Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 15:04:26 (156)

1997-10-08 15:04:26# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:04]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um það að auðvitað eigum við að beita almennum aðgerðum fyrst og fremst. Hins vegar hefur þessi ríkisstjórn verið býsna liðug við að beita sértækum aðgerðum. Þess vegna er þessi texti svo merkilegur. Hann er svo merkilegur þarna því það er beinlínis varað við sértækum aðgerðum vegna þess að þær grafi undan byggð í landinu. Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Svona málflutningur gengur ekki upp.

Já, ég er viss um að þessi vasafjárlög munu koma að góðu gagni á ýmsum fundum enda er þar saman komið fyrir utan bullið og þvaðrið á þessari landsbyggðaropnu, samansafn af, ég vil ekki kalla það beinlínis lygi, en stundum er talað um hálfsannleik sem er einatt verri. Þar eru gefnar upplýsingar um það sem hentar. Þar birtist góðærið. Þannig að ég er alveg handviss um að þetta plagg kemur að góðu gagni þar sem menn virkilega vilja kynna góðærið, vilja einungis sýna hina svart/hvítu hlið en gleyma því að lífið er í öllum litunum, allt litrófið, ekki bara svart/hvítt. (Fjmrh.: Hv. þingmenn jafnaðarmanna hafa talað hér um góðærið.)