Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 13:56:35 (143)

1997-10-08 13:56:35# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[13:56]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er afar erfitt að taka þátt í umræðunni hér þegar ljóst er að hv. þingmenn eru ekki viðstaddir og hlýða ekki á vissan hluta umræðnanna. Ég vil byrja á því að segja að sumt af því sem hv. þm. ræddi og spurði um var hér til umræðu í gær og var til svara í gær. Það varðar í fyrsta lagi skattanefndina sem var ítarlega farið yfir og ætla ég ekki að endurtaka það. Í öðru lagi vil ég benda á, þó að það hafi ekki komið fram í gær, að varðandi fæðingarorlof feðra er ljóst að feður í starfi hjá hinu opinbera hafa engan rétt. Þeir munu nú fá réttinn og það er ætlast til þess að stofnanirnar borgi kostnaðinn af því með þeim fjármunum sem þær hafa enda er ekki um stórkostlegar fjárhæðir að ræða í þessu sambandi og þess vegna er engin sérstök fjárveiting til stofnananna, enda vitum við ekki nákvæmlega hverjir það munu verða og hvar þeir starfa sem munu eignast börn á næsta ári. Eins og hv. þm. veit er meðgöngutími níu mánuðir og þess vegna útilokað að koma því þannig fyrir.

Þá vil ég víkja að því sem hv. þm. sagði um hallann á yfirstandandi ári. Hv. þingmanni er mjög vel ljóst að á yfirstandandi ári er verið að greiða vexti sem ekki var gert ráð fyrir af skuldabréfum sem ekki áttu að greiðast á þessu ári en talið var heppilegt til þess að lækka vextina að kalla skuldabréfin inn. Það eru 4 milljarðar kr. og það skýrir hvers vegna halli verður á fjárlögum samkvæmt fyrirliggjandi áætlun, ellegar hefði afgangur orðið upp á tæpar 1.300 milljónir samkvæmt áætlun nú, en í fjárlögunum var afgangurinn 100 milljónir.

Varðandi það að 7 milljarða vanti í fjárlögin þá var því svarað mjög duglega hér í gær og enginn hefur enn gert athugasemd við það svar. Og ég spyr hv. þingmann: Hvað er það í svari mínu, sem flutt var hér í ræðu minni í gær, sem hv. þingmaður vill gera athugasemdir við varðandi 7 milljarðana? Eða er hv. þingmaður eingöngu að éta þetta upp eftir minni hlutanum í fjárln. án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut kynnt sér málið? Ég vil fá svör við því hér í þessu andsvari.