Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:12:54 (172)

1997-10-08 16:12:54# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:12]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég get ekki sagt annað en ég á mjög bágt með að skilja afgreiðslu tilboða samkeppnisaðila Flugleiða í þessu máli, sérstaklega þegar maður lítur til þess að jafnvel er um það að ræða að tilboðsgjafar hafi fengið villandi upplýsingar í tilboðsgögnum um það hvernig standa ætti að tilboðinu. Mér finnst einnig einkennilegt að einum tilboðsgjafanum skuli vera legið það á hálsi vegna þess að þar er um að ræða nýtt fyrirtæki sem ekki er með starfsemi og því skuli vera hafnað á þeim grundvelli.

Mér finnst líka undarlegt hversu fá tilboð bárust í þennan rekstur og það hvarflar að mér að það standi að einhverju leyti í sambandi við þessa afgreiðslu sem tilboðin hafa fengið og jafnvel í þá yfirgnæfandi samkeppnisstöðu sem Flugleiðir hafa á þessum stað og á þessum markaði öllum. Og með hliðsjón af því hversu illa Flugleiðir standa sig í því að afgreiða farþega annarra flugfélaga um farangur þegar þeir fara um flugvöllinn, þá velti ég því fyrir mér hvort ekki sé rétt þegar útboð eiga sér stað á þjónustu á þessum vettvangi að svo stórir flugrekstraraðilar séu útilokaðir frá þátttöku í útboðinu.