Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 14:29:23 (149)

1997-10-08 14:29:23# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einn maður sem er í því hlutverki að vera eins konar snagi fyrir hæstv. heilbrrh. Ingibjörgu Pálmadóttur og á hann hengir hún hatt sinn jafnan. Það er Sighvatur Björgvinsson. Það er alveg sama hvað menn ræða í stefnu heilbrrn. Alltaf er bent á Sighvat Björgvinsson.

Við lögðum á þjónustugjöld á sínum tíma og ég er þeirrar skoðunar og hef sagt það áður í þessum ræðustól, að ég tel að sú ríkisstjórn hafi gengið of langt á þeirri braut. Hæstv. núv. heilbrrh. hélt 343 ræður um heilbrigðismál á síðasta kjörtímabili. Flestar þeirra fjölluðu um þjónustugjöldin. Framsfl. lagði af stað í kosningabaráttu með það á vörum hvers einasta þingmanns að það ætti að lækka þjónustugjöldin. Einstakir þingmenn gengu svo langt að segja: ,,Það á að afnema þau.`` Er ekki kominn tími til þess, herra forseti, að þessi hæstv. heilbrrh. standi við orð sín í staðinn fyrir að koma hérna og segja: ,,Við höfum bara hækkað um 5%``? Hæstv. ráðherra ætlaði að lækka þjónustugjöldin og einstakir þingmenn Framsfl. vildu afnema þau öll. Niðurstaðan er þessi: Þau hafa hækkað og þá þýðir auðvitað ekkert að vísa til hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Ég bið hæstv. ráðherra að lesa t.d. það sem hefur komið fram hjá þingflokki jafnaðarmanna og hjá formanni Alþfl. um þessi mál. Menn hafa sagt hreinskilnislega, af því að menn eiga að gera það ef þeim finnst svo: ,,Við gengum of langt.`` Hvað höfum við okkur til málsbóta? Við höfum okkur það til málsbóta að það ríkti dýpsta og lengsta kreppa sem hefur komið um langt skeið. Núna koma hæstv. ráðherrar og segja: ,,Það er góðæri.`` Er þá ekki kominn tími til þess að Framsfl. minnist hinna gömlu orða og noti góðærið þá m.a. til þess að framfylgja þessari stefnu sinni?

Í annan stað, herra forseti. Ég spurði ítarlegra spurninga um Sjúkrahús Reykjavíkur. Hvers vegna? Vegna þess að ég kaus að taka það sem dæmi um glansmyndina. Ég kaus að leggja það undir smásjá mína eins og mér var frekast unnt í krafti þeirra upplýsinga sem hægt er að lesa úr þessu frv. og eru mjög misvísandi. Og ég þykist hafa fært sterk rök að því að það er engin innstæða fyrir glansmyndinni. Ég spyr: Hvað þá með afganginn af frv.? Ég spurði hæstv. ráðherra margra spurninga og vænti þess a.m.k. að hún svari þeim þá í ræðu sinni síðar í dag.