Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:40:37 (122)

1997-10-07 18:40:37# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:40]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það fjárlagafrv. sem hér er til umræðu er eitthvert hið athyglisverðasta sem lagt hefur verið fram á hv. Alþingi. Það er ekki bara fyrir hinn góða árangur í ríkisfjármálum og efnahagsmálum sem þar kemur fram sem frv. er athyglisvert heldur ekki síður vegna þeirrar breyttu framsetningar sem er á frv. En það sem er sennilega mikilvægast er að góður árangur og breytt framsetning skuli fara saman.

Helsta breytingin er auðvitað sú, eins og fram hefur komið, að fjárlögin eru gerð upp á rekstrargrunni. Það skiptir ekki höfuðmáli í því tilfelli hvort uppreiknaðar lífeyrisskuldbindingar ríkisins eru með inni í því eða ekki því að rekstrargrunninum er ætlað að gera upp það sem gerst hefur á rekstrarárinu en uppreikningur á hinum uppsöfnuðu lífeyrisskuldbindingum á auðvitað rót sína að rekja til fyrri ára. En því sem fellur til á árinu er skilmerkilega til skila haldið í uppgjörinu.

Það ánægjulegasta við þessa niðurstöðu frv. er að á rekstrargrunni skuli fjárlögin verða gerð upp með afgangi upp á hálfan milljarð. Það gefur vonir um að þetta verði það markmið sem menn setji sér í framtíðinni, þ.e. að reka ríkissjóð með afgangi á rekstrargrunni og það muni í framtíðinni veita okkur meira aðhald í ríkisrekstrinum en við höfum hingað til átt að venjast, að traustara uppgjör með afgangi verði fyrirmyndin sem núv. hæstv. fjmrh. skapar fyrir framtíðina í ríkisfjármálunum.

Annað atriði sem er jákvætt og kemur fram í hinni breyttu framsetningu og er gleggra en áður hefur verið er lánsfjárþörf ríkissjóðs. Það er auðvitað sú tala sem mest áhrif hefur á peningamarkaðinn í landinu og þróun efnahagsmála er tengjast fjármagnsmarkaðnum á næstu missirum. En þar er hvorki um meira né minna að ræða en 8 milljarða viðsnúning á milli ára og 5 milljarðar verða notaðir til þess að greiða skuldir ríkissjóðs. Þetta mun skipta gríðarlega miklu máli fyrir alla þróun á fjármagnsmarkaði, bæði á sviði vaxta og á hlutabréfamarkaði og mun væntanlega koma bæði fyrirtækjum og einstaklingum til góða strax á næsta ári, ef ekki fyrr.

Þó að margt sé jákvætt við þessar breytingar, sem hér hafa komið fram er betrumbótum á framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings enn ekki lokið og verður sennilega aldrei lokið. En það sem ég tel að þyrfti að koma til í framhaldi af þessum breytingum er að farið yrði að reikna fasteignakostnað hinna ýmsu stofnana ríkisins inn í rekstur þeirra, bæði til þess að gefa gleggri upplýsingar um hver staða þeirra raunverulega er samanborið við aðrar stofnanir og fyrirtæki úti í þjóðfélaginu, en ekki síst til þess að veita þeim sem reka stofnanirnar aðhald og hafa eitthvað um það að segja hversu mikið húsnæði þær þurfi fyrir sína starfsemi því engum þarf að blandast hugur um að húsnæðiskostnaður þessara stofnana, þótt hann sé ekki talinn í fjárlögunum, er gríðarlega mikill.

[18:45]

Í fyrri hluta fjárlagafrv. er líka tæpt í fyrsta skipti á mjög mikilvægum þætti en það eru kynslóðareikningar og vissulega verður að segja að sú niðurstaða sem kemur út úr þeim reikningum ber ekki vitni um að menn hafi farið nógu varlega í ríkisfjármálum á liðnum árum og hafi hugsað nægjanlega mikið um ungu kynslóðina sem á að greiða skuldirnar í framtíðinni. Þar kemur fram að vegna hinnar miklu vaxtabyrðar ríkisins þarf kynslóðin sem fædd er 1995 að greiða 700 þús. kr. meira til ríkisins en gert er ráð fyrir að hún muni fá frá ríkinu. Og ef haldið verður áfram með ríkisfjármálin eins og verið hefur á undanförnum árum og áratugum jafnvel, þá mun þessi upphæð hækka í tæpar 2 millj.

Þetta segir okkur að við þurfum að fara miklum mun varlegar með fjármuni ríkisins en við höfum gert hingað til því að það kemur að skuldadögunum og ef við greiðum ekki skuldirnar, þá gera afkomendur okkar það. Hvernig okkur gengur að greiða þessar skuldir í framtíðinni fer auðvitað eftir því hvaða framtíðarhorfur munu skapa framtíð okkar. Í frv. kemur fram að gert er ráð fyrir svipaðri afkomu á næstu árum hvað varðar ríkissjóð á rekstrargrunni en að viðskiptahalli muni fara minnkandi, erlendar skuldir muni minnka og skuldir ríkisins muni í heild minnka. En þetta er ekki sjálfgefið og það krefst frekara aðhalds í rekstri ríkisins.

En við vitum líka að við þurfum að leggja meiri áherslu á menntamálin heldur en við höfum gert hingað til og við vitum það líka að kostnaður heilsugæslunnar mun aukast á næstu árum. Ég held því að það sé aðeins á einum lið í fjárlögunum sem við getum fundið verulegt svigrúm til þess að mæta auknum útgjöldum á þessu sviði í framtíðinni en það er á liðnum Vextir. Því tel ég að við verðum að halda áfram með frekari einkavæðingu. Við verðum að auka einkavæðinguna og við þurfum að auka sölu ríkiseigna og lækka með því skuldir ríkisins því að á þann eina hátt getum við minnkað vaxtagreiðslurnar. Og eins og ég sagði áðan þá er það eini staðurinn í fjárlagafrv. þar sem um eitthvert verulegt svigrúm er að ræða. Og það blandast engum hugur um að það er verulegt svigrúm fyrir ríkissjóð til þess að selja og losa um eignir og það á ekki síst við í þeim stofnunum og fyrirtækjum sem ríkið á á fjármagnsmarkaðnum. Það fer að verða óeðlilegra og óeðlilegra með hverjum deginum hversu stóran hlut ríkið á í okkar peningamarkaði, sérstaklega þegar við berum það saman við þau lönd sem við höfum helst viðskipti við og teljum okkur þurfa að vera samanburðarhæf við. Þess vegna tel ég að þetta sé það sem skiptir mestu máli í stjórn ríkisfjármála á næstu árum, þ.e. frekara aðhald og frekari einkavæðing og sala eigna. Þannig getum við bætt úr þar sem við viljum bæta úr en jafnframt lækkað skuldabyrði ungu kynslóðarinnar þannig að þær upplýsingar um kynslóðareikninga sem við komum til með að sjá í framtíðinni, í framtíðarfjárlagafrumvörpum, verði jákvæðari en þær upplýsingar sem eru í fyrirliggjandi frv.