Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:14:38 (173)

1997-10-08 16:14:38# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:14]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Utanrrh. hefur gert glögga grein fyrir því hvernig staðið var að tilboði og útboði í veitingarekstur og annað í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og tel ég að af orðum hans megi draga þá ályktun að við getum borið fullt traust til vinnu Ríkiskaupa og óháðra aðila sem stofnunin fékk til liðs við sig í þessu máli.

Málshefjandi hins vegar gat ekki um aðalatriði þess sem hefur verið að gerast í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og geri ég þó ekki lítið úr því að hann vill ræða þessi mál hér í dag. En hvað hefur verið að gerast í Flugstöð Leifs Eiríkssonar? Þar hefur eftirfarandi gerst og það hefur gerst á þeim tíma frá því að hér fór fram utandagskrárumræða um þau efni: Ríkiseinokun hefur verið aflétt. Ríkisverslun er þó haldið áfram með öruggum rekstri Fríhafnarinnar þó að vöruval hafi þar verið dregið saman. Fjölmargir einkaaðilar í verslun og þjónustu hafa komið inn í flugstöðina og er þar því gjörbreytt andrúmsloft, gjörbreytt rekstraraðstaða og gjörbreytt samkeppnisstaða.

En það hefur fleira gerst. Sá sem hér stendur er formaður þeirrar nefndar sem gerði tillögur um breyttan rekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í tillögunum sem nefndin gaf frá sér var gert ráð fyrir að tekjuaukning vegna tilboða og útboða í verslunarrými mundi skila 110 millj. Ég get að sjálfsögðu ekki upplýst hér tölur en get þó upplýst það að mun meiri tekjur verða af þeirri starfsemi sem þarna er komin inn og ætla ég þó ekki að fara að vitna í þau orð sem hér voru höfð sem hrakspár um þetta efni.

Þá vil ég einnig geta þess sem utanrrh. sagði hér frá að störfin sem fylgja þessari nýju verslun eru ekki 50--60 eins og við gerðum ráð fyrir í okkar áætlunum heldur 70--80 og við erum ekki að tala um eitthvað sem einhvern tíma verður. Við erum að tala um störf sem þarf að fylla um næstu áramót. Störfum hefur þar að auki fjölgað í Fríhöfninni og fram undan eru þeir tímar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem við spáðum að mundu marka tímamót og það mun sannast þrátt fyrir hrakspár þeirra sem annað hafa viljað.