Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 17:31:07 (106)

1997-10-07 17:31:07# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er þversögn í máli hv. þm. Sturlu Böðvarssonar. Hann sagði: ,,Ég hafna engu fyrir fram.`` Hann sagðist eiga eftir að sjá þessa útfærslu. En hann er ekki búinn að sjá útfærsluna fyrir sjúkrahúsið í Stykkishólmi en samt hafnar hann því. Hvers vegna? Getur ástæðan verið sú að það er sjúkrahús sem er í hans eigin kjördæmi, nálægt þeim stað þar sem hann hefur alið sinn aldur? Getur það verið? Ég veit það ekki. Það væri rétt að hv. þm. svaraði því. Spurningin er þessi: Ætlar hann að samþykkja þennan niðurskurð? Er hann reiðubúinn að segja að þetta beri keim af handahófskenndum vinnubrögðum? Af hverju kasta ég þessu fram, herra forseti? Vegna þess að í fyrra voru sumir félagar hans í ríkisstjórninni uppi með málflutning þar sem þeir héldu því beinlínis fram að hægt væri án þess að raska um of þjónustu þessara spítala á landsbyggðinni að skera niður um 160 millj. kr. Nú allt í einu telja þeir að það sé aðeins hægt að skera niður um 80 millj. kr. Það er afskaplega heppileg tala að minnka niðurskurðinn um helming. Auðvitað vitum við það, stjórnarandstæðingar, að ríkisstjórnin er að gefast upp í málinu vegna þess að rök hennar voru ekki held. Ég ég spyr hv. þm. hvort hann sé ekki á móti niðurskurðinum sem er í þeim spítala sem við ræddum um? Mun hann þá ekki líka taka á sig rögg og lýsa því yfir að hann fordæmi þessi handahófslegu vinnubrögð vegna þess að hann sjálfur, varaformaður fjárln., sagði að engar áætlanir lægju til grundvallar þessari tölu. Er ekki varaformaður fjárln. að fella ansi harðan áfellisdóm yfir hæstv. heilbrrh.?