Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 15:28:11 (163)

1997-10-08 15:28:11# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:28]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða í kjölfar fróðlegra orðaskipta þeirra flokksbræðra, hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar og hæstv. fjmrh., að fara nokkrum orðum um efnisatriði þeirra orðaskipta. Þau sögðu okkur nefnilega ýmislegt. Þau færðu okkur heim sanninn um það, og raunar staðfesti hæstv. ráðherra það, að í fjölmörgum tilvikum væri sala ríkisfyrirtækja fyrst og síðast trúarbrögð. Hv. þm. Guðjón Guðmundsson gerði mjög glögglega grein fyrir því út frá talnalegum forsendum, og hæstv. ráðherra bar ekki brigður á það, að fyrirhuguð sala á Sementsverksmiðju ríkisins skilaði ríkissjóði nákvæmlega ekki nokkrum sköpuðum hlut. Raunar gæti mínustalan orðið einhver þegar litið væri til þess, eins og hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði, að hún mundi leiða til stórhækkaðs sementsverðs. Þetta er býsna fróðlegt. Betur væri að fleiri aðdáendur einkavinavæðingarinnar hefðu verið hér í salnum, þingmenn á borð við Árna M. Mathiesen, og hlustað á flokksbróður sinn Guðjón Guðmundsson fara yfir það með skýrum rökum hvað þetta er nú allt brothætt, hvað þessi trúarbrögð frjálshyggjunnar eru brothætt og gagnsæ þegar allt kemur til alls --- að selja bara til að selja. Mikið lifandis skelfing er mikil ástæða til þess að hv. þm. Guðjón Guðmundsson komi hér oftar upp og geri glögga grein fyrir því á hvaða leið hæstv. ríkisstjórn er þegar kemur að þessum trúarbrögðum. Því það er auðvitað ekki bara Sementsverksmiðja ríkisins, sem á raunar heimilisfestu í heimabæ hans Akranesi, sem áhöld eru um hvort skynsamlegt sé að fara með út á markað undir þeim formerkjum sem ríkisstjórnin hefur gert. Þetta er mikilvægt atriði.

[15:30]

Ef við víkjum að þeim málum sem eru til umræðu, fjármálafrv. hæstv. fjmrh. og raunar ríkisstjórnarinnar allrar, verður ekki undan því vikist, virðulegi forseti, að fara nokkrum orðum um eðli umræðunnar og hvernig hún hefur gengið fram. Venju samkvæmt hefur hæstv. fjmrh. verið þaulsetinn eins og sjálfsagt er og tekið þátt í umræðu eftir því sem efni hafa staðið til. Hitt er auðvitað athyglisvert að fagráðherrar ríkisstjórnarinnar, forustumenn hennar, formenn stjórnarflokkanna, ráðherrar útgjaldafrekra ráðuneyta á borð við heilbrigðismál, félagsmál og samgöngumál hafa lítið sem ekkert látið sig varða umræðuna. Ég geri satt að segja ekki allt of mikið með það að þeir sitji undir ræðum okkar stjórnarandstæðinga en ég kalla eftir því að fram komi stefnumörkun og sýn af hálfu fagráðherranna --- ég bið hæstv. heilbrrh. til að mynda, af því að hún er í salnum, að leggja við hlustir --- að við fáum allítarlega ræðu um það hvernig hún sér kafla fjárlagafrv. ganga fram hvað varðar þjónustu við almenning á heilbrigðissviðinu. Ég er ekki að biðja um tveggja mínútna andsvar, ég er að biðja um hugsaða ræðu þannig að þingheimur geti glöggvað sig á því hvað hún ætli sér að gera á komandi fjárlagaári.

