Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:22:43 (176)

1997-10-08 16:22:43# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:22]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er við hæfi að spyrja í upphafi af hverju verið er að fara út í þetta útboð yfirleitt. Það eru tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er verið að reyna að ná niður halla flugstöðvarinnar en enginn ráðherra hefur tekið á því hingað til þannig að það er mjög gott að hæstv. utanrrh. skuli núna loksins vera að taka á þessum halla.

Það er líka verið að reyna að nýta húsnæði flugstöðvarinnar til framtíðar. Mjög stórir hlutir eru að gerast í flugstöðinni núna og eru fram undan. Atlanta er að bæta við sig flugvél, Íslandsflug mun bæta við sig vél og Flugleiðir munu tvöfalda flota sinn úr 8 flugvélum í 16. Það sem er fram undan er alveg stórfenglegt.

Það er alveg ljóst að á næstu árum munum við þurfa miklu fleiri flugvélaplön. Núna eru sex ranar. Við þurfum miklu fleiri eftir eitt til tvö ár. Flugstöðin var byggð fyrir eina millj. farþega. Hún er löngu sprungin. Þar fara í gegn núna 1,2 millj. Núna fara 2--3 þúsund manns í gegnum flugstöðina á dag og að sjálfsögðu þarf mjög góðan veitingarekstur til þess að standa undir þessu og hér er ekki um að ræða sölu á frönskum kartöflum og samlokum eins og kom fram hjá einum þingmanni. Það er alveg fráleitt að tala svona úr þessum ræðustól.

Hér hefur líka verið sagt að það hafi verið gengið fram hjá gildum tilboðum. Það er ekki rétt. Nokkur tilboð bárust í veitingareksturinn og þrjú þeirra voru með tæknilega galla. Tilboð aðilanna var ekki í samræmi við útboðsgögn og allir hér inni vita að þegar menn gera útboð er mjög strangt með farið. Það var líka haldinn kynningarfundur. Það er ekki búið að villa um fyrir neinum. Það var haldinn kynningarfundur fyrir þá sem vildu gera tilboð og ekki var verið að villa um fyrir neinum þannig að eðlilega hefur verið staðið að málum að mínu mati.

Það er heldur ekki rétt að stórt flugfélag eins og Atlanta hafi verið dæmt. Það var ekki Atlanta sem var að gera tilboð. Það var Atlanta flugeldhús og menn í útboðsrekstri vita að það er verið að dæma þá sem koma með tilboðin og það er allt annað mál. Ég tel því að hér hafi verið staðið rétt að málum. Ef aðilar eru ósammála því er nærtækast að kæra málið til kærunefndar útboðsmála sem tilheyrir fjmrn. Þeir hafa fengið til sín nokkur mál og tekið á þeim reyndar einungis einu sinni. Hafa þeir mælt með því að viðkomandi aðili sem kærði þangað fengi bætur fyrir það útboð sem valið var. En ég held að mjög stórt mál sé á ferðinni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það hefur verið staðið ágætlega að þessum útboðsmálum. Því miður bárust ekki fleiri tilboð en það er ekkert sem hægt er að gera við. Ríkiskaup hefur reynt að gera þetta eftir bestu getu og ef menn eru ósáttir við það verða menn að kæra.