Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 19:51:05 (135)

1997-10-07 19:51:05# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[19:51]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur frammi til 1. umr. fjárlagafrv. 1998. Frv. er afskaplega vel klætt í nýjum búningi og eru höfundar þess greinilega drjúgir með árangurinn, enda hefur vissulega vel tekist til með margt í þjóðarbúskapnum að undanförnu. Ytri aðstæður hafa verið hagstæðar og hagvöxtur verið mikill. Aflabrögð hafa farið batnandi og von er á enn betri tíð í þeim efnum ef marka má spár. Það hefur með öðrum orðum verið góðæri í landinu og þá hlýtur maður að staldra við og spyrja sig spurninga um hvernig hafi nú til tekist við að koma lífskjörum þjóðarinnar í betra horf, koma góðærinu til almennings.

Þá leita auðvitað fyrst á hugann þeir sem höllum fæti hafa staðið á undanförnum árum, þeir sem hafa verið á stöðugu undanhaldi með sín kjör, þ.e. aldraðir og öryrkjar, þeir sem voru látnir gjalda þess þegar illa gekk og standa undir aflabrestinum og óáraninni. Síðast var svo komið þegar ekki dugði lengur að hækka lyfjakostnað þeirra og sjúklingaskatta sem e.t.v. bitnaði harðast á þessum hópum sem þurftu mjög mikið á slíkri þjónustu að halda, að lífeyrir þeirra var aftengdur frá hækkunum á lægstu launum í þjóðfélaginu í sparnaðarskyni. Þó vel ári í þjóðfélaginu er ekki gert ráð fyrir að þessari launatengingu verði komið á aftur samkvæmt fyrirliggjandi frv. Þessir hópar, sem hafa verið seinþreyttir til vandræða, hafa í dag haldið fjölmennan útifund við Alþingishúsið til að mótmæla þeirri meðferð sem þeir fá nú í góðærinu. Ég skora á ríkisstjórnina að taka mark á mótmælum þessa fólks. Málflutningur þeirra er sanngjarn og á rökum reistur.

Það er ákaflega erfitt að átta sig til fulls á fjárlagafrv. í þeim nýja búningi sem það er nú lagt fram í, en sjálfsagt lærist það þegar farið verður að vinna með frv. í nefnd. Það eru reiknaðar inn í rekstrargrunninn alls konar sértekjur stofnana, sem ekki hafa verið þar áður, svo að samanburður við fyrri fjárlög er mjög erfiður því mikið vantar á að fullnægjandi skýringar séu alltaf með að mínum dómi. Ég mun í þessari ræðu tala einkum um þann hluta fjárlaganna sem snertir þær nefndir sem ég starfa í innan þingsins en það eru landbn. og menntmn. Ég ætla þá að byrja á landbúnaðinum.

Breytt framsetning leiðir til þess að heildargjöld landbrn. verða rúmum milljarði hærri en áður og veldur þar að ýmsir sjóðir eru þar gjaldfærðir sem áður voru öðruvísi færðir. Vekur athygli að í áætlun fyrir ráðuneytið sjálft, þ.e. raun\-áætlun, er gert ráð fyrir 1,5 millj. kr. lækkun á framlögum til landgræðslu- og skógræktarmála en 2 millj. kr. eru færðar á samning við Stofnfisk um laxakynbætur. Sem sagt, úr einum vasanum yfir í annan. Maður hefði nú kannski haldið að umsvif á vegum ráðuneytisins vegna skógræktar og landgræðslu kynnu að aukast en ekki að minnka eftir að frumvörp um stóraukin umsvif á sviði skógræktar voru samþykkt á hinu háa Alþingi á sl. vori.

Því ber að fagna að framlög til Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins hækka nokkuð þó að þar verði þó að hafa í huga hið breytta framsetningarform sem er afar villandi í þessu tilviki þar sem nú eru styrkir og þjónustutekjur færðar sem rekstrargjöld.

