Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 14:37:14 (152)

1997-10-08 14:37:14# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:37]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég sé að fjmrh. er í hliðarherbergi þannig að hann mun væntanlega verða hér til þess að eiga orðastað við mig eða a.m.k. hlýða á mál mitt. Eins og fram hefur komið hjá býsna mörgum ræðumönnum, sem rætt hafa frv. til fjárlaga, er um veigamiklar breytingar að ræða í allri uppsetningu frá því sem áður hefur verið og frv. að mörgu leyti enn viðameira en áður. Hins vegar hefur einn óbreyttur þingmaður ekki ýkjalangan tíma til þess að ræða um innihald þess og það hafa landsmenn ekki heldur og þess vegna hefur fjmrh. gefið út það sem hann kallar vasafjárlög og á þeim stendur að í þeim séu upplýsingar í hnotskurn. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að ég hef tæpast tíma til þess að gera miklu meira en ræða um það sem hér er tæpt á í hnotskurn.

Það sem kom mér kannski fyrst og fremst af stað í þá umræðu er opna í vasafjárlögunum ráðherrans með yfirskriftinni Landsbyggðin og gróska í efnahagslífinu. Þar kemur fram að til þess að styrkja búsetu í landinu --- ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. sé í salnum, herra forseti, --- að til þess að styrkja búsetu á landsbyggðinni þurfi að forðast sértækar aðgerðir. Þetta þótti mér mjög merkilegt vegna þess að ég man ekki betur en það hafi verið ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem setti 300 millj. í Vestfjarðaaðstoðina frægu. Var það þá sértæk aðstoð til þess að veikja byggðina á Vestfjörðum? Hefur ekki ríkisstjórn Davíðs Oddssonar haldið Byggðastofnun gangandi, stofnun sem er ein allsherjar sértæk aðgerð? Var það ekki þessi ríkisstjórn sem fól Byggðastofnun að úthluta sérstaklega 500 þorskígildistonnum? Er það ekki sértæk aðgerð? Og hvað með Nýsköpunarsjóðinn góða? Einn milljarður, eyrnamerktur til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni, er það ekki sértæk aðgerð? Um hvað eru menn að tala? Hvaða bull er þetta eiginlega? Samkvæmt frv. til fjáraukalaga, sem liggur á borðum þingmanna, eiga 60 millj. kr. að renna til Menntaskólans í Reykjavík til viðhalds. Það er sértæk aðgerð eða heitir það ekki sértæk aðgerð nema það sé úti á landi? Eru engar aðgerðir í Reykjavík sértækar? Er það bara landsbyggðin og er það þess vegna sem ekki má fara í þær? Þetta er afskaplega merkileg uppsetning, herra forseti, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki bara haldið áfram þeim sértæku aðgerðum sem hafa verið gangandi heldur hefur hún verið að bæta við. Hún hefur verið að bæta við en hún hefur sloppið við ákveðinn hluta sértækra aðgerða og þar nýtur hún verka annarra. Hún hefur nefnilega sloppið við þær sértæku aðgerðir sem fyrri ríkisstjórnir þurftu að fara í með reglulegu millibili vegna verðbólgu. Það hefur ríkisstjórnin sloppið við. En það er ekki hennar ávinningur, það er annars ávinningur.

Hæstv. fjmrh. leggst samt svo lágt að monta sig af nokkrum sértækum aðgerðum hinum megin í opnunni sem heitir Landsbyggðin og gróska í efnahagslífinu þar sem segir að það þurfi að forðast sértækar aðgerðir. Ég hlýt að spyrja: Ef menn vilja vera sjálfum sér samkvæmir, a.m.k. í textanum, við þekkjum verkin, af hverju er þá verið að tiltaka sérstaka hluti í þessari ákveðnu opnu? Þar er nefnt eitthvað sem er kallað Efling framhaldsskólanna um land allt og ég hlýt að spyrja: Birtist sú efling sem niðurskurður til litlu framhaldsskólanna? Við munum eftir umræðunni um Laugar, Húsavík og Kirkjubæjarklaustur á síðasta ári. Umræðan um niðurskurðinn skaðaði vissulega. Það var sannarlega sértæk aðgerð sem veikti landsbyggðina.

