Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 13:35:37 (142)

1997-10-08 13:35:37# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[13:35]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég veit satt að segja ekki af hverju hæstv. fjmrh. er að hrósa sér af fjárlögunum. Mér finnst harla lítið nýtt í þeim og eina sem er kannski nýtt er breytt útlit og uppsetning á fjárlögunum sem á að gera það gegnsærra. Ég get samt ekki séð að það sé miklu gegnsærra vegna þess að eftir stendur að margt er óljóst í frv., sérstaklega það sem snýr að niðurskurðartillögum. Mér finnst innihaldið boða litlar breytingar og nýja sýn í ríkisfjármálum sem tryggir betur hag heimilanna og fjölskyldnanna í landinu. Mér finnst miklir veikleikar í fjárlögunum sem einkennast af skammsýni, sérstaklega í framlögum til menntamála og einnig annarra velferðarmála.

Hæstv. fjmrh. státar af afgangi á fjárlögum. Hann gerði það líka í fyrra. Niðurstaðan á síðasta ári virðist vera útgjaldaaukning umfram fjárlög fyrir fjárlagaárið 1997 6,9 milljarðar og tekjuaukning 4,7 milljarðar og stefnir í 1,3 milljarða halla en ekki afgang. Stjórnarandstaðan hefur sýnt fram á að 6--7 milljarða útgjöld vantar inn á fjárlögin auk þess sem 2,6 milljarða vantar til sjúkrahúsanna. Við skulum því, herra forseti, spyrja að leikslokum varðandi þann tekjuafgang sem sýndur er á fjárlögunum.

Talað er um að erlendar skuldir lækki en ekki hef ég heyrt einn einasta stjórnarliða tala um skuldir heimilanna. Hafa þær lækkað í tíð ríkisstjórnarinnar? Nei, þær hafa aukist frá því að ríkisstjórnin tók við og fram í júní á þessu ári um 55 milljarða á verðlagi nú í október og ekki er fjarri lagi að ætla að aukning á skuldum heimilanna nemi nálægt 100 milljónum á dag. Það er nokkuð sérkennilegt að í efnahags\-kreppunni 1991 voru þær um 53% af landsframleiðslu en í árslok 1996 í góðærinu eru þær um 72% af landsframleiðslu. Hvað segir Framsfl. um skuldaaukningu heimilanna? Formaður fjárveitinganefndar kom í ræðustól í gær og nefndi ekki eitt einasta orð um skuldaaukningu heimilanna. Hvar er skuldbreyting aldarinnar sem Framsfl. boðaði? Hvar er greiðsluaðlögunin? Allt átti að lagast varðandi skuldir heimilanna þegar þeir kæmust í ríkisstjórn. Nú er ekki eitt einasta orð sagt um skuldir heimilanna. Það orð er ekki til í orðabók framsóknarmanna og þeir virðast hreinlega hafa gleymt að skuldir heimilanna séu yfirleitt til. Þeir létu íhaldið stoppa að þeir kæmust fram með sitt stærsta kosningamál sem var greiðsluaðlögun fyrir skuldug heimili í landinu.

Nei, herra forseti, helmingaskiptastjórn framsóknar\-íhaldsins ver fyrst og fremst sérhagsmuni fárra gegn almannahagsmunum. Þeir verja fjármagnseigendur sem eiga eingöngu að skila 1 milljarði á næsta ári í fjármagnstekjuskatt. Þeir verja velferðarkerfi fyrirtækjanna og fjármagnseigenda sem búa við skattaparadís eins og fram kom í gær. Ekki vefst fyrir fjmrh. að skattleggja skuldir heimilanna, ríkissjóður tekur til sín 3 milljarða í stimpilgjöld og annað eins í dráttarvexti auk ýmissa dómsmálagjalda og gjaldtöku af fjárnámi eða uppboði heimilanna í landinu. Við erum að ræða um vel á sjöunda milljarð samtals. Hve stórt hlutfall af þessum 6--7 milljörðum er skattlagning á skuldug heimili í landinu sem aukið hafa skuldirnar um 55 milljarða kr. í tveggja ára valdasetu ríkisstjórnarinnar --- og það í góðæri? Hversu mikinn hlut eiga heimilin í landinu af þeim 6--7 milljörðum sem verið er að skattleggja vanskil og skuldir heimilanna í landinu? Hvar er opinber fjölskyldustefna ríkisstjórnarinnar sem undirbúin var í tíð Rannveigar Guðmundsdóttur í félmrn. og samþykkt var á síðasta Alþingi? Hvar sér þess stað í fjárlögum að fólk sé í fyrirrúmi eða að Alþingi hafi nýlega samþykkt opinbera fjölskyldustefnu?