Á síðasta ári var samþykkt sakleysislegt frv. um embætti veiðistjóra sem gerði embættið að sérstakri stofnun aðskilið frá Veiðimálastofnun. Þar var talið að þessi breyting mundi ekki leiða til neins aukakostnaðar, en hér virðist koma á daginn að hún kostar a.m.k. 5 millj., 4 millj. til Veiðimálastofnunar í viðbótarframlag vegna skipulagsbreytinga og 1 millj. til viðbótar til embættis veiðistjóra. Allt kostar þetta.

Framlag til átaks í landgræðslu og skógrækt eykst um 25 millj. kr. milli ára og er það vel en dugar tiltölulega skammt til að klæða landið og þó Hagkaup planti út og kannski Fjarðarkaup líka, þá hlýtur krafan að standa á ríkið að stöðva uppblásturinn í landinu sem er einhver mesta plága sem við búum við.

Framlög vegna framleiðslu mjólkur og sauðfjárafurða eru samkvæmt lögum en rétt er að minna á að samningur um mjólkurframleiðslu rennur út 1998 í ágústlok, ef ég man rétt, og þarf hið skjótasta að hefja viðræður um nýjan samning. Það eru engar aðgerðir í þessu fjárlagafrv. vegna allra þeirra sauðfjárbænda í landinu sem þreyja nú þorrann og góuna undir fátæktarmörkum. Það hefur nú ekki verið vinsælt meðal sjálfstæðismanna að rétta þeim hendi sem minna mega sín en mér finnst að framsóknarmönnum ætti kannski að renna blóðið til skyldunnar þegar fram hafa komið upplýsingar um að meðaltekjur sauðfjárbænda í landinu voru 600--700 þús. á sl. ári. Það veldur mér áhyggjum en því miður er engin bjargræði að sjá í fjárlagafrv. fyrir þennan hóp. Það er þó tekið á einu af vandamálunum sem landbúnaðurinn hefur verið að reka á undan sér í mörg ár, því að 89 millj. kr. sem nýttust ekki til að kaupa fullvirðisrétt 1997 á að verja til greiðslu jarðræktarframlaga ef samkomulag tekst við Bændasamtökin og er það vel.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins fær 175 millj. kr. samkvæmt búvörusamningi en sjóðurinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að stuðla að nýjungum í landbúnaði. Það hefur oft verið sneitt að Framleiðnisjóði í umræðunni meðal manna á Íslandi en þarna er þó möguleikinn til að hlúa að vaxtarbroddinum í landbúnaði í dag. Það hefur glatt mig á ferðum mínum um landbúnaðarhéruð undanfarna mánuði að sjá hversu margt framfarasinnað fólk er að verki í landbúnaðinum og hve margt er að gerast er til framfara horfir í þessari atvinnugrein sem hefur óneitanlega komið nokkuð illa út úr umræðunni á undanförnum árum. Bændur þurfa að vera duglegri við að auglýsa allt það sem er fádæma vel gert í landbúnaði á Íslandi í dag. Til að slá botninn í þann hluta ræðu minnar sem fjallar um landbúnaðarmál, þá vil ég harma þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í skerðingarákvæðum þessa fjárlagafrv. að skera framlög til markaðssetningar vistvænna og lífrænna afurða niður um helming. 25 millj. voru svo sannarlega engin ofrausn til þessara verkefna og nú þegar ýmis teikn voru á lofti um að markaðir væru að opnast, t.d. fyrir sauðfjárafurðir, er hart að sjá þetta framlag skorið niður með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Þá kem ég að þeim hluta ræðunnar sem fjallar um málefni menntmrn. Breytt framsetning frv. gerir samanburð milli ára líka erfiðan og leiðir til þess að heildargjöld ráðuneytisins samkvæmt frv. eru tæpum 2,3 milljörðum hærri en þau væru samkvæmt þeirri uppsetningu fjárlaga sem hingað til hefur verið viðhöfð. En það kemur fram að raunframlag úr ríkissjóði til háskóla og rannsókna er áætlað 3.357 milljarðar og hækkar að raungildi um 95 millj. kr. vegna fjölgunar nemenda og aukins húsnæðiskostnaðar sem þar af leiðir en á móti kemur 32 millj. kr. lækkun vegna tilfærslu framlags vegna bókakaupa og 4 millj. kr. lækkun tímabundins framlags til Raunvísindastofnunar.