Á opnunni er líka talað um uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Af hverju er uppbygging hans tiltekin sérstaklega á þessari síðu sem sérstök viðleitni til að jafna aðstöðu til náms og þar með munstruð upp sem sértæk aðgerð? Það er merkilegt, herra forseti, ef ekki má fara í sértækar aðgerðir því að þær þarf að forðast ef menn ætla að styrkja byggð í landinu samkvæmt síðunni sem er aðeins þarna á móti. En ég spyr aftur: Hvers vegna Háskólinn á Akureyri? Hefur sú uppbygging verið eitthvað sérstök umfram það sem telja má eðlilegt og svæðið eða skólinn hafa getað staðið undir? Af hverju þarf að nefna það þarna? Háskólinn á Akureyri fær 13 millj. kr. raunhækkun rekstrar í ár og þar af 6 millj. vegna stækkunar bókasafns og þess háttar og 7 millj. vegna aukins námsframboðs og fjölgunar nemenda en ætli nemendum fjölgi ekki um 20% á milli ára. 13 millj. eru náttúrlega alveg stórkostlegt til að mæta því. Einnig er talið upp í opnunni góðu sérstakt verkefni til að nýta upplýsingatækni til að styrkja búsetu í landinu. Ég vek aftur athygli á því að þetta er í opnunni þar sem varað er við sértækum aðgerðum því þær séu ekki til að styrkja byggð í landinu. Ég man eftir ritinu Í krafti upplýsinga, en hvað svo? Hvar er þetta sérstaka verkefni til að nýta upplýsingatækni að finna og hvað er svona sérstakt við það að það er ekki sértækt þó að það sé sérstakt verkefni til að styrkja búsetu? Stærsta sértæka aðgerðin, herra forseti, í opnunni sem má ekki fara fram samkvæmt þessari nýju formúlu er e.t.v. þess vegna nefnd á sama stað en það er að fjárfesta í samgöngum. Það er einmitt nefnt líka þarna undir hinum sértæku aðgerðum sem þarf að forðast vegna byggðarinnar í landinu en þar er gert ráð fyrir eins og menn vita niðurskurði frá mörkuðum tekjustofnum um rúmlega milljarð króna, meira en í fyrra, en gjöld af umferðinni, sem er tekjustofn Vegagerðarinnar í landinu, eru nú áætlaðir rúmir 8 milljarðar kr.

Herra forseti. Þetta er býsna mikill árangur í sértækum aðgerðum. En það er ótrúlegt að fjmrh. skuli láta annað eins bull og þetta frá sér fara í bæklingi sem þeir kalla vasafjárlög. Hér stendur ekki steinn yfir steini. Hins vegar væri fróðlegt að heyra útskýringar hæstv. fjmrh. á því sem hér stendur að til að styrkja búsetu á landsbyggðinni þurfi að forðast sértækar aðgerðir. Það væri fróðlegt að heyra það og þá ekki síður hvers vegna þeir tilteknu hlutir, sem eru síðan taldir upp í opnunni, eru þar taldir upp fyrir utan aðrar sértækar aðgerðir sem ríkisstjórnin er í, hefur verið í og virðist ætla að verða í.

[14:45]

Þessi ríkisstjórn er auðvitað líka með sértæka skatta vegna sérstakra aðgerða. Að sjálfsögðu, þó það nú væri. Eitt af því sem við hljótum að velta fyrir okkur þegar við skoðum fjárlagafrv. og veltum fyrir okkur árangrinum í ríkisfjármálum eru skattarnir. Miðað við frv. aukast skatttekjur ríkissjóðs frá í ár um 7 milljarða á sambærilegum grunni en afgangurinn er bara hálfur milljarður. Ekki er þetta sett svona upp í vasafjárlögunum, herra forseti, hreint ekki. Ekki er heldur gumað af því að rekstrargjöld stofnana ríkisins séu að hækka um 1% að frádregnum þjónustutekjunum. Rekstrartilfærslurnar eru óbreyttar. Það er öll róttæknin, það eru allar breytingarnar og að viðhaldskostnaður lækkar um tæp 4% að raungildi. Nei, um þetta fjalla vasafjárlög fjmrh. ekki.

Á bls. 21 í frv. sjálfu segir að erlendar skuldir ríkissjóðs muni ekki lækka sem hlutfall af landsframleiðslu heldur standa í stað á þessu ári og því næsta með auknum viðskiptahalla. Þetta er ekki í vasafjárlögunum þó að landsframleiðslan sé þar notuð sem viðmið við flesta hluti einfaldlega vegna þess að hún hefur vaxið ár frá ári og færir okkur að sögn forsrh. upp í eitt af sætunum sem ríkustu þjóðir í heimi verma.