Að því er ég veit best hafa verið haldnar 17 til 18 ræður og enn þá eru eftir fimm eða sex hv. þm. á mælendaskrá. Síðast þegar ég vissi var ekki einn einasti ráðherra ríkisstjórnarinnar að hæstv. fjmrh. undanskildum sem hafði séð ástæðu til að skrá sig á mælendaskrána og ætla þeir sem sé að skila fullkomlega auðu í umræðunni. Sérstaklega er það eftirtektarvert í ljósi þess að um nokkurra ára skeið hafa menn unnið frv. samkvæmt svokölluðum rammafjárlögum sem þýðir að einstök fagráðuneyti eiga að bera stóraukna ábyrgð á útgjaldaramma sínum og fá tiltölulega mikið sjálfdæmi um að fylla inn í hann með þeim verkefnum sem þessir ráðherrar telja æskileg og nauðsynleg. Auðvitað er algerlega fráleitt að hið háa Alþingi skuli ekki verja nema tveimur eða þremur dögum til umræðunnar eins mikilvæg og gagnleg og hún á að vera án þess að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar leggi eitt einasta orð í þetta púkk annað en að standa til svara í einhverjum snöggum skeytastíl í andsvörum. Ég kalla eindregið eftir því og vísa til að mynda, af því það ber svo vel í veiði að hæstv. heilbrrh. er hér, að hún standi við þau orð sín sem hún lét falla, að vísu við annað tilefni, í umræðu um störf þingsins fyrir nokkrum dögum, þar sem hún kallaði einmitt eftir því, sagði að það væri tilhlökkunarefni að fá hér ítarlega og góða umræðu um heilbrigðismálin. En ætlar ráðherrann að vera stikkfrí í henni? Ætlar hún ekki að vera með? Á þingheimur ekkert að vita um það hver eru sjónarmið hennar og stefnumið á komandi fjárlagaári eða er hæstv. fjmrh. einráður um þetta? Eru rammafjárlögin bara plat og vitleysa? Ræður hann þessu öllu saman þegar allt kemur til alls eins og menn hafa raunar haldið fram í einstaka ráðuneytum? --- Nú kemur fagnandi hæstv. samgrh., (Samgrh.: Ræðan var svo góð að ég vildi nálgast ræðumanninn) og væri ástæða til að hann færi að líta yfir fjárlagafrv. og færi að segja okkur hvaða sýn hann hefði til að mynda á sinn málaflokk, samgöngumálin, sem eru í rjúkandi rúst eftir býsna góða frammistöðu ráðherrans til nokkurra ára. En hann er algjörlega þrotinn öllum kröftum og hættur og lætur hæstv. fjmrh. um að svara fyrir að átakið gamalkunna í samgöngumálum er liðin tíð. Það hætti bara þegar fráfarandi ríkisstjórn fór frá völdum og Framsókn tók við. Með öðrum orðum, eigum við ekkert að heyra frá hæstv. samgrh. Halldóri Blöndal um sýn hans í samgöngumálum þjóðarinnar? (Fjmrh.: Hann sprengir bara.) Já, hann sprengir bara segir hæstv. fjmrh. og má kannski lesa úr þeim orðum hans að hann sprengi umræðuna í loft upp og verði til þess að setja hana í annan farveg en hæstv. fjmrh. þóknast. Það er auðvitað hættan, mann grunar það. Annaðhvort er hæstv. ráðherrum ekki treystandi eða trúandi til þess að fara í almenna umræðu um fjárlög íslenska ríkisins um málaflokka sína eða þá að hæstv. fjmrh. hefur sagt þeim að, fyrirgefðu orðbragðið, virðulegi forseti: ,,hold kæft`` vegna þess að þeir gætu sprengt hana í loft upp og farið óvarlega með staðreyndir. Það er nauðsynlegt, virðulegi forseti, að hafa nokkur orð um þetta. Þetta er svo sláandi og þögnin er hrópandi.

Nokkur orð um form frv. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í það, aðrir ræðumenn hafa gert það, það er auðvitað til bóta. Ég ætla ekki að draga neitt úr því. Það að fara af þessum greiðslugrunni á rekstrargrunninn er auðvitað satt og rétt. --- Undrar mig nú ekki, virðulegi forseti, að þeir hópist í kringum hæstv. fjmrh. og leiti upplýsinga um fjárlagafrv. Það kann að vera að þeir ætli að verða við óskum mínum um að þeir segi okkur sýn sína og stefnumörkun í málaflokkum ráðuneytanna.

