Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:20:05 (175)

1997-10-08 16:20:05# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:20]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þeir samningar sem eru til umræðu og varða Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafa verið í umfjöllun í fjölmiðlum í nokkuð langan tíma og menn þekkja þessa málavöxtu nokkuð vel. Ég hef lýst því sem skoðun minni að Flugleiðir eru eitt af bestu fyrirtækjum þjóðarinnar og hefur ekki og á ekki að þurfa á neinni ölmusu að halda til þess að geta stundað atvinnustarfsemi sína eðlilega. Þess vegna þurfa þeir ekki smáaleturslestur á tilboðum né einokunarsamninga sem í gildi hafa verið. Hjá Flugleiðum starfar sérlega hæft fólk til að standa í samkeppni, hvort sem er á Íslandi eða úti í heimi. Þess vegna fagna ég því sem hæstv. utanrrh. upplýsti áðan að sagt hefði verið upp einokunarsamningi sem Flugleiðir hafa haft á Keflavíkurflugvelli til afgreiðslu á borgaralegu flugi. Það var reyndar ekki gert fyrr en 18. nóvember að sögn hæstv. ráðherra en samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir því að það eigi að vera í október þannig að það er væntanlega ástæðan fyrir því að Flugleiðir hafa kært uppsögnina.

Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort verið hafi og sé til athugunar í ráðuneytinu umsókn frá Suðurflugi, sem er lítið fyrirtæki á Keflavíkurvelli, sem hefur verið að reyna að fá leyfi til að afgreiða það flug sem kemst ekki upp að landgöngu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þetta eru ferjuflugvélar og litlar flugvélar sem hafa í rauninni verið út undan í allri afgreiðslu á svæðinu og hafa þess vegna verið í Reykjavík sem hefur lagt mikla áherslu á það að geta afgreitt slíkt flug. Keflavíkurflugvöllur hefur ekki haft þá aðstöðu vegna þess að enginn afgreiðsluaðili er til þess að þjóna þessu. Þessir aðilar hafa sótt sérstaklega um þetta en hafa ekki fengið svör og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort til greina komi að þessir aðilar fái heimildir jafnt sem aðrir til þess að afgreiða flug. Ég er ekki að gera ráð fyrir því að þarna séu óteljandi aðilar að afgreiða flugvélar heldur eins og gerist yfirleitt í öllum stærri flugvöllum í heiminum að það séu í það minnsta tveir aðilar sem geta afgreitt borgaralegt flug á alþjóðaflugvöllum.