Ég spyr, herra forseti, getur hæstv. félmrh. svarað því hvort fjölskylduráðið, sem setja átti á laggirnar samkvæmt tillögum um opinbera fjölskyldustefnu, hafi farið yfir þessa tillögu, þessi fjárlög, með hliðsjón af stöðu fjölskyldunnar? Á fjölskylduráðið t.d. að fara yfir áform um stjórnvaldsaðgerðir og hafa heildarsýn yfir viðfangsefni einstakra ráðuneyta? Kannski hefur hæstv. félmrh. ekkert legið á að skipa fjölskylduráðið. Kannski er ekki búið að skipa það enn þá. Af því það sést best á þessum fjárlögum að helmingaskiptastjórn íhalds og Framsóknar meinar ekkert með opinberri fjölskyldustefnu. Opinber fjölskyldustefna verður bara pappírsplagg þangað til jafnaðarmenn komast til valda.

Ef við skoðum menntamálin ríkir þar vissulega skammsýni. Við erum neðst í framlögum OECD-þjóða, á bekk með Grikkjum og Tyrkjum. Ætlum við að halda unga fólkinu á Íslandi eða ekki? Ætlum við að gefa því tækifæri hér eða verður unga fólkið knúið til að flýja land vegna skammsýni íhaldsins sem lengst af hefur farið með menntamálin? Hvað með langtímaatvinnuleysi hjá ungu fólki og fólki sem komið er yfir miðjan aldur, ekki síst hjá konum sem virðast ekki lengur vera gjaldgengar á vinnumarkaði? Á að gefa þessu fólki annað tækifæri til endurmenntunar eða nauðsynlegrar starfsþjálfunar? Hvernig stöndum við að því er varðar framlög til starfsmenntunar í þessu góðæri? Við stöndum auðvitað í stað. Ekki er ein einasta króna í aukningu til starfsmenntunar. Þetta er sama fjárhæð og var þegar við gengum í gegnum efnahagsþrengingarnar. Þá voru þetta um 50 millj. kr. og ríkisstjórnin sér enga ástæðu til þess auka framlög til starfsmenntunar nú þegar hún talar um góðæri í öðru hverju orði.

Landlæknir segir okkur að 15% þjóðarinnar séu styrkþegar. Hvar á þessi hópur skjól í fjölskyldustefnunni hjá ríkisstjórninni? Aukning á örorkulífeyrisþegum á tíu ára tímabili er um nærri helming. Hver er skýringin á aukningunni? Það væri fróðlegt að hæstv. heilbrrh. svaraði því hver væri skýring á verulegri aukningu örorkulífeyrisþega. Við fáum síendurteknar fréttir um aukningu á fjárhagsaðstoð. Endurspegla þær opinbera fjölskyldustefnu ríkisstjórnarinnar? Eða ákall frá Rauða krossi og hjálparstofnunum eins og fyrir síðustu jól? Og það í góðærinu, herra forseti. Við erum að tala um góðæri. Við erum ekki í efnahagsþrengingum eins og hefur verið á umliðnum árum. Við erum með 5.000 manns á atvinnuleysisskrá og það í góðærinu, herra forseti. Opinber fjölskyldustefna segir ekki svo lítið um málefni barna. Þar kemur fram að umönnun og uppeldi barna sé í dag mikilvægasta verkefni fjölskyldunnar. Og hvað gerir nú ríkisstjórnin í góðærinu í málefnum barna? Framlögin standa í stað. Engin hækkun á framlögum til málefna barna. Er það af því að við erum svo rausnarleg varðandi framlög til málefna barna að við þurfum ekkert að auka þau framlög. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin kemur fram að þrátt fyrir að börn séu hlutfallslega fleiri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum eru útgjöld til barna og fjölskyldna þeirra langlægst hér á landi eða helmingi lægri en annars staðar á Norðurlöndunum. Það er því varla ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin setur ekki eina krónu í aukningu á framlögum til málefna barna enda þótt fjölskyldustefnan sem var samþykkt á síðasta þingi taki á því að tryggja eigi hag barnanna. Þetta sýnir okkur að opinber fjölskyldustefna ríkisstjórnarinnar er bara pappírsplagg.

