Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 17:20:44 (100)

1997-10-07 17:20:44# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:20]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það varð að samkomulagi að andsvör yrðu ekki veitt við ræðum fyrstu talsmanna flokkanna. Sú spurning sem mig langar til að bera fram hefði kannski frekar átt að beinast að hv. formanni fjárln. en ég veit að varaformaðurinn er vel inni í málum. Sú spurning sem hefur vaknað hjá mér varðar vinnubrögð fjárln. Menn hafa í mörgum ræðum komið inn á þær miklu breytingar sem verið er að gera á frv. til fjárlaga, m.a. það að nú eru lánsfjárlögin komin inn í frv. og þó að fjárln. hafi að sjálfsögðu kynnt sér þá hlið mála hingað til hvílir mun meiri ábyrgð á henni. Því langar mig að spyrja hv. varaformann fjáln. hvort hann sjái fyrir sér breytt vinnubrögð í fjárln. og þá einkum í þá veru að menn stígi alvarlegt skref í þá átt að fela fagnefndum aukin áhrif og aukin völd hvað varðar hina einstöku málaflokka þannig að við drögum úr tvíverknaði, að við drögum úr því að bæði fagnefndir og fjárln. séu að ræða við sömu aðilana, þó ég viti að í mörgum tilvikum óska viðkomandi eftir viðtali við fjárln., þeir eru líka kallaðir fyrir fagnefnd. Tilgangurinn með breytingum á þingsköpunum 1991 var að reyna að auka vald fagnefndanna en eins og oft hefur verið rætt þá finnst mér að það hafi ekki verið gengið nógu langt og að fjárln. sé býsna fastheldin á valdsvið sitt. Því vil ég spyrja: Er vilji til að breyta þessu? Jafnframt skora ég á fjárln. að nota tækifærið og breyta þessum vinnubrögðum, fela fagnefndunum aukin áhrif og aukin völd.