[20:00]

Það má búast við töluverðri fjölgun nemenda í háskólanámi á næstu árum og því hlýtur að þurfa að gera ráð fyrir í fjárveitingum til háskóla að fjölgunin verði mikil og ég undrast að ekki séu lagðar hér línurnar til myndarlegrar uppbyggingar háskólanna í stað þeirrar miklu aðhaldssemi sem hér gætir. Ég hef ekki nóga trú á þeim reiknilíkönum sem ætlað er að stjórna í framtíðinni fjárstreymi til háskólanna en ég veit að ýmsir skólamenn binda miklar vonir við þau. Slíkar tölvur reikna auðvitað á þeim grunni sem þær eru mataðar á og meðan þau viðhorf ríkja til menntunar sem núverandi hæstv. ríkisstjórn virðist hafa haft að leiðarljósi við samningu menntamálakafla frv. er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur. Þar er allt vægast sagt á lágum nótum og metnaðarleysið áberandi og það sem fyrst og fremst er áætlað að gerist í málefnum háskólanna er samþykkt nýju háskólafrumvarpanna sem munu fyrst og fremst auka miðstýringu í háskólum, gefa möguleika á aukinni gjaldtekju af nemendum sem var nú ef til vill ekki það sem við þurftum mest á að halda.

Nú á tímum er okkar helsta von í breyttum heimi aukin menntun þjóðarinnar og þar með er algjörlega nauðsynlegt að í landinu verði tryggt aukið jafnrétti til náms, en jafnrétti á mjög undir högg að sækja þegar gjaldtaka er leyfð í menntakerfinu. Það er nefnilega ekki svo, herra forseti, eins og ályktað var á fundi Heimdallar, þess merka ungmennafélags Sjálfstfl., að menntun kæmi fyrst og fremst þeim einstaklingum sem fá hana til góða. Menntun er þjóðhagslega hagkvæm. Um það er ekki lengur deilt og auðvitað er hún einstaklingum líka til gagns og gleði og það er auðvitað bónusauki fyrir ríkið að þegnarnir séu hamingjusamt fólk. En menntun á ekki að vera þeim fjárhagslega ofviða sem á annað borð hafa hæfileika og vilja öðlast hana. Með öðrum orðum á þjóðin auðvitað að fjárfesta í menntun nú í góðærinu.

Það má segja nánast það sama um framhaldsskólann og háskólann. Þar er gert ráð fyrir 48 millj. kr. hækkun vegna nemendafjölgunar og mun það síst ofætlað. Svo villir nokkuð fyrir að hækkun er á rekstrarlið vegna þess að nú er framhaldsskólum ætlað að greiða húsaleigu til ríkisins, allt að 170 millj. kr. Einmitt í framhaldsskólum hafa verið tekin í notkun reiknilíkön til að áætla útgjöld 3/4 hluta framhaldsskóla vegna kennslu dagskólanemenda sem taka próf og verður nú spennandi að sjá hvernig til tekst en gert er ráð fyrir að á þessum grunni verði gerðir samningar við skóla til næstu þriggja ára.

