Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 15:21:51 (158)

1997-10-08 15:21:51# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:21]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þingmanns vil ég taka fram að það er ekki hægt að sortéra söluhagnaðinn niður á einstök fyrirtæki sem hugmyndin er að selja, þ.e. hlutafé úr einstökum fyrirtækjum. Við höfum undir hlutafé sem er skráð í eignum ríkisins upp á 4,3 milljarða. Það eru hugmyndir um það af okkar hálfu að fyrir þetta hlutafé megi fást 6,2 milljarðar og að söluhagnaðurinn verði þess vegna 1.900 millj. kr. Ljóst er að sum fyrirtæki munu fást á betra markaðsverði en önnur. Ég get ekki sortérað þetta niður á þau fyrirtæki sem um er að ræða. Ég vil þó geta þess að Sementsverksmiðjan er eitt þessara fyrirtækja eins og fram kom hjá hv. þingmanni, ég þekki nú reyndar skoðanir hans á því máli. Önnur eru Áburðarverksmiðjan, Aðalverktakar og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins og auðvitað er um fleiri eignir að ræða sem eiga að ná þessum 1.900 millj. kr. Það er ekki hægt að gefa þetta upp enda verður markaðurinn að ráða því hvað fæst fyrir þessar eignir yfirleitt.

Ég vil svo að síðustu nota tækifærið til að þakka hv. þingmanni, þó að það eigi kannski ekki við í andsvari, fyrir hans góðu orð í minn garð.