Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 19:49:10 (134)

1997-10-07 19:49:10# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:49]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að hv. þm. Ögmundur Jónasson heyrði upphaf máls míns. Við erum vafalaust sammála um að bæta þurfi hag margra opinberra stétta, ekki síst í heilbrigðisgeiranum. Það sem mér sýnist eða heyrist að beri á milli hjá mér og hv. þm. Ögmundi Jónassyni er að ég vil ekki auka þá byrði sem lögð er á skattgreiðendur til að geta mætt því sem nauðsynlega þarf að gera fyrir launakerfi opinberra starfsmanna. Ég vil mæta því með hagræðingu í þjóðfélaginu. Ég vil mæta því með því að minnka yfirbygginguna í þjóðfélaginu og með því að taka launakerfið til endurskoðunar, hið opinbera launakerfi, þannig að fólk fái greitt í samræmi við það vinnuframlag sem það leggur fram. Ég hef unnið í báðum þessum kerfum. Ég veit að það er æðimikill munur að vinna hjá hinu opinbera eða úti í atvinnulífinu og það væru mjög margir sem vinna í atvinnulífinu sem gjarnan vildu komast í það skjól að vinna hjá hinu opinbera. En þrátt fyrir þessi orð vil ég taka fram að bæta þarf kjör ákveðinna hópa. Í mínum huga þarf fyrst og fremst að bæta kjör fólks í heilbrigðisstéttum. Það þarf að bæta kjör lækna alveg sérstaklega vegna þess að þeir eru hópur sem getur farið vítt og breitt um heiminn og við þurfum að leggja okkur eftir því að halda hér bestu læknum og mjög góðu fólki í heilbrigðisþjónustunni.