Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:17:33 (174)

1997-10-08 16:17:33# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:17]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að taka málið upp því að mér sýnist á öllu eins og það er lagt fram að full ástæða sé til þess. Hæstv. utanrrh. hefur komið fram og reynt að skýra út hvers vegna þetta einfalda mál, sem í því felst að fasteignasali eða fasteignaeigandi, leigusali í þessu tilviki, ríkissjóður, skuli taka tilboði þess aðila sem býður lægra í veitingasöluna. Þetta er mjög einfalt því að annar aðilinn bauð 18 millj. sem fastagreiðslu á ári og hinn 11 millj. og það eru nokkurn veginn 7 millj. þarna á milli ef mér reiknast rétt. Þær skýringar sem hæstv. utanrrh. gaf á þessu einfalda máli voru harla litlar og reyndar þannig að maður var engu nær af hverju lægra tilboðinu var tekið. Því er ekki óeðlilegt að menn taki undir þau viðhorf sem hafa verið sett fram um að hefðbundnu helmingaskipti Sjálfstfl. og Framsfl. hafi ráðið ríkjum þegar ákvörðun um veitingasöluna var tekin því að á ferðinni er ekkert smáfyrirtæki sem á næsthæsta tilboðið sem er Atlanta sem er eitt af stærri fyrirtækjum í landinu. Að bera því við að eins konar reynsluleysi valdi því að ekki sé hægt að taka tilboði þess er náttúrlega hjóm eitt og hreinn og klár barnaskapur. Að fyrirtæki með 16 flugvélar, 700 starfsmenn og 6 milljarða ársveltu hafi ekki reynslu til þess að selja samlokur. Að það geti ekki afgreitt franskar kartöflur. Hvers konar röksemdafærsla er þetta?

Því miður, virðulegi forseti, er annar angi af þessu máli líka. Hann er sá að enginn hefur gefið þeim fyrirtækjum sem áttu hærra tilboð en Flugleiðir í þessu tilviki almennilega skýringu á því hvers vegna þeirra tilboði var ekki tekið. Það er dæmt ógilt. Ég veit ekki hvers konar stjórnsýsluhættir þetta eru, virðulegi forseti, en ég vænti þess að í síðari ræðu sinni muni utanrrh. skýra málið betur og það miklu betur því að ekki fékk nokkur maður botn í þær skýringar sem hann setti fram áðan.