Útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 16:31:00 (181)

1997-10-08 16:31:00# 122. lþ. 5.92 fundur 33#B útboð og verksamningur um veitingasölu í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[16:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þau er ákaflega sérkennileg þessi misvísandi skilaboð sem við fáum frá stjórnarþingmönnum. Annars vegar koma skilaboð frá framsóknarmönnum um að verið sé að fara í útboð til að ná niður halla á flugstöðinni og hins vegar koma skilaboð um að það sé enginn halli. Ef það er halli, þá hefði maður nú a.m.k. haldið að það ætti að taka hæsta tilboði. Og ef hæsta tilboði er ekki tekið, þá þurfa náttúrlega að vera gild rök fyrir því. Rök eins og hafa komið frá öðrum framsóknarmönnum hér um að litið hafi út fyrir að tekjur af sölu í flugstöðinni yrðu mun hærri en menn gerðu ráð fyrir og að það sé einhver ástæða fyrir því að ekki sé tekið hæsta tilboði í veitingareksturinn, eru náttúrlega bara út í hött. Það vantar miklu skýrari svör frá hæstv. utanrrh. við því hvað svona vitleysisgangur eigi að þýða. Auðvitað dettur manni helst í hug að hér sé kolkrabbinn kominn með angana og búinn að krækja sér þarna í bita án þess að ég ætli að fara að setja út á þjónustu þeirra fyrirtækja sem hér eru að bítast um reksturinn.