Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 14:57:57 (153)

1997-10-08 14:57:57# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[14:57]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara vegna síðustu fyrirspurna sem komu fram hjá hv. þm. Ég kann ekki að svara betur en svo að ég býst við því að hugmyndin sé sú að gefa fjmrh. heimild í fjárlögunum til þess að fella niður þessi gjöld af því að þau eru af því sem við getum kallað grunngerð í símakerfinu hér á landi. Ég tek undir með hv. þm. að vegna samkomulags við aðrar Evrópuþjóðir, þá getum við ekki gert mun á Pósti og síma hf. og öðrum félögum sem starfa í sama geira en ég hygg að eðlilegt sé í framhaldi af því sem áður hefur verið gert að veita eftirgjöf af gjöldum ef um er að ræða gjöld til þeirrar grunngerðar sem tilheyra símalögnum um land allt. En að sjálfsögðu verður þess gætt þegar og ef heimildina á að nota að þar sé jafnræðis gætt gagnvart öðrum fyrirtækjum.

Ég vil einnig láta það koma fram vegna þess að Póst og síma, sem verður sjálfsagt tvö fyrirtæki innan tíðar, ber á góma að fyrirtækið mun að sjálfsögðu greiða skatta á næsta ári og ég á von á því að skattgreiðslur fyrirtækisins verði talsverðar. Og þótt arðgreiðslur fyrirtækisins lækki eitthvað muni það verða bætt upp með aukinni skattgreiðslu fyrirtækisins. Þetta vildi ég að kæmi fram til þess að ljóst sé að fyrirtækið mun skila til ríkisins verulegum fjármunum strax á næsta ári.