Við veltum auðvitað fyrir okkur hvar er hinn stóri árangur í ríkisfjármálunum. Herra forseti. Við vitum af blíðunni í hinum ytri skilyrðum en af því að ég hef vísað í vasafjárlögin þar sem smjörið drýpur af hverju strái nema auðvitað á opnunni þar sem taldar eru upp sérstakar ráðstafanir sem landsbyggðinni gæti stafað ógn af er fróðlegt að skoða málið betur. Hver á hlutur menntamála að verða í góðærinu? Ein fyrirsögnin í vasafjárlögunum er: Meira til heilbrigðismála og menntunar.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði áðan ágætlega grein fyrir því góðæri sem ríkir í heilbrigðismálunum og önnur fyrirsögn segir: Minna til atvinnumála. Fyrst um atvinnumálin, herra forseti. Í fjárlagafrv. segir orðrétt:

,,Framlög til landbúnaðar lækka í samræmi við búvörusamning en á móti kemur sérstakt framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins umfram ákvæði samningsins.``

Þarna lýsir sér líklega viljinn til að lækka framlög til atvinnumála. Enda kemur í ljós þegar borið er saman að framlög til landbúnaðar eru hærri en framlög til menningar eða 7,7 milljarðar á móti 4 milljörðum. Ég vona að mér fyrirgefist þó ég taki kirkjuna út úr menningarkaflanum. Hún gæti allt eins átt heima annars staðar. Í séryfirliti málaflokka gjalda kemur einnig fram að bein útgjöld vegna sjávarútvegs séu um það bil 2,5 milljarðar þannig að ef við bætum sjómannaafslættinum við erum við að tala um a.m.k. 4 milljarða til sjávarútvegsins. Er þetta það sem verið er að hrósa sér af í vasafjárlögunum? Hver er árangurinn þarna?

Þá ætla ég að víkja að útgjöldum til menntamála en þar hefur ekki orðið raunhækkun í 10 ár. Árið 1988 var 20,5 milljarðar til menntamála. Í ár eru þeir 15 en það er vegna þess að 5,5 milljarðar hefur verið fluttur yfir til sveitarfélaganna vegna grunnskólans á þessu tímabili. Á sama tíma og talan hefur staðið í stað hafa heildartekjur ríkisins vaxið um 23,5 milljarða. Þarna erum við að bera saman sambærilegar tölur sem segja okkur allt um það hver tök Sjálfstfl. hafa verið á þessum málaflokki. Í frv. kemur fram að rekstrargjöld ráðuneytisins hækki samkvæmt frv. um rúmlega 300 millj. kr. frá fjárlögunum 1997 en ég bendi á vegna samanburðar að í frv. til fjáraukalaga, sem liggur á borðum þingmanna, er farið fram á tæplega 150 millj. til viðbótar fyrir þetta ár eða um það bil helminginn af þeirri aukningu sem talað er um að verði á næsta ári miðað við frv. í fyrra. Því miður væri því nær að tala um stöðnun en aukningu.

Við skulum líta aðeins nánar á það sem kemur fram. Í frv. til fjárlaga kemur fram að til háskóla sé aukningin tæplega 80 millj. kr. vegna fjölgunar háskólanema og aukins húsnæðis. Það er ekki há tala inn í svelt kerfi. Breytingar eru hins vegar og hafa verið geysilega miklar á fjölda þeirra sem stunda háskólanám. Fyrir 10 árum fóru 24% þeirra sem útskrifuðust úr framhaldsskólum í háskólanám. Núna eru þeir um 36%. Reiknað er með að 7.300 nemar hefji í ár háskólanám en árið 2000 verða þeir orðnir 9.000. Við þessu þarf að bregðast með öðru en stöðnun og niðurskurði, herra forseti.

Líka er fróðlegt að skoða breytingarnar á framlögum til Lánasjóðs ísl. námsmanna þegar verið er að skoða framlög til menntamála. Ef við skoðum Lánasjóð ísl. námsmanna á föstu verðlagi og horfum líka til ársins 1988 hefur það gerst á þessu tímabili að framlagið í ár verður einungis um það bil 60% af því sem það var þá þannig að framlag til beinnar námsaðstoðar hefur minnkað sem því nemur, þ.e. um rúman milljarð. Það kemur fram að frá því í fyrra stendur til að hækka framlag til LÍN vegna breyttra laga um rúmlega 100 millj. kr. Þrátt fyrir þá hækkun vilja fulltrúar menntmrh. í stjórn sjóðsins þrengja að námsmönnum frá því er var. Það hefur komið fram að stjórn lánasjóðsins, þ.e. meiri hluti hennar þar sem menntmrh. ræður, hefur ákveðið að nemendur í þeim greinum þar sem eru fjöldatakmarkanir við Háskóla Íslands fái aðeins eitt tækifæri á námslánum en ekki tvö eins og verið hefur. Hér er ekki um það að ræða, herra forseti, að nemendur uppfylli ekki námskröfur heldur er um fjöldatakmarkanir að ræða og um verulega þrengingu að ræða auk þess sem þessi ákvörðun stjórnarinnar er tilkynnt eftir að skólar eru komnir af stað. Þetta var um háskóla. En lítum aðeins á framhaldsskóla vegna þess að þar erum við að starfa eftir nýjum lögum sem kalla sannarlega á meira framlag.

