Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 19:20:07 (128)

1997-10-07 19:20:07# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:20]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég veita þær upplýsingar að hugmyndin er að skipuð verði nefnd sem í verða tveir þingmenn stjórnarflokkanna og síðan embættismenn ráðuneytisins sem vinna með nefndinni eða verða í henni ásamt fulltrúum sem koma úr skattkerfinu. Hlutverk þessarar nefndar eða þessa vinnuhóps, því að enn hefur ekki verið nákvæmlega tekið utan um það hvort þetta er vinnuhópur, starfshópur eða nefnd, verður fyrst og fremst að fara yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á íslenska skattkerfinu annars vegar og að kanna rækilega hvaða þróun hefur átt sér stað erlendis. Það er hægt að gera bæði með því að skoða beinlínis löggjöf annarra landa og einnig upplýsingar sem eru til, m.a. hjá OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hugmyndin er sú að þessi nefnd stilli upp kostum. Þegar það liggur fyrir og búið er að safna upplýsingum --- þetta er nánast söfnun upplýsinga í framhaldi af því sem jaðarskattanefndin gerði --- þá verða fyrirliggjandi upplýsingar kynntar fyrir m.a. aðilum vinnumarkaðarins og öðrum þeim sem við teljum að þurfi að koma að málinu og það verði gert áður en nokkur stefnumótun á sér stað. Þessi nefnd á því fyrst og fremst að safna upplýsingum en markmiðið hlýtur að vera það sama og margoft hefur verið bent á og það er að nýta skattkerfið til fulls til þess að styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Það getur gerst með skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga því að við erum í bullandi samkeppni við aðrar þjóðir um að halda lífskjörum uppi í þessu landi og til þess að svo sé hægt þarf einnig að taka tillit til skattkerfisins. Þetta verður það sem nefndin mun gera og tekur einhvern tíma en í framhaldi af því á sér stað stefnumótun í málinu.