Ég vil hins vegar nefna það við hæstv. fjmrh. að þegar menn eru að reyna ná fram heildarmynd af umsvifum ríkisins, skuldbindingum þess innan fjárlagaársins, þeim breytingum sem rekstrargrunnurinn kallar á, að allar áfallnar skuldbindingar, hvort sem þær verða greiddar eða ekki, verði sýnilegar og einnig hitt sem menn hafa verið að feta sig áfram með um kynslóðareikninga framtíðarinnar, hvort menn eigi ekki að ganga lengra fram í þessu sambandi. Getum við ekki vænst þess að fá raunverulegan efnahagsreikning ríkisins til að mynda í rekstrarreikningi og hvort það hefði ekki verið eðlilegt út af fyrir sig til upplýsinga, að menn stilltu upp slíkum efnahagsreikningi? Það er venja í öllum venjulegum fyrirtækjum. Það er venja hjá öllum sveitarfélögum. Það væru ekki bara áfallnar skuldbindingar innan viðkomandi fjárlagaárs sem væru þar með sýnilegar heldur líka aðrar áfallnar skuldbindingar lengra inn í framtíðina og er ég auðvitað að nefna þá samkomulag sem gert hefur verið við sveitarfélög um að fjármagna inn í lengri framtíð hafnarmannvirki, heilbrigðismannvirki eða hvaðeina, samningar jafnvel um verktaka, um lán til lengri tíma þannig að við fengjum alla myndina upp á borðið --- og líka tekna megin sem er auðvitað ekki veigaminna. Að menn reyndu að gera sér glögga grein fyrir því hvaða verðmætum ríkið byggi yfir, þá á ég auðvitað við um landið. Ég á við hálendið, ég á við að menn reyndu að slá einhverjum tölum á það hvað heita vatnið í iðrum jarðar gæti þýtt fyrir okkur á næstu árum og áratugum. Ég nefni lendur og lóðir ríkisins. Með öðrum orðum er ég ekki að tala um neina hefðbundna eignaskrá. Hún er til, það veit ég vel. Ég er að reyna að átta mig á því hvort menn geti ekki nálgast framtíðarsýn kynslóðanna jafnt plúsmegin og mínusmegin. Ég þori tæpast að nefna fiskinn í sjónum en geri það þó samt. Þannig að menn fetuðu sig áfram á þessari braut sem ég held að sé hárrétt og reyndu að fá gleggri heildarmynd af því hvað við blasir og ekki eingöngu það sem á við á því fjárlagaári sem við erum að ræða.

Virðulegi forseti. Ég ætla að stikla á örfáum atriðum í þessu fjárlagafrv., efnisatriðum sem verður ekki undan vikist að drepa á. Það verður í stikkorðastíl sökum tímans. Ég minnist þess á dögunum að hæstv. forsrh. hafði þau orð uppi í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar að það væri dýrt að vera Íslendingur og það er hárrétt. Það er býsna dýrt fyrir fámenna þjóð að halda uppi þeirri stjórnsýslu og því velferðarkerfi sem við erum að reyna. Það kostar peninga og hagkvæmni stærðarinnar nýtist ekki eins og gerist hjá milljónaþjóðum og milljónatugaþjóðum. En það er líka dýrt að vera fátækur. Það eru líka orð að sönnu. Ég hygg að almenningur í landinu átti sig kannski betur á því nú en oft áður hversu dýrt það er að geta ekki verið þátttakandi í góðærisklúbbnum.