Ég vil aðeins víkja að því hver áhrif það kann að hafa á fullorðinsfræðsluna í landinu að miða framlög til skóla við þá sem taka próf. Fjöldi manna hefur sótt fræðslu í öldungadeildirnar í byggðarlögunum, greitt tilskilin gjöld og sótt sér fræðslu sér til gagns og ánægju án þess að treysta sér í próf enda ekki endilega litið á nám sitt sem lið í lokaprófi frá skólanum. Þessu fólki er nú gert erfiðara fyrir og yfirleitt er ekki um það að ræða að boðið sé upp á annars konar fullorðinsfræðslu í þeirra heimabyggð enda voru framlög til slíks skorin af í síðustu fjárlögum, þ.e. 1997. Það er enn einn bletturinn á íslensku menntakerfi hve illa er staðið að fullorðinsfræðslu í landinu og hér er veist að því litla sem þó er fyrir hendi.

Vonandi verða þau þróunarverkefni sem ráðuneytið er að styrkja núna þessa dagana og okkur bárust fréttir um með tölvupósti í dag um þróun fullorðinsfræðslumiðstöðva í nokkrum fjölbrautaskólum, til að breyta hugsunarhættinum og vonandi verður sú aðferð að reikna aðeins þá sem taka próf þegar forsendur eru gefnar reiknilíkaninu ekki til að sporna við þessari þróun. Það er ótrúlega margt fólk á öllum aldri sem vill bæta við þekkingu sína og það á að geta verið samstaða um það viðhorf hjá ráðamönnum íslensku þjóðarinnar, að bókvitið verði í askana látið.

Það má geta þess að framlög til byggingar framhaldsskóla lækka á árinu um 54 millj. kr. og hefur þó ekki verið höfð þar ofrausn á á undanförnum árum. Það vekur sérstaka athygli að þegar litið er á listann yfir skóla sem fá framlög til byggingarframkvæmda að þar er að engu getið þess skóla sem býr við verstan húsnæðiskost allra framhaldsskóla á Íslandi sem nú eru starfandi og ég hef heimsótt, en það er framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu. Í þeim skóla sitja nemendur nánast hver ofan á öðrum. Mér er kunnugt um að skólayfirvöld og bæjarstjórn á Hornafirði hafa leitað liðsinnis fjárln. vegna þessa máls og mig undrar því að skólans er hér að engu getið. Það hefði nú í öllu falli mátt setja þarna tiltölulega lága upphæð til undirbúnings skólabyggingar.

Síðast en ekki síst harma ég að það virðast vera áform ríkisvaldsins að halda Námsgagnastofnun áfram á horriminni eins og hefur verið lenska á undanförnum árum. Þetta er einhver mesta þjóðþrifastofnun sem rekin er hér í landinu og hefur á liðnum áratugum séð landsmönnum fyrir ótrúlega ódýrum kennslubókum, en að því er mér finnst aldrei notið þeirrar virðingar ríkisvaldsins, hvað þá heldur umbunar á fjárlögum, sem hún á skilið. Mér finnst mál til að þeir sem virtust hafa mestar áhyggjur vegna útkomu okkar í TIMSS-rannsókninni ættu að beita sér fyrir myndarlegri fjárveitingu til Námsgagnastofnunar svo hún geti enn betur sinnt hlutverki sínu. Námsgagnastofnun fær aðeins brot af því fjármagni sem varið er til kennslubókagerðar hjá þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Ég verð að segja það sem niðurstöðu mína við fyrstu yfirferð þessara fjárlaga þar sem víða er naumt skammtað til mikilla þjóðþrifamála, t.d. vegamála og menntamála, og áfram er gert ráð fyrir að góðærið komi ekki til þeirra sem að eiga að drekka úr hóffarinu, að ef til vill hefði ríkisstjórnin átt að fara öðruvísi að við skattalagabreytingar á síðasta þingi, bíða t.d. með það að lækka skatta á hæstu laun og fjármagnsgróða svo ekki þyrfti að skera við nögl sjálfsagða þjónustu í landinu nú meðan fregnir berast af því að fjármagnseigendur séu að nota sér gengismun og vaxtamun til að taka lán erlendis og fjárfesta í verðbréfum á Íslandi. Á tímum góðæris á ekki að rjúka til og lækka skatta á hátekjufólki meðan við getum ekki kostað nám unga fólksins í landinu á viðunandi hátt.