Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 17:32:50 (107)

1997-10-07 17:32:50# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[17:32]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson lagði mér ansi oft orð í munn. Ég hef hvergi haft uppi þau stóru orð um handahófskennd vinnubrögð o.s.frv. En ég hef lagt á það áherslu og undir það vil ég strika sérstaklega, að þannig sé gengið fram í þessu máli, ekki síst gagnvart þeirri stofnun sem ég hef nefnt hér, sem hefur starfað í 60 ár undir mjög sérstökum kringumstæðum, á þann veg að byggt verði á samningum. Vegna þess að það er allt annað en þegar við erum að fjalla um ríkisstofnanir. Ég vænti því þess að hv. þm. hafi góðan skilning á þessu atriði og að hann meti það með allt öðrum hætti þegar við þurfum að umgangast fyrirtæki sem eru algerlega undir umráðasvæði ríkisvaldsins eða hvort um er að ræða sjálfseignarstofnanir þar sem aðilar hafa sjálfir lagt mikla fjármuni til.