Það hringdi í mig maður á dögunum, launamaður, þriggja barna faðir, 26 ára gamall. Hann vinnur á bifreiðaverkstæði í Reykjavík, þetta er karlmannavinnustaður, þeir eru þar sex. Hann spurði einfaldlega: ,,Hvar kemst maður í þennan góðærisklúbb? Hvernig fer maður að því að ganga í hann?`` Saga hans var ákaflega einföld. Hún er auðvitað í líkingu við það sem gerist og gengur, ég mundi skjóta á 30--40 þúsundum heimila í landinu. ,,Við strákarnir vorum að bera okkur saman og það gerist bara þannig, þó að í mörgum tilfellum sé konan útivinnandi, að launin duga ekki fyrir gluggaumslögunum. Það er alltaf eitthvað sem út af stendur. Við höfum verið að brúa þetta bil með lántökum, skammtímalántöku eða lánum til lengri tíma og það hallar einfaldlega alltaf á verri veg. Við höfum verið að reyna að vinna yfirvinnu líka`` sagði þessi maður, ,,það bara dugir ekki til, þá er það tekið í skatta. Hvað á ég að gera? Hvernig kemst maður í þennan góðærisklúbb?`` sagði hann. Ég verð að játa það, virðulegi forseti, að mér var orða vant. Ég hafði engar patentlausnir. Ég benti á ýmis atriði sem auðvitað mætti bæta og gera betur og hér hefur verið drepið á af hálfu minna flokkssystkina í mörgum atriðum. Auðvitað þarf að stokka upp skattkerfið, það gefur auga leið. Skattkerfið í dag er ákaflega neikvætt fyrir ,,meðaljóninn`` og þjónar alls ekki undir hinn almenna launamann, það gefur auga leið. Í tíð ríkisstjórnarinnar hafa menn frekar verið að feta sig í þá átt að gera skattkerfið betur úr garði fyrir þann sem á umframfjármuni og vill leggja þá í fyrirtæki. Allar tilraunir til að mynda um að ná í þá sem hafa fjármuni handa á milli eru af vanmætti gerðar. Fjármagnstekjulögin sem voru samþykkt skila engu. Það sér hver maður og ekki nánda nærri því í líkingu við það sem uppleggið var í upphafi.

Ég kalla eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. gefi mér einhver svör handa þessum manni og segi mér hvar launamenn í landinu, þriggja barna feður sem eru 26 ára gamlir með laun sem eru eins og hjá þessu fyrirtæki á bilinu 80--110 þús. kr., komast í góðærisklúbbinn. Hvar á að banka upp á? Hver úthlutar þar skírteinum?

Það er búið að drepa á það hér, virðulegi forseti, sem setur þessa heildarmynd glöggt upp, að á sama tíma og hæstv. fjmrh. er að bisa við, í bullandi góðæri þar sem peningarnir renna inn í stríðum straumum, að halda fjárlögunum á komandi ári hallalausum. Honum tókst það ekki í ár, það er fyrirséð samkvæmt fjáraukalögum og ég efast stórlega um að honum takist það á næsta ári. En á sama tíma veit hann ekki af því eða virðist ekki vilja vita af því, að fjölskyldur í landinu reka heimili sín með halla upp á 25--29 milljarða kr. á hverju einasta ári. Þá er það býsna létt í vasa fyrir hinn almenna launamann þó að fjárhirðir ríkisvaldsins nái að sleppa á núllinu. Það er ákaflega létt í vasa, virðulegi forseti.

Tíminn rennur hratt frá. Ég verð því að sleppa málum á borð við samskipti sveitarfélaga og ríkisins, heilbrigðismál, barnaspítalamál, samgöngumálin og fleira. En ég get ekki látið hjá líða en að nýta þær örfáu mínútur sem ég á eftir til þess að ræða örlítið stöðu þingsins. Ég gerði það í upphafsorðum mínum með vísan til þess að ráðherrarnir væru stikkfrí í umræðunni. En málið er grafalvarlegra en það því að í fjárlagafrv. fjmrh. og ríkisstjórnarinnar allrar eru brotin lög, skýlaust og ákveðið. Í fjárreiðufrv. sem samþykkt var í vor var það algerlega frágengið og niðurnjörvað og skilningur alls þingheims að Alþingi Íslendinga hefði fyrsta og síðasta orðið um það sem lyti að fjárreiðum innan húss og hvað varðar rekstur þingsins. Ég vísa til þess, virðulegi forseti, að í grg. í nál. frá sérnefnd segir orðrétt, með leyfi forseta:

[15:45]

