Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 17:24:30 (102)

1997-10-07 17:24:30# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:24]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ánægð með að menn skuli hafa rætt þetta atriði. Nú er að hefjast sjöunda árið þar sem þessi nýju þingsköp gilda eða breytingarnar frá 1991 og ég tel að komin sé allveruleg reynsla á þá aðferð sem hefur verið viðhöfð. Að mínum dómi hefur hún skilað þeim árangri að þingmenn yfir höfuð eru miklu betur að sér um fjárlög ríkisins og það sem að þeirra verksviði snýr en áður var. Því er ég þeirrar skoðunar að það eigi að stíga skrefi lengra og það eigi að auka vald nefndanna. Það er heimild í þingsköpum til þess að fela nefndum að skoða málaflokka sína og spurningin er sú hvað nefndirnar ganga langt og hvað fjárln. tekur mikið mark á þeirri vinnu. Gagnvart þeim sem eru að leita til fjárveitingavaldsins finnst mér það vera skref sem þarf að stíga að reyna að koma í veg fyrir þennan mikla tvíverknað og jafnframt að því fleiri sem koma að málunum og því meira sem vægi fagnefndanna (Forseti hringir.) er því meira er auðvitað hægt að létta af fjárln. sem ég tel fulla þörf á í ljósi þessara breytinga.