Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 18:20:04 (186)

1997-10-08 18:20:04# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[18:20]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get sannfært og fullvissað hv. þingmann um að það hafa farið fram viðræður á milli félmrn. og fjmrn. annars vegar og Sambands íslenska sveitarfélaga hins vegar eins og á undanförnum árum. Það plagg sem hv. þingmaður er að vitna til er plagg sem forustumenn sveitarfélaganna lögðu fram á fundi í september þar sem einmitt var rætt um þessi mál. Það er ekki fyrsti fundurinn sem haldinn hefur verið því fundir voru einnig haldnir á sl. vori í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og sveitarfélögin hafa lýst því yfir að þau séu tilbúin til að ræða þetta enda vilja þau þá hafa öll málin undir.

Ég get ekki farið yfir þessi mál í einstökum atriðum í stuttu andsvari. Ég vil þó nefna sérstaklega að meðlögin höfum við ekki viðurkennt, þ.e. þær meðlagsgreiðslur sem þeir telja að eigi að ganga til þeirra, vegna þess að við teljum að við höfum þegar afgreitt það mál og að þeir eigi ekki neina kröfu á ríkissjóð. Varðandi staðgreiðslu af félagslegri aðstoð þá nær það náttúrlega ekki nokkurri átt. Það eru lög á Íslandi sem krefjast þess að staðgreiðsla sé greidd af öllum tekjum. Og það sem er nú kannski skrýtnast í þessu tilviki er að sveitarfélögin fá skattinn en ekki ríkið því að sveitarfélögin fá útsvar af öllum tekjum frá grunni og áfram en ríkið fær ekkert fyrr en sveitarfélögin hafa fengið sitt, þannig að af fyrstu 80 þús. kr. eða svo fær ríkið ekki neitt. Ríkið er því eingöngu að innheimta tekjur sem síðan er skilað til sveitarfélaganna. Þetta horfði öðruvísi við ef sveitarfélögin væru tilbúin til þess að hafna útsvari af þeim tekjum fólksins sem felast í félagslegu aðstoðinni. En það sem skiptir öllu máli er að viðræður milli aðila eru í þeim farvegi sem þær hafa verið á undanförnum árum um þetta leyti árs.