt frv.

Í fjárlögum þessa árs kom inn heimildarákvæði þar sem veitt var heimild til þess að ráðstafa 80 milljónum eftir tillögu iðnrh. til atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu, einkum á þeim landsvæðum sem ekki njóta góðs af orku- og stóriðjuuppbyggingu. Þessi upphæð var tengd arðgreiðslum ríkisins frá Landsvirkjun. Ekki er samkvæmt frv. gert ráð fyrir þessari fjárhæð í heimildum fjmrh. Ég tel að við afgreiðslu fjárln. þurfi að taka málið upp en jafnframt að leggja línur um með hvaða hætti úthluta skuli svo nýtist sem best þeim svæðum sem höllum fæti standa.

Virðulegi forseti. Viðfangsefni okkar á Alþingi er að bæta búsetuskilyrði okkar í landinu að því marki sem það verður gert með löggjöf.

Það er von mín að afgreiðsla fjárlaga ársins 1998 marki öflugt framhald þeirra umbóta sem við sjálfstæðismenn höfum staðið fyrir í góðu samstarfi innan stjórnarflokkana á síðasta kjörtímabili og ekki síður það sem af er kjörtímabilinu eftir skeið stöðnunar og veikleika við stjórn landsins. Við Íslendingar þurfum á öflugri byggð að halda við aldamót. Þess vegna skiptir það mjög miklu máli hvernig á fjármálum ríkisins er haldið.