Við hækkuðum sjálfræðisaldurinn í 18 ár á síðasta þingi. Þá kemur nýr hópur inn frá 16--18 ára. Barnaverndarstofa sendi allshn. erindi á síðasta þingi og sagði að þetta þýddi að fjölga þyrfti meðferðarheimilum um þrjú til fjögur. Hvar eru þau í fjárlögunum, herra forseti? Ég hef ekki fundið þau í fjárlögunum. Hvergi er aukning til málefna barna --- óbreytt að raungildi segja fjárlögin í góðærinu. Hæstv. félmrh. verður að skýra fyrir okkur hvað á að gera varðandi þessi meðferðarheimili sem kallað er eftir fyrir börnin. Af hverju eru ekki aukin framlög í góðærinu til málefna barna? Árið 1993, þegar við vorum enn í efnahagskreppunni og jafnaðarmenn fóru með félmrn., voru málefni barna flutt frá menntmrn. til félmrn. Og hvað skeði þá? Framlögin til málefna barna voru tvöfölduð í efnahagsþrengingunum. En nú í góðærinu --- ekki ein króna hjá þessari ríkisstjórn.

[13:45]

Nei, Framsfl. hefur rækilega afhjúpað sig sem flokkur sérhagsmuna gegn almannahagsmunum, gegn fólkinu. Og slagorð þeirra um að fólkið sé í fyrirrúmi er orðið að argasta öfugmæli eins og við best sáum í gær þegar 5.000 aldraðir --- í góðærinu, herra forseti --- komu fyrir framan Alþingishúsið til að mótmæla aðgerðum framsóknaríhaldsins í garð lífeyrisþega, en í fjárlögum er nú boðað að festa í sessi að aftengja lífeyrisgreiðslur launaþróun í landinu en að kjör þeirra verði háð geðþóttaákvörðunum ráðherra. Fjmrh. hafði í gær skýringu á reiðum höndum af hverju á að festa þetta í sessi. Hann lýsti því yfir að ákvæðið væri sett til að hægt væri að hækka lífeyri aldraðra til samræmis við lægstu laun í landinu. Og nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Lægstu laun verða 70 þús. kr. um næstu áramót, mun ráðherrann beita sér fyrir því að lífeyrir aldraðra hækki í 70 þús. kr. um næstu áramót? Eða hvað á lífeyririnn að hækka mikið um næstu áramót þegar lágmarkslaunin fara í 70 þús. kr.?

Ég spyr líka hæstv. fjmrh. að gefnu tilefni því það var rætt um fæðingarorlof feðra í gær. Hæstv. fjmrh. hefur boðað að fæðingarorlof feðra hjá hinu opinbera verði tvær vikur --- við fögnum því öll hér í þingsalnum. En ég spyr: Hvar í fjárlögunum hjá opinberum stofnunum er gert ráð fyrir fjármagni til þess að feður geti tekið fæðingarorlof? Hæstv. ráðherra verður að skýra fyrir okkur hvort opinberar stofnanir muni standa frammi fyrir því á næsta ári að eiga ekki fyrir fæðingarorlofi feðra þegar feður, opinberir starfsmenn, leita eftir því.

Þá komum við að opinberri fjölskyldustefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum fatlaðra. Þar er nú ekki af miklu að státa þótt reynt sé að sýna fram á að þar sé um einhverja aukningu að ræða vegna þess að enn og aftur er gengin sama gatan, eins og í fjárlögum á yfirstandandi ári, það er verið að taka peninga af erfðafjárskatti sem á að renna óskiptur í Framkvæmdasjóð fatlaðra og skera niður um 235 milljónir. Í fyrra voru það 255 milljónir. Hæstv. félmrh. segir að það sé verið að auka um 20 milljónir í Framkvæmdasjóðinn. Þetta er ekki einu sinni aukning frá árinu í ár vegna þess að á árinu í ár átti Framkvæmdasjóður fatlaðra inneign hjá Tryggingastofnun ríkisins upp á 65 millj. kr. Þannig að heildarráðstöfun er 230 milljónir á þessu ári en verður 185 milljónir á næsta fjárlagaári. Það er því verið að draga saman framkvæmdafé hjá Framkvæmdasjóði fatlaðra vegna þess að nú verður þetta klippt og skorið. Sjóðurinn fær ekki tekjurnar af erfðafjárskatti heldur er meiri hlutinn af þeim tekinn í ríkissjóð. Og ég vil minna enn og aftur á hvaða forgang við jafnaðarmenn höfðum varðandi þennan málaflokk þegar við vorum í ráðuneytinu vegna þess að þá var raunaukning á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra um 52%.