Einungis er talað um 78 millj. kr. aukningu inn í framhaldsskólana vegna fjölgunar framhaldsskólanema, aukins húsrýmis og nýrra laga. Er nemendunum þó að fjölga um hátt á annað þúsund milli ára og kostnaðarauki vegna kjarasamninga kennara er ekki metinn sérstaklega.

Nú er margt er nýtt í kaflanum um framhaldsskóla inni í fjárlagafrv. en þarna eru þó atriði sem segja manni að það þurfi að skoða betur undir teppið. Við hljótum t.d. að velta því fyrir okkur hverjum framhaldsskólarnir eru að greiða 170 millj. kr. leigu fyrir húsnæði. Við sjáum reyndar á öðrum stað að hinn nýi sjóður, fasteignir framhaldsskóla, á að fjármagnast af þessari leigu sem framhaldsskólarnir greiða sjálfir, 170 millj. Auk þess eiga að renna í hann 30 millj. sem er leiga vegna heimavistarhúsnæðis og litlar 10 millj. koma úr ríkissjóði. Þetta er hinn nýi viðhaldssjóður framhaldsskólanna, tekinn af framlögum til framhaldsskólanna.

Herra forseti. Í fjáraukalagafrv. kemur einnig fram að nokkrir framhaldsskólanna glíma við mikinn uppsafnaðan rekstrarhalla og þar kemur m.a. fram að 130 millj., sem voru orðnar umframgreiðslur þessara skóla um síðustu áramót, verði teknar af fjárlögum ársins í ár. Ég verð nú að viðurkenna að ég skil ekki alveg svona hundakúnstir en að minnsta kosti er ljóst á þessu að óbreytt framlög duga ekki fyrir óbreytta stefnu, hvað þá fyrir þær viðbætur sem eiga að verða vegna nýrra framhaldsskólalaga og í öðru lagi að niðurskurðurinn í ár þótti greinilega ekki nægur.

Herra forseti. Rétt í lokin. Formaður fjárln. er reyndar vikinn úr salnum aftur en ég vona að hann heyri samt til mín. Hann baðst vægðar í gær í ræðu sinni fyrir útgerðina í landinu vegna krafna um að þjóðin öll njóti réttláts arðs af sameign sinni, auðlindinni í hafinu. Útgerðinni biður hann vægðar á meðan markaðir tekjustofnar til menningar- og velferðarmála eru skertir og stöðnun er í framlögum til menntamála. Menntamála þar sem flestir eru sammála um að við verðum að taka til hendi ef við eigum að halda í í samkeppni um fólk og lífskjör í framtíðinni. Framkvæmdasjóður fatlaðra er skertur um 235 millj. til að setja í ríkissjóð. Skerðingarákvæði eru enn gagnvart endurbótum menningarbygginga eða þjóðarbókhlöðuskattinum, þar koma 200 millj. í ríkissjóð. Þetta er næstum afgangurinn góði sem gumað er af í vasafjárlögunum, virðulegi forseti.

Hvað segir frv. um framlög til atvinnumála umfram það sem ég gat um áðan varðandi landbúnað og sjávarútveg? Það er ýmislegt athyglisvert. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. fjmrh. einnar spurningar um atvinnumál, um stuðning við fyrirtæki. Í kaflanum um eftirgjöf gjalda kemur fram að fyrirhugað er að tollar og vörugjöld af innflutningi Landssíma Íslands hf., sem er fyrirtæki svo langt úti í bæ að við þingmenn megum ekki fá meiri upplýsingar um innri mál en þær sem birtast í reikningunum, fyrirtæki sem ekki er til í efnisyfirliti frv. til fjárlaga, enda hf., á samkeppnismarkaði. Er eðlilegt að hið opinbera, að ríkissjóður, að við gefum eftir gjöld og tolla til fyrirtækis sem búið er að marka með þessum hætti og er orðið hf. til að vera á samkeppnismarkaði? Hvað með hin? Hvað með jafnræði? Er þetta ekki tóm vitleysa? Ég held að við verðum að fá svar við þessu. En fleira segir okkur, herra forseti, að þetta frv. er enn þá frv. sem styður velferðarkerfi fyrirtækjanna fram yfir velferðarkerfi fólksins.