,,Jafnframt er lagt til að lögfest verði ákvæði um gerð og meðferð fjárlagatillagna Alþingis. Enginn vafi leikur á þeirri sérstöðu sem Alþingi hefur í stjórnkerfinu. Byggist hún á löggjafarvaldinu, þingræðisreglunni, fjárstjórnarvaldinu, eftirlitshlutverki með framkvæmdarvaldinu o.fl. atriðum. Í stjórnarskránni og almennum lögum er að finna fyrirmæli um innri starfsemi þingsins.``

Síðan segir, og það er niðurstaða í þessum kafla um fjárreiður þingsins:

,,Til samræmis við ákvæði þingskapa er hér lagt til að forsætisnefnd geri tillögu um fjárveitingar til Alþingis og stofnana þess og sendi þær forsætisráðherra sem skv. 4. tölul. 2. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands annast af hálfu framkvæmdarvaldsins samskipti við Alþingi. Er þá gert ráð fyrir að forsætisráðherra framsendi tillögurnar fjármálaráðherra sem tekur þær upp í fjárlagafrumvarpið. Ljóst er að forsætisnefnd starfar í umboði Alþingis, eða meiri hluta þess, og því er ólíklegt að tillögur hennar séu í ósamræmi við þá efnahagsstefnu sem hlutaðeigandi ríkisstjórn hefur boðað. Til að taka af allan vafa um þetta er, sbr. tilvísun nýrrar 4. mgr. í 2. mgr. greinarinnar, gert ráð fyrir að forsætisnefnd skuli við gerð fjárlagatillagnanna hafa hliðsjón af þjóðhagsáætlun. Þá er í tillögum nefndarinnar loks lagt til að ákvæðið nái einnig eftir því sem við getur átt til frumvarps til fjáraukalaga.``

Í ræðu formanns þessarar nefndar, Sturlu Böðvarssonar, núv. varaformanns fjárln., er enn þá hnykkt á þessu og sagt berum orðum að ekki komi til greina að framkvæmdarvaldið, hæstv. fjmrh., fari að krukka í þær tillögur sem frá hinu háa Alþingi koma. En hvað hefur gerst? Hvað birtist hér? Ég, sem sit í forsn. þingsins, kannast satt að segja ekkert við það sem hér er að finna og lýtur að fjárframlögum til hins háa Alþingis, kannast hreinlega ekkert við það og fæ satt að segja engan botn í hvaða stefnumörkun hér er að baki. Ég ætla svo sem ekki að spyrja hæstv. ráðherra um það. En ég gagnrýni þetta mjög harðlega og raunar er nú sárt til þess að vita að hv. þm. Sturla Böðvarsson, formaður þessarar sérnefndar, varaformaður fjárln., einn af forustumönnum Sjálfstfl. skuli ekki vera hér við þessa umræðu, geti ekki komið inn í hana í andsvörum. Ég sakna þess líka að í annars ágætri ræðu hans í gær skyldi hann ekki koma inn á þessa þætti. Niðurlægingin sem hæstv. fjmrh. sýnir hinu háa Alþingi í þessum efnum er skelfileg, hún er fyrir neðan allar hellur. Og ég geng svo langt að segja, virðulegi forseti, að hér hefur hæstv. fjmrh. og raunar ríkisstjórnin öll sem er ábyrg fyrir þessu frv. til fjárlaga gengið á svig við lög, brotið nýsett lög um fjárreiður ríkisins og þær forsendur sem þar lágu að baki.

Það er auðvitað enginn bragur á því og hið háa Alþingi á ekki að sitja undir því. Ég undrast það að ágætir hv. þingmenn stjórnarliðsins skuli hafa látið þetta yfir sig ganga og tekið þessu með þegjandi þögninni í þingflokkum stjórnarflokkanna þar sem þessi mál hafa vafalaust verið rædd og reifuð, ég gef mér það. (Forseti hringir.) Mér þykir það aumt hlutskipti af þeirra hálfu að láta framkvæmdarvaldið valta yfir sig með þeim hætti sem birtist í þessu fjárlagafrv. og lýtur að sjálfstæði Alþingis og raunar þingræði í landinu.