Nú er hæstv. ráðherra í alls konar sýndarleik með tölur og þykist vera að sýna okkur þingmönnum fram á að hér sé um aukningu að ræða frá síðasta ári þar sem hann var alveg settur í botn. En það er ekki einu sinni aukning, það er skerðing frá yfirstandandi ári af því að sjóðurinn átti inni þessa inneign af erfðafjárskatti hjá Tryggingastofnun ríkisins sem hann mun ekki eiga á næsta ári af því erfðafjárskatturinn rennur ekki nema að hluta til í sjóðinn. Og er hægt að skera niður framkvæmdafé af því það eru engir biðlistar? Vissulega eru biðlistar. Það eru um 250 fatlaðir einstaklingar á biðlista í Reykjavík og Reykjanesi eftir búsetuúrræðum. Og á biðlistum eftir sambýlum í Reykjavík eru 120 manns. Á biðlista geðfatlaðra í Reykjavík eru 50 manns. Hvaða úrræði fær þessi hópur hjá hæstv. ráðherra á næsta ári? Ég sé ekki að þau séu neitt til að státa sig af, herra forseti. Og hvað eru nú framlögin til málefna fatlaðra mikil í heild sinni? Rúmir 2,7 milljarðar. Það er sama og fer í beingreiðslur til kúabænda. Það er heldur meira sem fer til kúabænda en til fatlaðra. Og eru þó bændur ekki of sælir af sínu þó að matarverð sé hér með því hæsta sem við þekkjum. Bændur eru líka, margir hverjir, mjög fátækir hér á Íslandi.

Og húsnæðismálin? Því var lýst yfir og fram kom hjá Ríkisendurskoðun að ef ríkisstjórnin setti ekki meiri framlög í Byggingarsjóð verkamanna þá stefndi hann beint í gjaldþrot. Framlögin voru 300 milljónir og fara í 275 og það er veruleg lækkun á framlögunum frá því sem þau voru. Meira að segja í efnahagsþrengingunum voru þau frá 600--800 og upp í 1.000 milljónir. Á þessu ári eru þau 300 milljónir og eiga að fara niður í 275. Og fækkun á íbúðum verður úr 180 í 170. Er það af því að það eru svo fáir sem sækja um félagslegar íbúðir að það sé ástæða til þess að skerða framlögin og fækka félagslegum íbúðum? Það er alveg ljóst og hæstv. ráðherra hlýtur að viðurkenna það hér í ræðustól að sjóðurinn stefnir beint í gjaldþrot miðað við þetta ríkisframlag. Nei, það eru komnar núna 500 umsóknir sem bíða þar sem óskað er úthlutunar á félagslegum íbúðum á næsta ári. Það eru 270 sveitarfélög og 230 félagasamtök. Félagasamtökin fengu litlu sem engu úthlutað í fyrra. Verður það sama núna að Öryrkjabandalagið fær engri félagslega íbúð úthlutað? Það eru þó 230 umsóknir sem liggja inni frá félagasamtökum og 270 frá sveitarfélögum. Og flestar þessar umsóknir eða nærri 400 af 500 eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Svo virðist sem þessir aðilar eigi ekki að fá mikla úrlausn sinna mála. Ég spyr ráðherra líka: Eiga húsaleigubætur að vera óbreyttar á næsta ári? Hæstv. ráðherra lofaði okkur þó því á síðasta þingi að frá og með næstu áramótum mundu allir, hvar sem þeir byggju á landinu, fá húsaleigubætur. Nú sýnist mér af lestri fjárlagafrv. að það eigi að fresta því enn að breyta húsaleigubótalögunum. Og við þurfum að ræða hér, herra forseti, í langri og ítarlegri utandagskrárumræðu, skýrslu ráðherrans hvernig hann ætlar að breyta félagslega íbúðakerfinu. Ég skal bara vitna í einn aðila, húsnæðisskrifstofuna á Akureyri, sem segir að tilgangur þessara breytinga sé að leggja niður félagslega íbúðakerfið. Þetta þurfum við að ræða og ég hef ekki tíma til þess að ræða það hér frekar.

