Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:57:37 (126)

1997-10-07 18:57:37# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:57]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekki um heilindi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann talar um það að lækka jaðarskattana. En það sem gerir jaðarskattana svona háa er hið háa skatthlutfall og þess vegna er besta leiðin til þess að lækka jaðarskattana að lækka skatthlutfallið.

Og skattar á fyrirtæki. Það er einmitt vegna þess að nú í fyrsta skipti eru skattar á fyrirtæki hér á landi á svipuðu stigi og í nágrannalöndunum sem við erum að fá erlenda fjárfestingu hér á landi eftir margra ára bið. Og að ég sé að tala um það að rústa samtryggingarkerfinu í lífeyrissjóðunum, það er algjörlega alrangt. Ég hef hvergi talað fyrir því. Það sem ég hef sagt er að fólk eigi að geta valið um það í hvaða sjóði það greiðir. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði áðan til Alþjóðabankans og það er einmitt Alþjóðabankinn sem segir um sjóðamyndunina í samtryggingarkerfinu að þar þurfi að vera um valmöguleika að ræða á milli sjóða. Að þeir sem að greiða þurfi að fá að velja um sjóði. Annars verði kerfið óskilvirkt. Ef um einkokun á sparnaði einstaklinganna er að ræða, þá virkar kerfið ekki eins og það á að gera. Það vantar samkeppni og það drabbast niður og arðurinn verður ekki eins mikill og hann ella hefði verið og það mun koma niður á fólkinu í ellinni og ég hélt að hann bæri hag þess fyrir brjósti eins og við öll hin gerum.