Varðandi heilbrrn. þá hefur líka verið boðuð utandagskrárumræða út af því, þó að það væri ástæða til þess að hafa mörg orð hér um uppnámið sem er í heilbrigðiskerfinu, uppsagnir lækna og sjúklinga sem eru skildir eftir í óvissu um greiðsluþátttöku hins opinbera. Og við erum enn að tala um 7.000 manns á biðlista í góðærinu. Hvað ætlar hæstv. heilbrrh. að gera? Er það svo að á meðan við förum hér í gegnum fjárlögin og fjárlagaumræðuna með heilbrigðismálin öll í uppnámi að heilbrrh. ætli bara að sitja á sínum stól og láta sér nægja að koma upp í örstutt andsvör eða ætlar ráðherrann að gera grein fyrir viðhorfum sínum og sýn á þann kafla sem við erum að fjalla hér um, heilbrigðismálin? Ég held að hv. þingmenn eigi kröfu til þess að hæstv. ráðherra komi hér upp og geri þinginu grein fyrir því ófremdarástandi sem er í heilbrigðismálum. Á að stytta biðtímann? Á að setja reglur um hámarksbiðtíma eins og er í öðrum löndum, 3--6 mánuðir? Eða hvað ætlar ráðherrann að gera? Ég spyr hæstv. heilbrrh. líka: Á að taka upp nýja gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu? Það er óljóst í fjárlögunum. Og hæstv. ráðherra verður að svara því hvernig á að spara 410 milljónir í sjúkratryggingunum. Er einhver gjaldtaka inni í því? Og sparnaður í tannlækningum upp á 70 millj. kr. --- á að auka hlut fólks í tannlæknakostnaði sem hefur margfaldast á undanförnum árum? Hæstv. ráðherra verður að svara hér við 1. umr. ýmsum óljósum þáttum sem fram koma í fjárlagafrv. en getur ekki leyft sér það að koma aðeins upp í örstuttum andsvörum.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra varðandi skattamálin. Það var starfandi nefnd á hans vegum að skoða jaðarskattana og hún skilaði sinni skýrslu. Framhaldið hjá ráðherranum er að skipa aðra nefnd til þess að fara í einhvern samanburð að því er varðar skattamálin. Hefur ráðherrann hugsað sér eitthvað raunhæft í því á þessu ári? Munum við sjá það nú fyrir jólin, fyrir fjárlagagerðina eða á þessu þingi, að ríkisstjórnin muni gera einhverjar tillögur um breytingar á skattkerfinu? Hvernig verður þessi nefnd skipuð sem ráðherrann boðar? Má vænta þess að aðilar vinnumarkaðarins komi að þeirri vinnu eða hvernig verður vinnunni háttað varðandi þá þætti?

Herra forseti. Ég held að það sé ekkert nýtt á ferðinni í þessum fjárlögum. Þau endurspegla hvar forgangur ríkisstjórnarinnar liggur og það er alveg augljóst hvar hann liggur, að vernda sérhagsmuni gegn almannahagsmunum. Það er boðskapur þessarar ríkisstjórnar. Hún meinar ekkert með opinberri fjölskyldustefnu sem stjórnarandstaðan lagði mikið kapp á að yrði afgreidd á þessu þingi. Ef hún meinar eitthvað með opinberri fjölskyldustefnu þá hljóta fjárlög að endurspegla (Forseti hringir.) stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. En það er alveg ljóst að ríkisstjórnin ætlar að hafa opinberra fjölskyldustefnu þannig að hún sé bara sem pappírsplagg og til skrauts en ekki til að framkvæma og það er ekki til þess að bæta hag fjölskyldunnar (Forseti hringir.) sem þingmenn stóðu þó í meiningu um að að væri stefnt.